29. ágúst 2006

Hvað er eitt "sumar" á milli vina?

Sumarið búið, eins og það hafi nokkurn tíman komið. Það passar því að það líði eitt sumar á milli bloggskrifa, næstum eins og ekkert hafi liðið á milli..

Skítakuldi í vesturbænum og norðanáttin blæs.. og blæs.. og blæs vonandi ekki húsinu okkar um koll! Af Nýlendugötunni er allt gott að frétta, erum enn að leita að au-pair, ótrúlegt en satt. Við erum greinilega með svokallað negatíft aðdráttarafl þar sem okkur virðist takast að hrekja væntanleg au-pair í skóla, til annarra fjölskyldna og jafnvel annarra heimsálfa.. Þær bara vilja ekki koma til okkar! Samt reynum við hvað við getum til að lokka þær að og laða! (ég ætti þó kannski að taka nektarmyndirnar af Kristjáni af au-pair síðunni.. hmm...)

Höfum þessvegna ákveðið að ættleiða tvo litla drengi sem hvort eð er búa hjá okkur og eru þrælar okkar eins og stendur. Já.. Sigurþór og Roald héldu að sælan ein myndi bíða þeirra eftir brúðkaupið sitt, en annað kom á daginn. Þrælahald í kjallaranum og rétt svo slaki á keðjunni til að þeir nái í uppvaskið og eldavélina! Grettisgatan er sumsé "still under construction".. Tók eftir því áðan að Sissó reyndi allt til að ná símanúmerinu hjá verktakanum sem sér um aðgerðir í "Extreme makeover: Home Edition" en þeir settu alltaf einhvern texta yfir! Get samt ekki kvartað, bara gleði að hafa þá félaga hjá okkur, eldað og allt!

Veit svo sem ekki hvað er meira markvert í fréttum, fyrir utan það að þvottavélin gaf upp öndina áðan (sem er algjörlega Kristjáni að kenna, hann bara neitar að viðurkenna það, en hann stöffar hana svo að hún gat bara ekki meir) sem er ekki gott fyrir 6 manna fjölskyldu. Fer í það á morgun að fá annaðhvort læknismeðferð eða dánarvottorð!

ójú! Kristján er byrjaður á garðinum! Ætlar að smella sér í pallavinnu! Það verður frábært, enda lýstu nágrannarnir því yfir um daginn að líklega gætum við unnið verðlaun fyrir ljótasta garðinn í götunni. Held að þau þjáist að búa við hliðina á okkur!

Stelpurnar hressar, ...og nei, Rebekka er hvorki komin með tennur, hár né farin að ganga (og veldur þetta miklum áhyggjum hjá þeirri eldri, sem ber hana saman við systur Sylvíu, Henríettu, sem er 4 dögum eldri en Rebekka..).. og er það bara fínt. Þá þarf ég alla vega ekki að hafa áhyggjur af henni í stiganum strax!

Er annars að byrja í skólanum í næstu viku þannig að gleðiveturinn mikli er handan við hornið... er að bíða eftir einkunnum úr haustprófunum (prófin sem ég sleppti að taka í desember), en það er auðvitað skiljanlegt að það taki menn 3 vikur að fara yfir próf hjá 6 nemendum. REALLY!!

Jæja, nóg í bili, höndla ekki of bráða byrjun! Allt er gott í hófi fólk!

Þar til næst,

slauga

31. maí 2006

Að velja óperu..

Jæja.

Konan er uppgefin. Er byrjuð að vinna aftur og hef aftur hlotið titilinn skemmtilegasta eiginkona í heimi. Er komin með sleftauminn svona uppúr klukkan átta.. kannski hálfníu á góðum kvöldum.. og þyki mjög aðlaðandi þannig.

Held að kerfið sé ekki búið að átta sig á þessari breytingu, allavega eru augnlokin vön einhverju allt öðru!

Höfum því ákveðið að fá okkur au-pair til að aðstoða með ýmislegt.. svona eins langt og það nær.. þið skiljið..´;O)

Frekar erfitt að velja, en virðumst vera að detta inná amerísku línuna. Howdie..

Ef þið kannski vitið um einhverja sem langar að koma til Íslands ;O) þá megið þið hafa okkur í huga :O)


http://www.greataupair.com

Endilega kíkið þegar þið hafið EKKERT að gera og finnið einhverja huggulega handa okkur..

3. maí 2006

3.maí 2006 - 5 ára!!!

Hún á afmæl'í dag
hún á afmæl'í dag
hún á afmæli hún Gabríela
hún á afmæl'í dag

28. apríl 2006

It’s all so quiet.. shhh..shhh..

Þjóðarbókhlaðan.

Samansafn af “uss”-um og illum augnagotum og endurhvarf til 6 ára bekksins.

Mér finnst ég vera minnst í heiminum þegar konan með hornspangargleraugun gjóar augunum á mig yfir efri brún gleraugnanna. Ég skrifaði of hátt.

Færa stólinn vaaarleeega.. usss.. ekki missa bókina.. ekki fletta of hátt... rífðu blöðin varlega í sundur úr skrifblokkinni... usss...

Hvað myndi gerast ég tæki bara trylling hérna og brysti í söng eins og í lélegri Bollywood mynd?

Þori ekki að reyna, en ég myndi klappa fyrir þeim sem væru til í tuskið.

26. apríl 2006

much ado about..

Einmitt. Er á haus í próflestri og veit varla hvað ég heiti. Er búin að þræla mig í gegnum ca. 34 kafla og á eftir 7! Finn alveg að mig langar að gera eitthvað allt annað og er tiltekt í skápum jafnvel farin að hljóma spennandi. Það hefur reyndar alltaf verið akkelisarhæll minn í prófum. Að þurfa að gera eitthvað annað en að læra.
Aldrei var herbergið mitt hreinna en í stúdentsprófunum, aldrei var bíllinn jafn fínn og þegar próf stóðu yfir í Háskólanum og aldrei var eldhúsið á Framnesveginum jafn vel málað og einmitt þegar B.S. ritgerðasmíð stóð sem hæst.

