23. desember 2013

.. á Þorláksmessu 2013.

Jólabréfið.

Og þar kom að því. Árið sem jólakortin voru ekki prentuð.

Forgangsröðunin þessi jólin setti geðheilsu í fyrsta sæti og því varð þetta niðurstaðan: 

Rafrænt verrýmerrýkristmastújú í ár til ykkar. Og viti menn, kannski kemur prentaða útgáfan næsta ár! (lesist: ekki taka okkur af jólakortalistanum, við lofum bót og betrun!)

Hef samt ákveðið af einskærri sjálfselsku að skrifa smá pistil um afrek fjölskyldumeðlima í ár. Það er af nógu af taka, sér í lagi ef maður telur með hrakfallaafrek og vandræðaleg samfélagsmiðlunarafrek einstakra fjölskyldumeðlima. Þetta virkar líka ágætlega eins og dagbók fyrir gleymnu húsmóðurina sem man ekki á milli daga, hvað þá ára.

Af Drekanum (hundinum sko) er það að frétta að hann er jafn latur og í fyrra, aðeins minna feitur en með jafnvalkvæða heyrn. Hann hefur líka þróað með sér hjartaveiki sem hann notar til að réttlæta letina og virðist ekki skilja að virkunin gæti verið  jákvæð í hina áttina. Hann er samt óttalegt krútt og hefur náð að bræða flesta þá sem hann hittir. Nema kannski ekki nágrannakonuna til vinstri. Hún hatar hann eins og pestina.

Rebekka er eins og flestir vita snillingur á marga vegu. Hún er góð og gjafmild og mikill vinur vina sinna. Hún er líka þver eins og (..ekki hugsa ”móðirin”..plís!) naut í flagi þegar þannig liggur á henni og hefur mikla réttlætiskennd sem kemur henni oft í klandur. Hún hefur meðal annars afrekað það hafa fengið regnhlíf í augað, verið hrint niður tröppur (og mætt heim í rifnum buxum í kjölfarið) og fengið sand og lús í hárið. Bara sirka svona eins og það á að vera þegar maður er með rautt hár, freknur og átta ára. Heilsan hefur líka lagast hjá henni, en hún hefur eytt síðustu 6 árum hér í Lúxemborg með því æla og spúa eins og múkki á vel völdum augnablikum (yfir matarborð, yfir rúm, á veggi, á gólf, í bíl, í verslunum.. sjaldnast í klósett eða fötur... viljiði að ég haldi áfram?). Eftir nokkrar tilraunir í samvinnu við lækna hefur verið ákveðið að laktósi sé hennar óvinur og því er honum núna sleppt. Og viti menn.. ælusplatterinn er í fríi!

Gabríela – korter-í-unglinginn hefur færst upp á næsta skólastig hér í Lúxemborg. Hún er nú komin í Lycée og glímir þar við frönsku, þýsku, stærðfræði, unglingabólur, landafræði og önnur þau vandamál sem hrella 12 ára unglinga í hinum vestræna heimi. Hún er svo óendanlega dugleg að læra að við veltum því gjarnan fyrir okkur hvort hún hafi verið ættleidd og við bara gleymt því. Foreldrarnir kannast allavega ekki við slíka elju þegar fortíðin er rifjuð upp, en klöppum okkur sífellt á öxlina og brosum hógvært út í annað þegar henni er hrósað. Allt eins og þetta sé okkur að þakka. Hún æfir tennis og fótbolta (eins og systirin) og er að umþaðbil að tvöfalda matarreikninginn á heimilinu, sér í lagi þegar það er soðinn fiskur í matinn. Ótrúlegt hvað krakkinn getur étið.

Karlinn er ennþá að heiman. Svona oftast. Kemur samt auðvitað heim á helgum og þegar tilefni er til. Sem minnir mig á það. Hann hljóp í liða-maraþoni í Lúxemborg í vor. Hinir í liðinu voru ykkar einlæg, bróðir minn hann Kristinn og Begga mágkona. Ótrúlega gaman og allir náðu að klára sinn legg. Sem er frábært.. nú hlýtur hann að stefna á hálfmaraþon næst.. ha? Er það ekki ...? Kiddi...??  Lítið um golf í ár, þó eitthvað en meira af ferðalögum. Hann elskar t.d. að keyra um Evrópu með konuna sína, aftursætis-frammísætis-viðhliðinaásætis-bílstjóra-dauðans, sér við hlið (eða ekki) og lagði það á sig að keyra til Ítalíu í sumar þar sem við eyddum dásamlegri viku með góðum vinum.

Og nú hugsar þú, fer þessu bréfi ekki í alvöru að ljúka. Jú, það væri bara fínt. Þá þarf náttúrulega ekki að telja upp afrek frúarinnar sem felast helst í því, eins og svo oft áður, að halda titlinum ”móðir ársins” á lofti. Ég vil bara að þið vitið það að þó að maður gleymi foreldrafundum, fái lánaðan pening úr veskjum barna sinna (og gleymi að borga tilbaka) og borði nammið þeirra á kvöldin (já, þetta íslenska) gerir það mann ekki að vondri manneskju. Bara alls ekki.  Hver á gallalausa foreldra, ég bara spyr? Jesú?  Af öðrum afrekum má nefna að nýr vinnustaður tók við greyinu og þar er hún enn.  Barasta alveg eins og þegar hún byrjaði í mars (helv..-linkedin-helv..-uppfærslu-helv..-ævintýralega-klúður).

