21. nóvember 2011

Dómsdagur með ostum.

Já gott fólk,
það er komið að því.

D-day, dómsdagur, endalok alls þess sem er gott og sætt og ljúffengt í þessum heimi.

Á morgun verð ég sett eins og hamstur á hjól til þess eins að fá staðfestingu á því sem ég nú þegar veit.

Grátlegt líkamsástand mitt verður krufið til mergjar.

Hugmyndin er svosem góð og flest allir í vinnunni eru farnir að mæta þarna í veröld Satans. Á hverjum degi er alltaf einhver til fyrirmyndar og púlar sér út. Hjólar, lyftir, hleypur og lýgur því stanslaust að öllum sem heyra vilja hversu frábært þetta er.

Ok, fínt. Ég er alveg til í að vera með í klúbbnum, en það var áður en ég frétti það að til þess að mega fara í sturtu í þessum undirheimum Hadesar, þarf maður að undirgangast próf.

Ostaprófið. Sumir vilja kalla það fitubolluprófið, en hitt hljómar betur. Hvaða ostur ertu?

Á morgun er sumsé mitt próf. Framkvæmt af sadískum, hollenskum (sumir Hollendingar hata ennþá Íslendinga eftir Icesave og þessi flokkast þar undir) líkamsræktar-na####a.

Ég mun flokkast sem feitur gouda, og nota bene, gouda er til í allt að 48% hér í Lúx.

Finnst reyndar ótrúlega ómerkilegt af þeim sem skilgreindu fituskalann að búa ekki auka ramma á milli "average" og "obese". Hverskonar rugl er það? Já.. þú er svona í meðallagi.. en þú þarnað ógeðið þitt sem slysaðist einu prósenti hærra, þú ert bara obese! Ullabjakk!

Það er sumsé ég á morgun. Fröken obese.

Er núna að fara yfir litgreiningar palettuna til að finna út hvaða litur klæðir rautt best.

Ég nefnilega verð rauð í framan. Ekkert lítið sko. Heldur þannig að fólk stoppar mig gjarnan og spyr hvort að það sé allt í lagi með mig. Gerist á mínútu 3 og er hræðilegt. Fer á mínútu 300.

Hugsið tómat.
Teiknið á hann andlit.
Það er ég.

Það sem fylgir svona átaki gjarnan er síðan bætt mataræði. Hef svosem engar sérstakar áhyggjur þar. Er að borða viðbjóðslega hollt eftir að grænmetisvagninn hóf vikulega innrás sína.... en ég hef smá áhyggjur af namminu.

Ég var nefnilega á Íslandi.

Fór auðvitað í Krónuna og Bónus og keypti upp lagerinn af rauðum möndlum og hrískúlum.

Get ekki EKKI borðað það. Það væri bara móðgun.
Ekki er hægt að geyma það því að það stríðir á móti öllu sem ég hef tamið mér.
Og ekki er hægt að henda því (maður hendir ekki dýrgripum).

Vandamálið sem ég stend því frammi fyrir núna er eiginlega hálfgert keppnis.
Þarf hvort eð er að koma mér í keppnisgírinn.

Klukkan er núna níu um kvöld. Testið er klukkan tólf á morgun. Sem gerir 15 klukkutíma.

4000 hrískúlur og 2000 möndlur.

Babysteps...

Þangað til næst...

3. nóvember 2011

Ömmur

Eitt af því sem er ekki sjálfgefið, er að fá að kynnast ömmu sinni.

Ömmur eru, skv. skilgreiningu minni, mjúkar konur á sál og líkama, sem hægt er að sækja óendanlega ást og visku til. Þær kunna allt. Þær kenna manni að leggja kapla og spila spil. Þær vita allt sem þarf að vita og meira til. Ég átti tvær ömmur, önnur dó þegar ég var 16 ára en hin daginn eftir 17 ára afmælisdaginn minn. Ég fékk því ekki að kynnast þeim með þeim hætti sem ég hefði viljað. Óteljandi spurningum er enn ósvarað, spurningum sem ég hafði ekki rænu á að spyrja fyrir sautján ára aldurinn.