Fór inn í þessa törn vitandi af þessum galla mínum og hef algjörlega reynt að halda mig frá slíkum "freistingum" þó svo að sjaldan hafi verið jafn mikil þörf á að ég sleppti mér.

Bíllinn minn er kominn á þunglyndislyf eftir að ég eignaðist hann og húsið er að bugast. Eini staðurinn sem er perfect er bílskúrinn. Mér að þakka? Nei. Pabba.

Ætla að halda þetta út og pína mig í gegnum þetta próftímabil.

Dóttirin á annars afmæli eftir nákvæmlega 7 daga. Hún telur niður samviskusamlega og tilkynnir okkur á hverjum morgni hvað margir dagar séu til 5 ára afmælisins. Hún veit að við erum búin að kaupa gjöfina og yfirheyrir pabba sinn daglega um hvað það getur verið. "eruð þið búin að pakka henni inn.." "Er ég heit eða köld.." " Er það Barbie, er það Bratz..." ...veit ekki hvaðan hún hefur þessa sjúklegu forvitni ;O)

Jæja.. 10mín. pásan búin.. back to the books...

meira síðar..

18. apríl 2006

Sumar eftir tvo..

Norðanvindurinn er hér með beðinn um að hundskast út í hafsauga og hleypa sunnanvindinum að. Þú hefur tvo daga til að koma þér í burtu góðurinn og getur svo mætt aftur í desember. EKKI FYRR!

11. apríl 2006

hmmm...

You Are an Excellent Cook

You're a top cook, but you weren't born that way. It's taken a lot of practice, a lot of experimenting, and a lot of learning.
It's likely that you have what it takes to be a top chef, should you have the desire...

7. apríl 2006

Hvað er klukkan?

..ójá.. eitt núll fyrir kvenþjóðina!

Hef síðan í júlí s.l. dílað og vílað við hina ýmsu iðnaðarmenn, eiginlega alla flóruna.. og oftar en ekki er verið að ákveða stund og stað.

"Kem við í fyrramálið".. "Kem kl. 13.00".."Kem á þriðjudaginn kl. 9.00"...

Árangurinn? Glataður. Enginn af þeim kunni á klukku, sumir virtust ekki einu sinni eiga dagatal. Þeir kunnu alveg djobbið, ekkert að lasta það, en tímasetningar.. bara grín.

Tími sem fór í að bíða eftir iðnaðarmönnum afþví að "..hann ætlaði að koma kl. 14.00" er ómældur. Hann var of mikil.

En í gær datt ég inn í Vogue til að panta gardínur og upplifði í fyrsta skipti góða þjónustu á þeim bæ. Ekki bara góða heldur frábæra. Í lokin var það ákveðið að þau kæmu heim og tækju mál og hún flippaði yfir "skeddjúlið" og sagði, .."já, hef smá tíma á morgun, kl. hálfellefu, verð vestur í bæ..". Ég hugsaði náttúrulega ..yeah right, glætan, hef heyrt þennan áður ljúfan.. En setti upp ljúfasta kellingabrosið og þakkaði henni mikið vel fyrir að ætla að koma svona fljótt.

Klukkan er núna 6 mínútur yfir 11. Hún er búin að koma. Hún bankaði eina mínútu í hálfellefu.

Hún kann á klukku. Ég hugsa að hún kunni líka á dagatal. Hún varaði mig við að venjulega væru þetta 3 vikur, en ég yrði að taka tillit til páskana. Auðvitað.

Sjáum til, let the countdown begin. Hef fulla trú á Vogue... og kvenfólki með klukku.

6. apríl 2006

Frá París..

Stundum veit ég ekki í hvora löppina ég á að stíga..

..það er bara allt of mikið að gera, segi ég sjálfri mér og dæsi reglulega yfir því hvað ég á bágt. Svo fréttir maður af ósköpum í kringum sig og veltir því fyrir sér hvað maður sé í raun að gera við tímann. Ég er ekki að skrifa bók sem breytir lífi þúsunda aðila, ég er ekki að finna upp lækningu við krabbameini og ég er ekki að auðga andann með neinu.. Er hætt að teikna, hef aldrei getað sungið og les varla bók í dag.. nema þá um skuldabréfaafleiður og annað álíka spennandi.

Vinir mínir eiga flestir í sama basli.. aldrei er tími til að setjast niður og anda. Bara anda og ekkert annað. Njóta samvista við vini sína og hlægja. Held að ég geri of lítið af því. Vegna þessara ótrúlegu anna, sem einhvernvegin eru svo ómerkilegir hlutir þegar litið er síðar til baka, gleymir maður að rækta samböndin og býst alltaf við því að allir séu til staðar þegar maður þarf á þeim að halda. Nýja apríl heitið mitt er því (hljómar svo miklu betra en áramótaheit) er því að rækta garðinn minn. Að öllu leiti.

Ætla að byrja hægt svo að þetta rústist ekki strax. Á það nefnilega til að henda mér í hlutina með látum og klára svo ekki af því að mér fallast hendur.

Veit ég er eitthvað voðalega væmin í dag.. en þetta er bara málið.

Sættu þig við það.

1. apríl 2006

Magnað félagslíf..

..eða hvað haldið þið:

"Skattframtali skilað 31.mars (föstudagskvöld) 2006 kl. 21:47"

Náði allavega fyrir mánaðarmót, var með frest til 27. en konan í skattinum sagð'ókei.. bara fyrir mánaðarmót ljúfan...

Nú hlær hún örugglega á morgun kellingin.. og segir "fyrsti aprílll fíbblið þitt..."

Sissó sagði mér allavega að hann hefði skilað tveimur mánuðum of seint í fyrra og samt á netinu! ..og ekki einu sinni komment frá skattstjóra!

