14. febrúar 2012

Gamalt fólk...

Það er náttúrulega alveg á mörkunum að ég fari að birta þetta. Það eru ákveðnar líkur á því að eftir lestur þessa pistils, verði ég gerð arflaus og brottræk að eilífu úr kleinulandi.

En sumu er bara ekki hægt að horfa framhjá. Það bara hreinlega öskrar á litla, sæta, krúttlega (lesist líklega: sadíska) púkann sem býr inní mér.

Ég fór í stutta ferð til fyrirheitna Íslandsins um daginn og var umvafin gamalmennum.

Hér er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ég elska gamalt fólk. Svona flest. Eins og til dæmis foreldra mína. Þau eru í raun ekki svo gömul, hef eiginlega alltaf fundist þau ótrúlega ungleg og hress.

Þar til ég sit með þeim bíl.

Ég veit að ég er bílhrædd, en gott fólk, þetta er bara svakalegt.

Pabbi er meira svona krúttlegur. Minnir mig svoldið á bíómynd, svona rétt þegar þær voru að komast í lit. Munið ekki eftir því þegar liðið var að keyra og hreyfði stýrið svona ótt og títt. Yup. Akkúrat. Það er hann. Svo er hann alltaf að segja mér fréttir á leiðinni frá Keflavík og það þýðir að hann er ekkert að horfa á veginn. En ég sit eins og með stífkrampa í baksætinu og vona bara að mamma nái að fylgjast með.

Og það gerir hún. Guð minn góður, fylgist hún með. Hún til dæmis tilkynnir honum reglulega hvort að hann viti hvað sektin sé há fyrir hina ýmsu hluti. Eins og "Gunnar, veistu hvað það kostar mikið að fara yfir á rauðu?" Í þann mund sem hann FER yfir á rauðu. Held að þetta kallist eftirvarnir.

Þetta væri svosem í lagi ef hún væri eitthvað betri. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Hún er bara ekki hótinu skárri. Ekki það að ég sé að benda neinum á neitt, en þá væri ég voða glöð ef einhver lögga vildi svona fljótlega sekta hana fyrir að tala í síma á meðan hún keyrir. Hún verður nefnilega ægilega óákveðin hvorum megin línunnar hún ætlar að vera, þannig að hún er bara cirka í miðjunni. Á tveggja akreina götu.

Ég verð líklega aldrei aftur sótt til Keflavíkur af þessum ágætu hjónum. En það þarf einhver að segja þeim þetta. Það er bara algjör tilviljun að ég sé komin 2,332 kílómetra í burtu þegar ég læt þetta gossa.

Kynntist líka lauslega öðru gömlu fólki. Fór nefnilega í ónafngreint íþróttamannvirki til að nýta hlaupabrautina í kringum yfirbyggða fótboltavöllinn. Fór með mágkonu minni. Fengum þær leiðbeiningar að við þyrftum að sýna þeim tillitssemi, sem nýta völlinn til að ganga. Það er nefnilega mökkur af eldra fólki sem gengur þarna. Hring eftir hring eftir hring.

Og við vorum að hlaupa, en treystið mér, ekki á ljóshraða.

Gömlu krúttlegu karlarnir voru algjörlega to die for. Brostu eins og sól í heiði í hvert skipti sem við mættum þeim eða fórum fram úr þeim, hvöttu okkur áfram og voru bara, í alvöru, algjörir dúllurassar. Í góðri merkingu, ekkert svona eins og þú ert að hugsa núna.

En konurnar. Jesús, María og Jósep. Ef ég á eitthvert markmið varðandi ellina, þá er það að verða ekki eins og þær. Fúlína Skúlína og Pirraða Pála. Jemundur minn.  Veit að ég er í áhættuhóp, but by the power of Grayskull, þá mun ég reyna eins og ég get að lenda ekki í þeirri deild. Ég lofa.

Ég veit samt að ef systur hennar mömmu hefðu verið þarna þá hefði þetta verið í lagi. Ef við hefðum verið fyrir þeim, hefðu þær líklega bara fellt okkur og látið okkur heyra það beint. Og svo hefðu þær bilast úr hlátri. Annars eins stuðbolta-ellismella-hópur er líklega ekki til. Vil eiginlega verða eins og meðaltalið af þeim.

Og nú má ég líklega aldrei aftur fara í þetta íþróttahús.

Gamalt fólk er samt best. Til dæmist í að baka kleinur. Og trúið mér, ég fór með fulla ferðatösku af kleinum til Lúxemborgar.

Gamalt fólk er líka ótrúlega gott í að búa til kjötsúpu og nenna að sækja mann hvert sem er (já, ég veit, tvíeggjað sverð hér á ferð). En þau er það nú bara samt. Best.

Jæja, best að fá sér kleinu.

Fæ víst örugglega aldrei aftur kleinur bakaðar af henni móður minni....

Þar til næst...

22. janúar 2012

Elsku Astrid...

.. um leið og ég þakka þér kærlega fyrir yndislegar stundir í æsku minni, þegar ég týndist í undraheimi Ronju, Línu, Míó og bróðurs míns ljónshjarta, veit ég ekki alveg hvernig ég á að orða það sem kemur hér á eftir.

