9. janúar 2013

Af dólgum og kreizí kerlingum í flugi...

Alveg er ég nokkuð viss um að einhver ykkar hafið verið að bíða eftir þessum pistli. Þ.e. þið ykkar sem hafið setið með mér í flugvél. Já,viðurkennið það bara. Þegar þið fyrst fréttuð af meintum flugdólgi í vél Flugleiða þá spáðuð þið í það hvort ég hefði verið að skjótast vestur yfir haf. Þar til þið fréttuð að um væri að ræða karlmann.

Samúð mín er nefnilega líka hjá honum, en ekki bara hjá farþegunum og starfsfólkinu. Fyrir einhverja var þetta nefnilega entertainment og brjálæðislega góð saga til að segja frá.. og deila með öllum heiminum. Bókstaflega. Hann þurfti áfram að upplifa óttann, nema í þetta skipti teipaður í sætið.

Gaurinn, hann er trúlega eins og ég - held ég. Fyrir okkur flughrædda fólkið er þetta nefnilega eins og að spila rússneska rúllettu með kúlur í öllum hólfum nema einu. Líkurnar fara frá því að vera "öruggasti ferðamáti heims" yfir í fljúgandi líkkistu. I kid you not.

Flughræðsla snýst nefnilega svolítið um það að vita að þú ert ekki við stjórnvölinn. Við teljum okkur trú um að við séum öruggari í bíl sem við keyrum af því að þá erum við allavega að stýra. En þarna var hann hvorki með stjórn á farartækinu né sjálfum sér. Tvöfaldur bömmer.

Hann líklega réð bara ekki við sig. Í alvöru. Ég veit að það hljómar asnalega en mín upplifun er allavega þannig.

Sá næsti sem horfir róandi í augun á mér í flugi og segir "þú ert öruggari hér en á Reykjanesbrautinni" getur troðið þeim stóra sannleik upp þar sem sólin skín vonandi aldrei.

Það er nefnilega ótrúlega merkilegt að skynsamasta fólk (lesist: ég), missir vitið, ráðið og næstum rænuna við það að þurfa að spenna öryggisbeltið og finna vélina rúlla af stað eftir flugbrautinni.

Allt sem var pikkað upp í eðlisfræði hér í denn er farið. Út í hafsauga.

Það að læknast af flughræðslu er að sætta sig við að geta ekkert gert. Lögmál eðlisfræðinnar og líkindareikningar lúta í lægra haldi fyrir forlagatrú og fávitahætti.

Ég hef prófað allt. Trúið mér. Ég var næstum því flugdólgurinn á leiðinni til Boston hér um árið (takk Linda, takk Erla fyrir að henda mér ekki út yfir Grænlandi). Ég var kreisí, kreisí, kreisí kerlingin á leið frá Búdapest til Köben eitt árið. Ég missti kúlið (ekki eins og ég hafi haft það í alvöru í vélinni, en þið skiljið..) algjörlega síðasta sumar þegar flugmenn Icelandexpress ákváðu að þruma vélinni aftur upp 2 sekúndum fyrir lendingu í Köln. Ég svitna, skelf og stressast upp eins og enginn sé morgundagurinn við hvert aukahljóð (sem enginn heyrir nema ég), við hvern aukahristing (sem aðrir nota til að snúa sér á hinn vangann og halda áfram að slefa ofan í koddann) og við hvert dingl í bjöllunum... og stundum fer ég að gráta.

Ég reiknaði einu sinni líkurnar á því að vélin færi niður með því að telja frægt fólk sem beið eftir vélinni (really, ekki spyrja).  Fékk það út að sú vél færi niður og við yrðum öll á forsíðu Moggans.

Ég á mun verri sögur. Ætla að hlífa ykkur við þeim.

Ég fór meira að segja á flughræðslunámskeið. Einkatíma. Þeir dugðu í ca. 5 ár. Held að það hafi verið svona "best fyrir" stimpill sem ég tók ekki eftir.

Í hvert skipti sem vélardruslan lendir síðan á áfangastað, kemur skynsemin aftur í hausinn og mér líður eins og mesta fávita í heiminum...

Næst þegar þið lendið við hliðina á flughræddri manneskju, reynið þá að tala við hana um allt og ekkert. Fórnið ykkur fyrir  málstaðinn. Nema að þið séuð einungis að leita eftir frægð á reddit og þá skuluð þið fyrir alla muni hvísla reglulega "er þetta hljóð eðlilegt?"

...þar til næst..

slauga

p.s. hvað ef maður þarf að pissa eftir að vera teipaður í sætið og einnig fyrir munninn?