Well.. ætla að færa þetta í hendur einhvers löggilts svindlara næsta ár.. endaði með að þurfa að borga helling sem er skandall! Hef ekki lent í því.. (reyndar á Kristján að borga en ekki ég.. he he.. sjáum hvort maður láni kallinum pening í ágúst..)

Til að halda upp á skilin er ég komin með Bailey's glas í hönd.. og horfi á "The Fan" á stöð 2.. aftur vek ég athygli á mögnuðu félagslífi...

Mér við hlið liggur eldri dóttirin sem sofnaði yfir idol... aftur þetta með félagslífið...

En úr því rætist kannski á morgun! Útibúið er að halda starfsdag og ég á að mæta. Svo ætlar liðið á skrallið um kvöldið.. og aldrei að vita nema að maður mæti líka þar! Kemur í ljós.. pössunarhliðin er ekki alveg frágengin enda hafa þessi blessuðu börn mín átt leiðinlegustu foreldra í heimi á síðustu vikum sem gera ekkert annað en að setja þau í pössun...

... er að spá í að skella mér í rúmið.. verst að Músíktilraunir voru að klárast og fagnaðarlætin enn í hámarki.

Veit ekki hver vann.. don't care... gleymdi samt að setja rafstraum á girðinguna hjá mér..

30. mars 2006

París.. c'est la vie..

Jæja.. pínu ferðasaga gott fólk..

Það leit nú ekki út fyrir að við færum þar sem að Kristján lagðist í rúmið á fimmtudaginn með ælupest og tilheyrandi huggulegheitum. Velti því fyrir mér þann daginn hvernig óhljóð geta myndast í líkamanum og var að spá í að skrá Kristján í einhvern búktalarahóp fyrir langt komna eftir þessa upplifun.

En svo kom föstudagurinn með tilheyrandi gleði. Tók mína huggulegu sobril og við lögðum af stað. Knúsuðum Heidda, sem var að koma frá Chicago, í komuhliðinu uppi og tókum nettan snúning í fríhöfninni. Tók eftir því að Eymundsson selur blöð og bækur á fullu verði eftir að þeir tóku við rekstri blaðasölunnar og eru sko ekkert að slá af vaskinn.. í duty free zone.. ónei.... sama verð og í 101

Flugið gekk fínt út, enda ákvað ég að blanda Baileys við sobrilinn (er farin að hljóma eins og sögupersóna í "Valley of the dolls") eins og Jóa mágkona benti mér á að gera .. virkar fínt! Var alveg kúl á því og leysti sudoku í fluginu af miklu kappi.

Lentum í París og fórum á hótelið sem var æði. 4 stjörnu hótel í miðju Óperuhverfinu.. alveg ljúft..
Sjoppuðum, löbbuðum og skoðuðum... og BORÐUÐUM!

Fórum á æðislegan stað á föstudagskvöldinu. Flora. Sú sem rekur hann tók þátt í Food and Fun síðast og er staðurinn með 2 Michelin stjörnur og ekki að ósekju. Pöntuðum "surprise" dinner og enduðum í sjö rétta (höfnuðum því að fá osta í næstsíðasta rétt, gátum ekki meir, annars hefðu það verið átta) snilldareldamennsku!! Mæli með þessum stað!

Næsta kvöld var Latínukvöldið tekið og indverskur staður prófaður.. mjög góður matur en Monsieur og Madam Sjabbí Subbó reka þennan stað. Þyrftu að prófa Ajax.

Síðasta kvöldið fórum við á æðislegan sushi stað, www.losushi.com nálægt Charles de Gaulle stöðinni.. Sátum á móti frönsku celeb liði sem við vissum ekkert hver voru.. en við vissum bara að þau voru subbu fræg, höfðum bæði séð þau áður, ..en hvar..?

Tókum hallærispakkann og smelltum mynd af þeim með símanum (leikþáttturinn "þykist vera að senda sms og tek mynd" var tekinn með trompi og enginn fattaði neitt). Spurningin er því:
Hver þekkir fólkið? Bene.. ég treysti á þig..!!

Tókum nettan túristapakka á sunnudeginum.. Allt nema Eiffelturninn og Louvre, fórum upp í Montmartre og skoðum mannlífið.. Svo var það dáldið merkilegt með margastaði, en þá virtist ég alltaf eiga einhverja hrakfallasögu af Hólmfríði? ..ljósakrónur og lögreglubílar? Anyone? ;O)

Fórum síðan heim á mánudag.. og fengum ekki sæti saman. Kristján reyndi að útskýra fyrir flugfreyjunni að ég væri frekar mikið flughrædd og hún horfði á okkur blíðum augum og sagði "Þið getið bara haldist í hendur yfir ganginn"... einmitt.. ótrúlega rómó móment sem við ætluðum að ná ná í viðbót með því að sitja saman í flugvél og nota flughræðslu sem afsökun.

Þegar tárin byrjuðu að renna án þess að ég réði við það þá fattaði hún að ekki var allt sem sýndist og Parísarþráin var ekki svona sterk hjá okkur. Gat ekkert gert við þessu, algjörlega óviðráðanleg viðbrögð! SKILETTEKKI!! Hélt síðan að flugvélin myndi hrapa nokkrum sinnum.. með tilheyrandi örvæntingu.. og var síðan ótrúlega glöð og hamingjusöm þegar vélin skransaði á Keflavíkurflugvelli.

Rámaði samt í fréttir af varnarliðinu og eitthvað um að þeir gætu líklega plöggað eitthvað úr sambandi undir skrifborði einhvers aðmírálsins og þá tækju þeir allt úr sambandi á vellinum.. Svona hugsanir ríkja í kollinum á flughræddu fólki.