En af hverju er ég að skrifa um ömmur? Jú, af því að fyrir stuttu dó ein amma. Ekki amma mín, heldur amma hennar Auðar vinkonu minnar. Ég og Auður vorum bestu vinkonur í MR og höfum haldið vinskapnum áfram, þrátt fyrir að það líði núna lengri tími á milli þess sem við hittumst. Ein í Lúx og hin í Köben.  En ég var líka vinkona ömmu hennar. Amma hennar hét einnig Auður og var kjarnakona. Hún vann á sínum yngri árum í Landsbankanum og þannig fundum við samnefnara okkar. Og svo vorum við auðvitað báðar miklar vinkonur dótturdóttur hennar og aldursbil var ekki til.

Hún kom ósjaldan og kíkti á mig þegar ég vann í Landsanum. Hún var með sterkar skoðanir á því hvernig hlutirnir ættu að vera, hún var stolt af mér, gaf mér góð ráð og mér fannst óendanlega gott að knúsa hana þegar ég hitti hana. Hún hafði alltaf áhuga á því sem ég var að gera og ég veit að hún fylgdist með mér eftir að ég flutti út. Hún var þessi eiturhressa týpa sem var algjörlega "on top of things". Það var ekkert sem hún var ekki með á hreinu. Hún var einstök. Hún var holdgervingur Ömmunnar.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst henni.

Legg til að þið knúsið ömmurnar í kringum ykkur...

Þar til næst..

p.s. ykkur er alveg óhætt að knúsa afana líka....

1. nóvember 2011

Ísland, sækjum það... með ferðatösku og yfirvigt!

Það stefnir í Íslandsferð hjá frúnni.

Sem í flestum tilfellum þýðir yfirvigt á leiðinni tilbaka.

Yfirvigtin splittast í tvennt. Hluta af henni ber ég innanklæða, réttara sagt innvortis eftir ofát og belgingu vambar á tímabilinu. Síðan er hinn hlutinn sem er klárlega ekki minna mikilvægur.

Birgðaflutningur.

Fyrir þau ykkar sem haldið að allt fáist í útlandinu, skal það hér með leiðrétt. Það er rangt.

Helstu útflutningsvörur eru eftirtaldar:

Cheerios.
Efst á listanum. Þetta stöff er eins og gull. Höfum átt viðskipti með þetta hér úti. Á meðan hlutabréfavísitölur heimsins hríðféllu, stóð Cheeriosið óhaggað. Fæst ekki úti nema með sykurhúð helvítis.

Royal búðingur.
Þarf eitthvað að útskýra þetta? Hvernig á maður að neita börnum sínum um hlut sem geimvísindalega sannar að hamingju er að finna í skál?

Rauðar möndlur.
Það þarf þó að vanda sig við þennan lið. Hef Freyju menn grunaða um að setja gölluðu, allt-of-linu, möndlurnar í risa poka og selja í fríhöfninni. Hef nokkrum sinnum talið mig vera komna til himna, með slíkan risapoka læstan á milli krumlanna. En vonbrigðin hafa verið í réttu hlutfalli við stærð pokans. Linar og lélegar. Ég ét þær nú samt... maður hendir ekki svona hlutum, en rétta aðferðin er að kaupa litlu pokana (sem fást ekki í flughöfninni) og pakka þeim áður en farið er af stað. Bara nógu marga pakka.. með grjóthörðum og dásamlegum möndlum.

Hrískúlur frá Freyju.
Dásamlegt stöff. Er viss um að þær eru sannanlega í boði á himnum. Fullkomið jafnvægi  milli hrískúlu og súkkulaðis. Ekki þessi súkkulaðihryllingur sem er í boði í hjá N&S. Erum ekki sammála þarna hjónin (frekar en oft áður).. þar sem hann er aðdáandi nóakroppsins.  Éttu þá bara þitt stöff sjálfur vinur og láttu mitt í friði!!!

Hangikjöt og flatkökur og skyr.
Besta máltíð í heimi. Þarf smá lagni til að koma skyrinu ósködduðu.. en það er sko samt hægt. Erum ókrýndir meistarar í skyrútflutningi. Skil ekki afhverju við erum ekki á opinberum lista yfir útflutningsaðila skyrs.

..og þá er það cirka komið. Auðvitað dettur ýmislegt í töskuna.. en þetta eru lykilatriðin að hamingjunni í Lúx. Minni alla þá sem hyggja á heimsókn til okkar að athuga birgðarstöðu heimilisins í samræmi við ofangreint og koma okkur á "óvart..".

Þess á milli verður maður bara að láta sér nægja annars flokks mat. Í alvörunni, hver lifir af gæsalifur, strútskjöti, ostrum, ostum og sniglum einum saman?

Þar til næst..