14. febrúar 2012

Gamalt fólk...

Það er náttúrulega alveg á mörkunum að ég fari að birta þetta. Það eru ákveðnar líkur á því að eftir lestur þessa pistils, verði ég gerð arflaus og brottræk að eilífu úr kleinulandi.

En sumu er bara ekki hægt að horfa framhjá. Það bara hreinlega öskrar á litla, sæta, krúttlega (lesist líklega: sadíska) púkann sem býr inní mér.

Ég fór í stutta ferð til fyrirheitna Íslandsins um daginn og var umvafin gamalmennum.

Hér er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ég elska gamalt fólk. Svona flest. Eins og til dæmis foreldra mína. Þau eru í raun ekki svo gömul, hef eiginlega alltaf fundist þau ótrúlega ungleg og hress.

Þar til ég sit með þeim bíl.

Ég veit að ég er bílhrædd, en gott fólk, þetta er bara svakalegt.

Pabbi er meira svona krúttlegur. Minnir mig svoldið á bíómynd, svona rétt þegar þær voru að komast í lit. Munið ekki eftir því þegar liðið var að keyra og hreyfði stýrið svona ótt og títt. Yup. Akkúrat. Það er hann. Svo er hann alltaf að segja mér fréttir á leiðinni frá Keflavík og það þýðir að hann er ekkert að horfa á veginn. En ég sit eins og með stífkrampa í baksætinu og vona bara að mamma nái að fylgjast með.

Og það gerir hún. Guð minn góður, fylgist hún með. Hún til dæmis tilkynnir honum reglulega hvort að hann viti hvað sektin sé há fyrir hina ýmsu hluti. Eins og "Gunnar, veistu hvað það kostar mikið að fara yfir á rauðu?" Í þann mund sem hann FER yfir á rauðu. Held að þetta kallist eftirvarnir.

Þetta væri svosem í lagi ef hún væri eitthvað betri. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Hún er bara ekki hótinu skárri. Ekki það að ég sé að benda neinum á neitt, en þá væri ég voða glöð ef einhver lögga vildi svona fljótlega sekta hana fyrir að tala í síma á meðan hún keyrir. Hún verður nefnilega ægilega óákveðin hvorum megin línunnar hún ætlar að vera, þannig að hún er bara cirka í miðjunni. Á tveggja akreina götu.

Ég verð líklega aldrei aftur sótt til Keflavíkur af þessum ágætu hjónum. En það þarf einhver að segja þeim þetta. Það er bara algjör tilviljun að ég sé komin 2,332 kílómetra í burtu þegar ég læt þetta gossa.

Kynntist líka lauslega öðru gömlu fólki. Fór nefnilega í ónafngreint íþróttamannvirki til að nýta hlaupabrautina í kringum yfirbyggða fótboltavöllinn. Fór með mágkonu minni. Fengum þær leiðbeiningar að við þyrftum að sýna þeim tillitssemi, sem nýta völlinn til að ganga. Það er nefnilega mökkur af eldra fólki sem gengur þarna. Hring eftir hring eftir hring.

Og við vorum að hlaupa, en treystið mér, ekki á ljóshraða.

Gömlu krúttlegu karlarnir voru algjörlega to die for. Brostu eins og sól í heiði í hvert skipti sem við mættum þeim eða fórum fram úr þeim, hvöttu okkur áfram og voru bara, í alvöru, algjörir dúllurassar. Í góðri merkingu, ekkert svona eins og þú ert að hugsa núna.

En konurnar. Jesús, María og Jósep. Ef ég á eitthvert markmið varðandi ellina, þá er það að verða ekki eins og þær. Fúlína Skúlína og Pirraða Pála. Jemundur minn.  Veit að ég er í áhættuhóp, but by the power of Grayskull, þá mun ég reyna eins og ég get að lenda ekki í þeirri deild. Ég lofa.

Ég veit samt að ef systur hennar mömmu hefðu verið þarna þá hefði þetta verið í lagi. Ef við hefðum verið fyrir þeim, hefðu þær líklega bara fellt okkur og látið okkur heyra það beint. Og svo hefðu þær bilast úr hlátri. Annars eins stuðbolta-ellismella-hópur er líklega ekki til. Vil eiginlega verða eins og meðaltalið af þeim.

Og nú má ég líklega aldrei aftur fara í þetta íþróttahús.

Gamalt fólk er samt best. Til dæmist í að baka kleinur. Og trúið mér, ég fór með fulla ferðatösku af kleinum til Lúxemborgar.

Gamalt fólk er líka ótrúlega gott í að búa til kjötsúpu og nenna að sækja mann hvert sem er (já, ég veit, tvíeggjað sverð hér á ferð). En þau er það nú bara samt. Best.

Jæja, best að fá sér kleinu.

Fæ víst örugglega aldrei aftur kleinur bakaðar af henni móður minni....

Þar til næst...