Líka hugsanir eins og "líkurnar á því að farast með flugvélinni eru í öfugu hlutfalli miðað við fjölda frægs fólks í vélinni"... eða .."ótrúlega er þetta mikið jarðafararlag sem er verið að spila í útvarpinu hjá bílstjóranum sem keyrir okkur út á völl.. tilviljun.. held ekki".


Kleppur - Hraðferð, here I come.

29. mars 2006

Kristján...

...er búinn að skrá mig á flughræðslunámskeið. Án þess að spyrja mig.

Þarf ég að segja fleiri orð um það hvernig ferðin gekk?

22. mars 2006

11 ár..

síðan ég kom heim frá París eftir 9 mánaða dvöl sem au-pair. Sex ár síðan við stelpurnar fórum út á 5 ára reunion. Hmm.. veit þetta náttúrlega upp á hár þar sem ég varð 23 ára í gær (líka hægt að lesa tölurnar afturábak og þá með leiðinlegri niðurstöðu..).

Það eru sumsé 2 dagar í það að ég fari aftur út, nú með kallinn með mér. Það liggur mikið undir þar sem hann heldur örugglega að ég hafi stúderað París og þekki hana eins og lófann á mér. Glætan! Við uppgötvuðum t.d. bara 3ja hverfið (sem er eiginlega það skemmtilegasta) þegar við fórum fyrir 6 árum! Einhvern veginn var þetta dvöl sem einkendist meira af "paris at night" og í lestum... Tók ekki alveg túristapakkann nema þegar einhver kom í heimsókn! (og þá varla..). Þarf líka að rifja upp frönskuna (hann heldur að ég sé fluent.. djók! )

Það eru sumsé 2 dagar í flugið... got it? Vona ótrúlega að Inga mamma hennar Auðar verði að vinna eða Gullý systir Lallý...Þarf eitthvað svona róandi andlit í crew-inu sem getur hjálpað mér! Vona að þetta gangi vel.. en þeir sem hafa setið mér í flugvél vona það örugglega líka, svona fyrir hönd hinna farþegana.

En sobril töflurnar fá sko samt að koma með, þeim finnst gaman að fljúga. Einu sinni ákváðu þær (á leiðinni frá Boston) að það væri skemmtilegast að vera þrjár saman. Í staðinn fyrir single..

Man ekki eftir flugferðinni. Man eftir að Erla skildi mig eftir í fríhöfninni og ég sagðist vera að koma. Man eftir fríhöfninni í slow mo.. man ekki meir. Skammaði svo Kristján fyrir að hafa ekki verið heima til að taka á móti mér. Sannleikurinn? Hann var heima.. leiddi mig inn, lagði mig í rúmið og kom svo heim í hádeginu aftur til að tékka á mér. Held það verði ekkert sobril tríó í þessari ferð. Kannski duo, enda virkar þetta ekki solo... mio...

Eða kannski verð ég bara full.. nenni því samt ekki.

Munið bara þegar þið lesið moggann og sjáið "Flugdólgar eru ekki bara karlkyns.." þá er væntanlega verið að tala um mig.. og þá voru sobril töflurnar búnar.

19. mars 2006

Músíktilraunir..

..hefjast á morgun. Hef svo sem aldrei skipt mér af þeim.. veit varla hver vinnur eða vann það og það árið. Í ár verður þó breyting á.

Mér til ómældrar gleði og yndisauka hafa aðstandendur músíktilrauna ákveðið að halda keppnina í...

já.. þið giskuðuð rétt....

LOFTKASTALANUM.. jibbý!!!!

Á hverju einasta kvöldi í næstu viku mun gleðin dynja hér fyrir utan. Aðdáendur bílskúrsbandanna munu að sjálfsögðu mæta til að hvetja sitt lið og kannski míga á grindverkið mitt í leiðinni? Hver veit?

Get ekki lýst gleðinni í hjarta mínu yfir þessari ákvörðun.

...lengi lifi rokkið....

15. mars 2006

..það les þetta hvort eð er enginn..

..eða svo segir Leibbi frændi. "Það kommentar enginn hjá þér og það eru örugg merki um engan lestur!"..

Neita að trúa því, tel mér bara trú um að mínir lesendur séu bara svona hógværir..

Finnst þetta samt ágætis miðlun. Mín sterkasta hlið er nefnilega ekki sú að vera "tengillinn" í vinahópum. Ég fæ bara svona að vera með.. Hólmfríður er hetjan mín, alltaf að plana eitthvað og ótrúlega dugleg við halda halda hin ýmsustu boð, sem ég mæti þó ekki alltaf í, en reyni að komast þegar ég get! Hún er svon "lím". Ekki það að ég ætli að breytast í einhverja innirottu sem að tjái mig aðeins í gegnum miðla sem útiloki alvöru tengsl.. nei nei.. ekki aldeilis...

Flughræðsla - Part II.
Var að horfa á nfs og þar var Sigurður stormur að tala um hvað væri ægilega öruggt að fljúga þrátt fyrir vond veður... ...bara smá láréttir og lóðréttir og skáréttir vindar sem blása og hvása.. eruð þið farin að fatta plottið? Veit ekki hvort að þetta er samsæri gegn mér, en ég sé bara fréttir af flugvélum núna og virðist heyra og sjá allt sem álpast í fjölmiðla um þennan flokk. Tilviljun..? Held ekki.

Kannski meira á eftir.. skiptir náttúrulega ekki máli þar sem enginn les þetta ;O)

13. mars 2006

Það er árið 2006...

...en eitthvað hafa þeir ruglast á dagatölum hjá Íslensk-Ameríska..

Krisján fór í Bónus allra landsmanna í gær og verslaði inn... svo sem ekkert tilitökumál, en í þessari ferð voru einnig keyptar bleyjur á prinsessuna. Með þeim fylgdi síðan bæklingur sem bar heitið:

"Töfrar svefnsins"
Fyrir mæður með börn á aldrinum 0-6 mánaða.

