15. desember 2008

Af jólatrjám og öðrum ósóma...

Góða kvöldið gott fólk!

Eftir langt blogghlé ákvað ég að nú væri tími til kominn að smella einhverju fram. Þetta helgast kannski af þessu súra ástandi sem hefur ríkt hér í Lúxemborg að neistinn var ekki alveg í gangi hvað varðar skriftir. Sumir létu sér vaxa skegg. Ég hætti að skrifa ! :O)

Í dag náði þessi rússíbani ákveðnum endalokum þegar að öllum samningum við starfsmenn var sagt upp og einhverjir endurráðnir í framhaldi af því. Til að gera langa sögu stutta er ég að vinna áfram en það lýtur út fyrir það að maður sjái á bak vinnufélögum og vinum í kjölfar þessa dags. Úff.. en sá dagur!

Ákváðum síðan að kýla í okkur smá jólaanda eftir daginn, og drógum upp jólatréð sem við völdum um daginn í jólatréskóginum. Það jólatré er í raun sérhannaður árásarbúnaður, búinn
eiturhvössum nöglum í stað barrs og hefur það aðeins eitt markmið. Að meiða litla putta (og stóra). Náðum um tíma að yfirbuga það, hentum á það ljósaseríu og skrauti, komum því fyrir út í horni og horfðum stolt á. "Ógurlega fallegt tré og vel valið hjá okkur, hugsuðum við örugglega öll." Það dugði í 5 mínútur, þá gafst tréð upp og með hljóðu öskri réðst það á gólfið og henti af sér skrautinu og hellti vatni um allt gólf. Helv.. tré!

Tróðum kvikindinu aftur ofan í fótinn, heilu viskastykki með, þvinguðum það með öllu afli til samstarfs og hótuðum því öllu illu. Smellti af því mynd til að eiga allavega sönnun fyrir því að það hefði einhverntíman staðið upprétt! Tréð stendur þarna enn.. starir á okkur og virðist alltaf vera á leiðinni aftur á gólfið en ég er nokkuð viss um að það bíður næturinnar til að ná fram hefndum. Grenihrífan þín..

Af öðru jólalegu má meðal annars nefna jólatónleika ILS (skólinn hennar Gaby) en þar var hún að sjálfsögðu að syngja með bekknum sínum.

Það ætti að grilla í hana ef vel er að gáð...





Eyddum helginni annars með skemmtilegu fólki, vorum á föstudagskvöld í mat hjá Krissa og Rúnu, Elsa og Nonni komu líka og við borðuðum saman og spiluðum síðan Scattegories. Það er skemmst frá því að segja að ég var vinsamlegast beðin um að mæta ekki með Kristján aftur í þetta spil. Fyrir þau ykkar sem hafið ekki spilað þetta, þá mæli ég með þessu... verið bara viðbúin í geðveikislegar rökræður ef þið bjóðið Kristjáni í með....

Fórum síðan í laufabrauðsútskurð hjá Skúla og Helene á sunnudag þar sem dömurnar sýndu listir sínar með hnífana. Þriggja ára með svisseskan vasahníf...? Er eitthvað að því?



Jæja gott fólk, hef þetta ekki lengra í bili, það má ekki ofgera hlutunum.

Jólaundirbúningskveðjur frá Lúx,

slauga og co.