Kvöddum síðan í desember hana Sigrúnu sem hefur þjáðst með fjölskyldunni í skipulags-óreyðunni í ár. Hún er æði. Hún söng endalaust og gaf mikla hlýju til barnanna okkar. Fyrir það erum við þakklát. Og líka það að eiga hana að vini um ókomna framtíð.

Við látum þetta duga að sinni. Vona að þið hafið ekki sofnað. Í lokin, mynd af okkur sem kristallar ástæðuna fyrir því að það er ekkert vit í því að láta fagfólk taka mynd af okkur.  Fjarstýring og málið er dautt. Hvað er flókið við þetta?

Jólarafrænt-knús frá Lúx.. (og svo þið sem viljið alvöru knús þá verðum við á klakanum frá 26.desember til 5.janúar 2014).  Áhugasömum bent á að panta tíma.

9. janúar 2013

Af dólgum og kreizí kerlingum í flugi...

Alveg er ég nokkuð viss um að einhver ykkar hafið verið að bíða eftir þessum pistli. Þ.e. þið ykkar sem hafið setið með mér í flugvél. Já,viðurkennið það bara. Þegar þið fyrst fréttuð af meintum flugdólgi í vél Flugleiða þá spáðuð þið í það hvort ég hefði verið að skjótast vestur yfir haf. Þar til þið fréttuð að um væri að ræða karlmann.

Samúð mín er nefnilega líka hjá honum, en ekki bara hjá farþegunum og starfsfólkinu. Fyrir einhverja var þetta nefnilega entertainment og brjálæðislega góð saga til að segja frá.. og deila með öllum heiminum. Bókstaflega. Hann þurfti áfram að upplifa óttann, nema í þetta skipti teipaður í sætið.

Gaurinn, hann er trúlega eins og ég - held ég. Fyrir okkur flughrædda fólkið er þetta nefnilega eins og að spila rússneska rúllettu með kúlur í öllum hólfum nema einu. Líkurnar fara frá því að vera "öruggasti ferðamáti heims" yfir í fljúgandi líkkistu. I kid you not.

Flughræðsla snýst nefnilega svolítið um það að vita að þú ert ekki við stjórnvölinn. Við teljum okkur trú um að við séum öruggari í bíl sem við keyrum af því að þá erum við allavega að stýra. En þarna var hann hvorki með stjórn á farartækinu né sjálfum sér. Tvöfaldur bömmer.

Hann líklega réð bara ekki við sig. Í alvöru. Ég veit að það hljómar asnalega en mín upplifun er allavega þannig.

Sá næsti sem horfir róandi í augun á mér í flugi og segir "þú ert öruggari hér en á Reykjanesbrautinni" getur troðið þeim stóra sannleik upp þar sem sólin skín vonandi aldrei.

Það er nefnilega ótrúlega merkilegt að skynsamasta fólk (lesist: ég), missir vitið, ráðið og næstum rænuna við það að þurfa að spenna öryggisbeltið og finna vélina rúlla af stað eftir flugbrautinni.

Allt sem var pikkað upp í eðlisfræði hér í denn er farið. Út í hafsauga.

Það að læknast af flughræðslu er að sætta sig við að geta ekkert gert. Lögmál eðlisfræðinnar og líkindareikningar lúta í lægra haldi fyrir forlagatrú og fávitahætti.

Ég hef prófað allt. Trúið mér. Ég var næstum því flugdólgurinn á leiðinni til Boston hér um árið (takk Linda, takk Erla fyrir að henda mér ekki út yfir Grænlandi). Ég var kreisí, kreisí, kreisí kerlingin á leið frá Búdapest til Köben eitt árið. Ég missti kúlið (ekki eins og ég hafi haft það í alvöru í vélinni, en þið skiljið..) algjörlega síðasta sumar þegar flugmenn Icelandexpress ákváðu að þruma vélinni aftur upp 2 sekúndum fyrir lendingu í Köln. Ég svitna, skelf og stressast upp eins og enginn sé morgundagurinn við hvert aukahljóð (sem enginn heyrir nema ég), við hvern aukahristing (sem aðrir nota til að snúa sér á hinn vangann og halda áfram að slefa ofan í koddann) og við hvert dingl í bjöllunum... og stundum fer ég að gráta.

Ég reiknaði einu sinni líkurnar á því að vélin færi niður með því að telja frægt fólk sem beið eftir vélinni (really, ekki spyrja).  Fékk það út að sú vél færi niður og við yrðum öll á forsíðu Moggans.

Ég á mun verri sögur. Ætla að hlífa ykkur við þeim.

Ég fór meira að segja á flughræðslunámskeið. Einkatíma. Þeir dugðu í ca. 5 ár. Held að það hafi verið svona "best fyrir" stimpill sem ég tók ekki eftir.

Í hvert skipti sem vélardruslan lendir síðan á áfangastað, kemur skynsemin aftur í hausinn og mér líður eins og mesta fávita í heiminum...

Næst þegar þið lendið við hliðina á flughræddri manneskju, reynið þá að tala við hana um allt og ekkert. Fórnið ykkur fyrir  málstaðinn. Nema að þið séuð einungis að leita eftir frægð á reddit og þá skuluð þið fyrir alla muni hvísla reglulega "er þetta hljóð eðlilegt?"

...þar til næst..

slauga

p.s. hvað ef maður þarf að pissa eftir að vera teipaður í sætið og einnig fyrir munninn?