Mæður?? hvað með feður? hvaða rugl er þetta á þessari öld? ..og ef þeir ætla að fara að skýla sér bakvið eitthvað bla bla um að konan sé heima í 6 mánuði og karlinn svo skal þeim bent á að í lögunum um fæðingarorlof (95/2000) stendur:

8. gr. Réttur foreldra á vinnumarkaði. Foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. …1)

akkúrat!

Í einu orði: Hallærislegt! held þeir ættu að endurprenta þennan bækling..

úff.. eins gott að Rebekka á ekki eftir nema mánuði í 6 mánuðina.. þá getur hún farið að kynnast pabba sínum...

hrumpfh...

ætli þeir séu ekki bara með dagatalið hans Norman Rockwell uppi við frá 1956 sem sýnir hina "fullkomnu fjölskyldu" ..

10. mars 2006

Í flokknum um fallegasta eldhúsið..





..hlýtur Nýlendugatan verðlaunin...

Í alvöru.. er til flottara eldhús?

Ég sé...

..Esjuna og ýmislegt annað eftir að blái viðbjóðurinn kvaddi þetta líf í gærkvöldi. Við urðum alltíeinu vör við blikkandi ljós þar sem að lögreglan var búin að loka Mýrargötunni.. væntanlega vegna þess að ef allt hefði farið á versta veg hefði framhliðin fallið framfyrirsig.. sem hún gerði nú reyndar ekki... en hún féll þó!

Ákvað að skella inn nokkrum myndum, til að sýna muninn.. en nú þarf maður að venjast nýju útsýni! Þeir eiga nú eftir að hreinsa betur upp en þetta er allt að koma hjá þeim. Þetta hús hefur haft ótrúlega vonda nærveru þann tíma sem við höfum búið hér vestur frá. Tvisvar hefur hefur verið kveikt í því .. og þrátt fyrir að okkur finnist plús að hafa smá "happening" í kvöldverðarboðum hjá okkur, þá var þetta ekki alveg málið! Útigangsmenn hafa búið þarna og krakkarnir í hverfinu hafa sum hver teflt á tæpasta vað með því að "rannsaka" húsið í því ömurlega ástandi sem það hefur verið.

Nú er sumsé Martröðinni á Blá-stræti að ljúka. Vertu bless ljóta hús.. vertu bless. Þín verður ekki saknað.
Svo er líka svo gaman að sjá hvað var bakvið hryllinginn... hmm.. þarna sjáum við Esjuna, sjáum inn á Fiskislóðina og svo annan gaflinn á einhverju húsi sem ég þarf að komast að því hvað er..

Hlakka til að sjá hvað verður sett í staðinn, ég veit ég missi útsýnið aftur, en gæti mögulega fengið eitthvað huggulegt í staðinn. Ég set bara fram eina kröfu.. og ég meina það! Þegar verður farið að byggja upp nýja húsið sem kemur þá krefst ég þess að þeir sem ráði þar ríkjum velji iðnaðarmenn eftir útliti. Ég vil huggulega iðnaðarmenn sem að myndu sóma sér vel á hvaða centerfolderi sem er .. Engar rassaskorur takk! Ég verð með besta útsýni bæjarins yfir framkvæmdirnar og ég vil eitthvað til að horfa á...

Þegar maður hefur neyddur til að éta hafragraut í öll mál er lágmark að maður fái nokkra konfekt mola á eftir.. erþaggi? Centerfoldera og huggulega sveina!

Lágmarkskrafa.

9. mars 2006

Mamma...

..hún er elskuleg mamma mín..

..til hamingju með daginn !!

hipp hipp húrra!!

8. mars 2006

Þvottadagur...


...eins og allir aðrir dagar! Velti þvi fyrir mér hvernig hægt er að þvo endalaust og aldrei sér fyrir endan á því!!

Kristján er með ótrúlega góða taktík.. hann setur endalaust í þvottavélar og safnar svo bara upp í stóran haug. Kristján á nefnilega galdraduft sem hann stráir stundum yfir þvottinn og þá birtist hann samanbrotinn og tilbúinn til notkunar þegar hann kemur heim úr vinnunni... yeah right!

Held að heimavinnandi húsmóðurs djobbið hljóti að vera það erfiðasta í heimi.. það er allavega það leiðinlegasta í mínum augum af því að það virðist aldrei vera búið! Verð að finna út hvernig Mary Poppins fór að þessu..

Er að fara til tannsa á eftir! Eftir næstum tveggja ára fjarveru frá þeim manni... Er pínu stressuð, þó ég sé sko ekki með neina tannpínu... hann gæti verið blankur og fundið eitthvað sem þurfti nauðsynlega að laga!

..og svo þurfum við að ræða FLUG! Eins og flestir vita sem þekkja mig er ég sjúklega flughrædd og er ekki alveg að höndla þann pakka... var samt búin að ákveða að Frakklandsflugið yrði ótrúlega frábært.. Ég myndi bara labba upp í vél, kannski fá mér einn Bailey's eða tvo... leysa nokkra sudoko og vera með yatsí-ið tilbúið og ..kviss kvamm búmm.. allt í einu yrðum við bara lent í "ðe sití of löööv..." . En nei.. þá þurftu Flugleiðir náttúrulega að klessa á eldingu og keppast núna við að fullyrða í öllum fjölmiðlum að það sé "ógisslega safe skilurru" að fljúga, skítt með nefið á vélinni.. GLÆTAN! Svona hlutir koma aldrei einn í einu, solo... þessi atriði eru svona félagsveruatriði.. alltaf 3 í einu.. þannig að Bailey's flaskan fer fljótlega að breytast í risastóra róandi töflu eða bara sleggjuhamar sem ég bið Kristján um að dúndra í hausinn á mér rétt fyrir flugtak.