Þannig vill til að ég á 6 ára stelpu sem er með rautt hár, freknur og óslökkvandi þorsta fyrir sögum. Hún telur nú, eftir sirka 2-3 ÁRA Línu tímabil að hún sé Lína. Raunverulega.

Á föstudaginn kom ég inn í herbergið hennar og sá hana hvergi. Það var af því að augnlína mín var ekki að kíkja á það sem var ofar en þeir rösku 120 sentimetrar sem hún telur nú í hæð. Hún var auðvitað búin að koma sér fyrir uppá rúmgrindinni því að það er mjög eðlilegt fyrir Línur þessa heims.

Hún svaf "öfugt" í rúminu sínu um daginn. Ég veit ekki hvernig henni datt það í hug.

Mér telst svo til að hún hafi hlustað á leikritið um Línu 20-30 sinnum síðastliðna viku.

Hún bað um apa á laugardaginn. Lifandi. Til vara vill hún hest.

Hún mætir reglulega í skólann klædd í Línukjólinn sinn og í sitthvorum sokknum.

Ég orga líklega ef ég heyri aftur söng sjóræningjana þegar þeir mæta í bæinn.

Elsku Astrid. Ég get ekki meiri Línu. Ég vona að þú skiljir það.

Við lásum líka spenntar um elsku Míó minn sem ferðaðist um Landið í fjarskanum og fundum fyrir ískaldri klónni sem tilheyrði riddaranum Kató. Það hreinlega lamaði okkur úr hræðslu.

Hún svaf ekki í viku.

Af og til skreppur hún þó í heimsókn til Maddit og Betu þar sem hún lærir nýja hluti. Var pínu stressuð að lesa fyrir hana kaflann þegar Maddit gekk eftir húsmæninum á skólanum. Hún virðist þó ekki hafa pikkað það upp ennþá.  Hún elskar þó orðið drullusokkur sem hún lærði ásamt Betu í síðustu viku.

Við erum núna að verða búnar með Maddit og Betu. Þurfum að fara að finna nýja bók. Mig langar ægilega að lesa fyrir hana Ronju, en hún er víst ófáanleg á Íslandi. (Sem betur fer?)

Er þó nokkuð viss um hvaða orð verða í uppáhaldi ef sú bók finnst.

Sagt og sungið hátt og snjallt af barninu sem getur ekki sagt íslenskt R.

Setjið franskt R í staðinn fyrir það íslenska og endurtakið nokkrum sinnum:

Rassálfar og Rebekka Ræningjadóttir.

Fyndið Astrid? Fyndið?

...já, eiginlega. Drepfyndið.

Þar til næst..

p.s. ég ætla bara að sleppa því að lesa um Emil. Tek bara ekki sénsinn.

3. janúar 2012

Áramótageit...

.. frekar en áramótaheit. Því að á þessum bæ eru áramótaheit ekki strengd.

Ég veit ekki afhverju, en líklega tengist það óstjórnlegri og ótrúlega órökvísri hjátrú.

Ég er nefnilega þannig að það jaðrar við geðveiki þegar talið berst að hjátrú.

Er ótrúlega sannfærð um að ef maður strengir þessi áramótaheit, þá sé maður að búa sér til vandræði.

Á vinkonu sem sagði mér einu sinni að hún ætlaði aldrei aftur að lýsa því yfir að komandi ár yrði það best í heimi.. af því að árið sem hún gerði það, var árið sem allt beisiklý fokkaðist upp (pardon my language..).

Ég er því sannfærð um að það myndi gerast í mínu tilfelli líka.

Ef ég tildæmis myndi segja það opinberlega að ég ætlaði að léttast um 10 kíló á nýju ári, þá myndi ég líklega enda upp sem heimsins feitasta kona, búin að bæta á mig 320 kílóum á komandi ári.

Ef ég segðist ætla að byggja sumarbústað á ákveðnu ári, þá myndi bústaðurinn væntanlega breytast í ryðgað hjólhýsi frá 1974.

En ég er ótrúlega góð í forvörnum.

Ég hugsa að það myndi liggja sirka heilt kíló af salti á gólfinu í eldhúsinu hjá mér ef það væri ekki sópað reglulega. Því að eins og allir vita á maður að kasta salti yfir öxlina á sér ef maður missir niður saltkorn. Alltaf. Er samt ekki alveg viss út af hverju, en allur er varinn góður.

Held að það sé ekki til sá viður sem ég hef ekki barið í reglulega með ákveðinni tölurunu.

Fer ekki mikið undir stiga..og siga hundinum á alla svarta ketti í nágrenninu.

Óska samt ykkur öllum gleðilegs árs og gæfu á komandi ári... og að ykkur takist að ná öllum ykkar markmiðum strengdum á þessum áramótum.

Reyni kannski að venja mig af matvendni þegar kemur að geita-afurðum á árinu, samanber titilinn.. en lofa engu. Þetta er þvílíkur viðbjóður að það er engu lagi líkt.

Ef þetta væri formlegt áramótarheit, sem það er ekki, væri líklegt að ég myndi enda sem þræll á geitabúi í lok árs. Treysti á að það gerist ekki.

Sjö, níu, þrettán.

Þangað til næst..