Velti þvi fyrir mér hvort að ég væri enn á Grænlandi ef Erla hefði í alvörunni fengið flugstjórann til að lenda þegar ég "missti það" í vélinni til Boston... Væri kannski orðin selaveiðimaður sem gæti ekki drepið seli og myndi endurskýra þá alla Snorra..?

7. mars 2006

Þriðjudagar..

..eru venjulega miklir skóladagar..

En einhvern veginn er dagurinn í dag hálfruglaður... Hefði átt að fara í lögfræði kl. 8.15....en fór ekki.. Hefði átt að fara í bankaogfjármálmarkaði kl. 13.15...en fór ekki, er reyndar að spá í að hætta í þeim kúrs altogether. Á svo að mæta í skuldabréfakúrsinn hans Hersis kl. 16.15 og hef hugsað mér að mæta þar... þarf reyndar að skjótast í vinnuna smá áður og láta Öddu fá tilbaka gögn sem ég var að kíkja á fyrir hana...

Alltaf gaman að kíkja í vinnuna, heyra símann hringja og alla fara á taugum í stressinu...og labba svo bara út .... ;O) Það er annars farið að styttast allverulega í hinn endann á fæðingarorlofinu.. Bara rétt 2 mánuðir eftir (með lengingunni) og þá er bara life back to normal!

Erum búin að bjóða mömmu au-pair stöðuna hjá okkur... enda er hún að smella sér yfir í löglega pakkann eftir 2 daga (jebb...sixtyseven...)..en nei.. hún neitar okkur statt og stöðugt..

Skiljumettekki..

Bíðum bara eftir að Sveinbjörn reki Kollu og þá vantar kellinguna djobb...

6. mars 2006

..og Óskarinn hlýtur...

Þyrnirós!!!

Ójá! Litla prinsessan á bauninni fór í prep leiðangur í 10-11 kl. 23.30 í gærkvöldi til að undirbúa vökunóttina miklu. Hún hafði fengið að sofa út um morguninn og taldi að sér væru allir vegir færir að vaka og vaka... og fá að upplifa með stjörnunum "sínum" þeirra gleði og sorgir og fella með þeim hamingjutár ef svo bæri undir... (glætan samt að hún sé svona væmin, frekar mikið hörkutól sko...). Man eftir að hafa séð Rachel Weiss koma með bumbuna sína og taka á móti verðlaunum ...og svo...man ég eftir að hafa opnað augun óvart og séð ófrýtt trýnið á Mr. Hoffman... (ég hélt nefnilega með Phoenix)...og svo vaknaði ég bara við "taumlausa tónlist" um 5 leytið....

Sá ekki einu sinni aðalnúmerið! Fyrirgef augnlokunum seint þessi svik! Veit ekki afhverju þetta er að koma fyrir mig.. man þá daga þegar maður fór létt með þetta .. trúi ekki að þetta séu árin?

Horfði samt á upphitunina á stöð 2 og var þvílíkt að verða geðveik á að horfa á þau Mörtu, Skarphéðinn og Ívar... Ég hef hingað til haft mjög gaman af því að lesa pistlana hennar Mörtu, ...en að heyra orðið "þannig" að meðaltali 6 sinnum í hverri setningu var aðeins of mikið fyrir minn smekk... þá hefði verið betra að hafa tískulöggurnar Arnar eða Svavar...

Afmælið mitt nálgast óðfluga, og tók skatturinn að sér að strá glitkornum og glimmeri á afmælið mitt með því að auglýsa síðasta skiladag á þessum heilaga degi! Hver vill tengja afmælið sitt við skattheimtuna? Ég bara spyr?

..styttist líka í að við förum til Parísar... sem minnir mig á annað.. Ég sendi tölvupóst á hótelið og bað þau um að sjá um að panta borða á ákv. veitingastað.. og fæ ekkert svar.. Er þetta ekki alveg normal þjónustubeiðni?..

Jæja.. ætla að skella í mig einum kaffi í viðbót (er búin að endurheimt kaffivélina mína sem var í sjálfskipaðri útlegð þar til að eldhúsið væri tilbúið)... verð fín í Itô dæmin á eftir sem hann Hersir skuldabréfagúrú setti fyrir tímann á morgun...

tata...

4. mars 2006

Hann kom..

..en climaxið vantaði..

Merkilegt nokk.. rafvirkinn droppaði við í gærkvöldið, boraði og boraði, yfir Idol-fjölskyldukvöldinu.. og tengdi í gríð og erg. En auðvitað var ekki allt klárað. Þegar setja átti lokið yfir dósirnar kom í ljós að hann var ekki með þær.. ég meina afhverju að klára það sem hægt er að klára ef hægt er að skilja eitthvað eftir? "Tveggja mínútna verk"..fullyrti hann, en mín spurning er náttúrulega; Hversu langt er þá í þessar tvær mínútur?

Vill einhver giska?

3. mars 2006

Var að spá...

..hvort það væri alveg eðlilegt að líta svona skelfilega út þegar maður er veikur. Ég meina, ég viðurkenni alveg að ég eigi langt í land með að verða krýnd Miss World, jafnvel á mínum bestu stundum.. en þegar smiðurinn, sem kom í morgun, hrökk hálft skref tilbaka þegar ég kom til dyra.. þá hlýtur eitthvað að vera "off". Fattaði síðan að ég hef líklega ekkert verið skárri í gærkvöldi þar sem eiginmaðurinn kom með mynd sem skartar hinni mistæku leikkonu Drew Barrymore í aðalhlutverki. Fyrir þá sem ekki vita það, skal það upplýst að Kristján dýrkar og dáir og þráir þessa fyrrum E.T. stjörnu. Ef að hann væri spurður að því hvort hann væri tilbúin til að stíga hliðarspor út úr hjónabandinu, og með hverjum þá, yrði svarið ofannefnd D.B.

..og með ljótustu eiginkonu sér við hlið í gærkvöldi..leigir hann mynd með goðinu! Sem hljóta að vera einhver merki um að hann hafi fengið nóg af ljótleikanum og vilji horfa á "krúttið sitt"... veit ekki hvernig ég á að taka þessu...?

Eldhúsið mitt er annars að verða æði.. fyrir utan raflagnir... í einu orði sagt: "hryllilegaflott". Hvet nærstadda sem fjarstadda til að kíkja í kaffi... lofa að hósta ekki ofan í það... Stend þó við það að ég set ekki mynd af því fyrr en allt er reddý... sem þýðir að rafvirkinn ræður ferðinni.

Ætla að prófa að tækla hann á eftir, er að spá í hvort ég verði að hringja með falið númer..

2. mars 2006

Brilljant skilnaður... án mín.. :O(

Er komin með flensuna. Hef ekki fengið flensu í mörg ár og finnst ég vera svikinn af flensudílnum sem ég hef verið lengi þáttakandi að. Ligg í sófanum, það rennur úr augunum á mér, ég hósta og snýti mér og skipa restinni af heimilismeðlum fyrir. Reyndar er helmingurinn sofnaður, og eiginmaðurinn í sendiferð í Húsasmiðjuna, Apótekið og Vídeóleiguna, en eins og allir vita er mikilvægasta í veikindum að hafa eitthvað óhollt við hendina og glápa á heilalaust efni...

Gunni bróðir, snillingurinn, kom áðan og tengdi fyrir okkur vaskinn. Get því hætt að vaska upp úr klósettvaskinum..

Það versta við þetta er náttúrulega að ég komst ekki í leikhúsið...

Aumingi í hnotskurn

Held ég sé að verða lasin. Ég sem fæ eiginlega aldrei flensu eða neitt! Geng hérna um hölt og snýti mér í gríð og erg. Heltin er tilkomin vegna afnáms fæðingarbletts á milli tánna!!!!!! framkvæmt af 78 ára gömlum lækni (skrifaði langt blogg um þetta um daginn en tók það í burtu... ..bara til að koma í veg fyrir mögulega lögsókn...).

Á að fara í leikhús í kvöld með tengdó og öllum kvenkyns meðlimum þeirrar ættar. Vonast til að ná að hrista þetta af mér fyrir kvöldið.. langar ferlega að sjá þetta stykki: "Alveg brilljant skilnaður" (veit samt ekki hvort þetta eru skilaboð til okkar tengdadætrana ;O) ) . Bið allavega þá afsökunar, fyrirfram, sem verða með mér í leikhúsinu í kvöld ef snýtuhljóðin skyldu trufla.. lofa líka að hósta lágt og vera í hreinum sokkum... (get ekki verið í skóm..útaf tánni sko..).

Loforð til sölu...kostar eina tölu...

ókídókí... eldhúsið er að koma.. svona næstum því... Vorum hér sveitt fram eftir kvöldi að reyna að ganga frá sem flestu og koma hæðinni "aftur" í eðlilegt form. Ekki alveg búið, en svona 80%

Rafvirkinn hefur ekki látið sjá sig þrátt fyrir loforð um að koma í fyrrakvöld. Átti reyndar áhugavert samtal við hann í gær:

"ring ring " (veit reyndar ekki hvernig hringingin hans er í gemsanum).
R: "Já halló..."
S: "Sæll.. þetta er ég... mannstu?"
R: "Já, sæl ..sæl..."
S: "Heyrðu, ég varð ekkert vör við það að þú hefðir komið við í gærkvöldi.."
R: "Nei, ekki ég heldur, varð bara ekkert var við það"
S: "Hvernig er þá staðan núna? Geturðu komið í dag? Sem fyrst?"
R: "Ja, nei.. sko núna er ég nefnilega veikur ...sko..."
S: "En þú býrð nú bara stutt frá (sama gata), get snýtt þér af og til..."
R: "humm ehemm..."
....svo koma nokkrar innilhaldslausar setningar sem ég man ekki en síðan.....
S: "Heyrðu, hvernig er það, get ég búist við þér í kvöld eða síðasta lagi á morgun"
R:"Nei, ég held að það sé útilokað, er nefnilega á Þingvöllum...."
S: "....Rosa veikur?..."
R: ..þögn...

;O)

Don't kid a kidder....

1. mars 2006

Hjálpum þeim...

Í dag er "Hjálpum aumingjunum" dagurinn eða "hjálpum þeim" dagurinn eins og ég vill frekar kalla hann. Það er sumsé kominn á samningur á milli elskulegra foreldra minna, sem að leyst ekkert á það hversu mikið rugl væri í gangi við það að koma húsinu í lag... og mín (og jú auðvitað Kristjáns..en hann er bara svo vel upp alinn að hann ögrar ekki geðheilsu eiginkonunnar)! Samningurinn felur sumsé í sér að þau koma á miðvikudögum og taka brjálæðiskast með mér í einhverju útvöldu herbergi.. Þau halda að þau séu að þröngva sér upp á okkur... en vita ekki að þetta er úthugsað plott.. og að á meðan þessu stendur mun ég setja Jörfalindina á sölu og neyða þau til að flytja í kjallarann... Þá þurfum við ekki að fá okkur Au-Pair skiljiði....

Annars er Kristján mjög heitur fyrir að fá au-pair á svæðið... hann skoðar nú au-pair síðuna með glampa í augum og dregur fram hverja ljóshærðu píuna á fætur annari. Núna er einhver dönsk í sigtinu hjá honum... en ég hallast meira að franskri.. svona til að endurgjalda Frökkum greiðann! Ég held samt að hann sé eitthvað að misskilja hlutverk au-pair stúlkna... ætti kannski að snúa á hann og velja strák..

Öskudagur...

28. febrúar 2006

Framkvæmdir, "the never ending story.."

Jæja.. helgin búin og eldhúsdagar standa yfir. Höfum sent áskorunarbréf til þáttakanda í keppninni "klárum eldhúsið" og væntum þess að viðkomandi iðnaðarmenn sýni sínar björtustu hliðar í þessari viku. Stein(aldar)mennirnir sviku okkur illilega með því að taka í sundur borðplötuna.. en við byggðum m.a. ákvörðunina á því að skipta við þá í stað samkeppnisaðilans..á því mikilvæga atriði að þeir töldu sig ekki þurfa að taka plötuna í sundur. Sit því uppi með viðbjóðsleg samskeyti og hærri reikning! Hrumpf! Á eftir að segja lokaorðin í þessu máli!

Plataði aumingja slúbbertinn til að hjálpa til við að setja upp viftuna í gær.. fullyrti við Þráinn frænda að þeir hefður smíðað þetta vitlaust þar sem við komum ekki kvikindinu upp í gatið.. en með því að ýta og þrýsta.. þá allt í einu small þetta... uppgötvuðum síðan þar sem við stóðum eins og bjánar sitthvoru megin við eldavélina og héldum við viftuna að við hefðum líklega þurft auka hönd á verkið. Kolla mág var því rifin úr rekkjunni með tilheyrandi urri til að hjálpa...(ég meina hver sefur um miðjan dag?) Komum síðan draslinu fyrir og skrúfuðum allt fast.. er núna agalega glöð með þetta.. set inn mynd af draslinu þegar síðasti iðnaðarmaðurinn labbar út!

Var hjá Ólu skólakonu í gær þar sem við byrjuðum á því að fara yfir það hvað við ættum bágt með það að vera í skóla.. spáðum í að hætta.. sem við auðvitað gerum ekki, en það er bara skemmtilegra að fara í gegnum alla vorkuninna.. og enduðum auðvitað á því að uppgötva hvað við værum ótrúlega æðislega duglegar og frábærar í alla staði.. ;O)

Erum að fara að hella okkur í 2 verkefni í "samrunum og yfirtökum" og lentum í því að skrifa um Landsann.. hvaða tilviljun er það nú? Undarlegt, vinnum þar báðar! Hljótum að fara létt með það.. annað mál með lokaverkefnið sem er um Avion.. en.. það reddast..erþaggi..?

Sumsé, skóli og eldhús..

25. febrúar 2006

Umsátur

Þetta er náttúrulega orðið rugl! Nú.. milljónustu helgina í röð er umsátursástand hér fyrir utan! Lögreglan er að sjálfsögðu á staðnum, nú með 2 stóra bíla og 2 venjulega.. en gerir að sjálfsögðu ekki neitt. Öskrin í smástelpunum og raddæfingar hellisbúana hljóma hérna fyrir utan.. þannig að nauðsynlegt verður að loka öllum gluggum til að fá "svefnfrið". Verst að þá verður bara svo ofboðslega heitt í herberginu að ekki er hægt að sofa!

Ég skora á stjórnendur Loftkastalans að hætta þessu Menntaskólarugli og einbeita sér aftur að listviðburðum. Það er skömminni skárra að finna ekki stæði hérna frá 9-12...en hafa síðan kyrrláta nótt heldur að búa við þetta helv..
Smellti mynd af lýðnum.. verst að það sést bara hluti... en hér er um að ræða ca. 200 manns.. að lágmarki!
Síðan mígur þetta lið á grindverkið okkar.. og bætir sér þannig í hóp ferfætlingana sem koma hér með eigendum sínum á blettinn við hliðina á og gerir þarfir sínar. Eina huggun mín við það er að liðið sem er að míga er væntanlega búið að stíga í hundaskít á meðan það gerir þarfir sínar í fínu lakkskónum..
Geisp! Þrái svefn.....

24. febrúar 2006

á ég að þora að byrja aftur...?

Jæja.. það kom að því! Ákvað að reyna aftur við bloggpakkann.. Síðast þegar ég reyndi var ég að á barmi taugaáfalls vegna kaupákvörðunar okkar Kristjáns vegna Huldulandsins.. þannig að einhver tími er greinilega liðinn! Sit núna í "could be called a kitchen..but..." og urra af vonsku yfir iðnaðarmönnum og sviknum loforðum! Velti því fyrir mér hvort það skaði að vera skyldur viðkomandi eða ekki?
Sumsé! Tvær vinnuvikur liðnar frá því að Þráinn frændi sendi mann á staðinn að setja upp eldhúsið mitt.. og er það tilbúið? NEI! Steinamennirnir hafa einnig uppgötvað að þögnin er gulls ígildi.. sérstaklega þegar þeir eru komnir með gullið mitt en ég ekki steininn þeirra!! (áhugavert.. gull í stað steins? hljóta að vera léleg skipti!)....
Þetta þýðir aðra helgi í hálfkláruðu eldhúsi.. ...vinsamlegast aðvarið staffið á Dominos..

Er enn í ruglinu með skólann.. er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að segja mig úr hinum æsispennandi áfanga "Bankar og fjármálamarkaðir" (kom á óvart að ég valdi kúrs með því nafni..? anyone..?).. og láta hina 3 duga þessa önnina! Var á barmi taugaáfalls vegna Skuldabréfa kúrsins sem Hersir klári er að kenna.. en við náðum að jafna það með miðsvetrarprófi í síðustu viku þar sem taugaáfallið færðist yfir á Hersi og er hann væntanlega ennþá að velta því fyrir sér hvernig hann gat endað með jafn vonlausan hóp! ..well hann ætlar allavega að endurskoða dæmið og vonandi verður kúrsinn fyrir eðlilegt fólk sem og mæður í fæðingarorlofi (en eins og allir vita þá minnkar heilastarfsemi um ca. helming meðan á því stendur...).

..hm.. jæja.. er byrjuð...
nú er ekki aftur snúið! skrifa örugglega meira í dag eða á morgun.. en eins og allir vita er ég alltaf ofvirk í öllu í byrjun en síðan dalaaaar....... ;O)