19. október 2011

Morgunstund gefur gull í ..? hvað? ekkert!

Fyrir ykkur óþolandi morgunhanana er best að hætta hér. Takk fyrir lesturinn.

En fyrir hin ykkar sem eruð með mér í liði, þá er þessi pistill tileinkaður okkur sem finnst lífið betra.. eftir hádegi.

Ég veit ekki alveg hver byrjaði á þessu rugli, að rífa fólk upp á rassgatinu í morgunsárið og henda því út í náttmyrkrið. Ég meina, afhverju ekki að bíða eftir birtunni? Er það eitthvað verra?

Ég veit líka að ég er ekki ein í þessu. Ég á tildæmis bróður sem hefur séð sólarupprás bara af þeirri einföldu staðreynd að það birtir ekki fyrr en um 11 leytið á Íslandi á veturna.

Var ég ekki líka örugglega búin að minnast á að ég er gift Kristjáni. Hafið þið hitt Kristján?

Morgunglaðari persónu er líklega ekki hægt að finna. Finnst trúlegt að nokkrir fuglar, hérar og íkornar  úr Disney flögri, hoppi og skoppi í kringum hann á morgnanna (á meðan ég lúri ásamt hinum illfyglunum úr sömu verksmiðju). Hann er þessi ótrúlega hressa týpa og tilbúinn í daginn. Og svo þarf hann ótrúlega mikið að tala. Er eiginlega ekki að meika það. Sé ekki tilganginn með því að eiga samtal við yfirhöfuð einhvern á morgnanna. Ég held því raunar fram að það sé ekki hægt að segja neitt gáfulegt á morgnanna, nema að maður sé hreinlega að lesa upp texta sem var skrifaður kvöldið áður. Því er best að þegja.

Besta morgunsamband sem ég hef átt var veturinn þegar Gunni bróðir var í Stýrimannaskólann og ég í MR.  Fékk iðulega far með honum á morgnanna. Það fyrsta sem var umlað út úr sér var jafnframt það síðasta. Nokkurs konar ígildi kveðju þegar rennt var upp að Menntaskólanum.  Fullkomið. Fullkominn skilningur beggja aðila.

Á morgun þarf ég svo að vakna ógeðslega snemma. Sirka kl. 6.15. Það er nefnilega afmæli á heimilinu þegar hin yndislega en jafnframt morgunfúla barnið mitt hún Rebekka verður 6 ára. Hún er eins og ég: getur-ekki-opnað-augun.

Nema þegar hún á afmæli. Þá vaknar hún eldsnemma og vill fá pönnukökur.

Og hún fær þær.

Jafnvel þótt móðirin muni líta út eins ofnbakaður karfi sem enn hefur ekki opnað augun, þar sem hún ráfar um í eldhúsinu með spaðann að vopni og reynir að blanda hráefnunum saman með hálfa meðvitund.

Fer snemma að sofa í kvöld.

Þar til næst...

11. október 2011

Innrás Smjattpattana..

Þegar ég var lítil elskaði ég Smjattpattana. Söng hástöfum með og fílaði þetta í botn. Fannst Lúlli laukur fyndinn en Pála Púrra eitthvað hálf misheppnuð. Ég kunni líka Grænmetisvísuna úr Dýrunum í Hálsaskógi utan að.

Í stuttu, ég kunni öll lög um grænmeti sem voru í boði en heilaþvotturinn virkaði illa. Var ekki alveg að fíla að borða þetta. Einbeitti mér frekar að kókópöffsi og kókómjólkinni (með tilheyrandi afleiðingu, I do realise...).

Ég hef þó á síðari árum lært að meta þetta græna. Finnst það eiginlega bara orðið nokkuð gott. Er líka svo ægilega meðvituð eitthvað um hollustuna að mér fannst tilvalið að gerast áskrifandi að bíóvænni grænmetiskörfu vikulega. Tók bara samt minnsta skammtinn, svona á meðan ég væri að prófa.

Í hverri viku streymir því inn á heimilið, fyrir 18 Evrur eða svo, heill helvítis hellingur af þessum fjanda.

Í alvöru. Það er einhver takmörk fyrir því hvað hægt er að upphugsa af uppskriftum. Var með 7 kúrbíta í grænmetisskúffunni í dag, eldaði úr fjórum þeirra. Geri aðrir betur.

Spínat einhver? Hnúðkál? Radísur, Hokkaido grasker, maísstönglar (með hýðinu og alles) eða lauk? Sveppi eða salathaus? Tómat og púrrulauk. Eggaldin..?

Vanþakklæti hugsa örugglega einhverjir núna. Á meðan Ísland flytur inn "ofurþroskað" grænmeti vogar hún sér að kvarta.

Ekki misskilja. Ég var geðveikt spennt í byrjun. En þegar að heimilið sem hatar paprikur fékk 5 stykki á 8 dögum þá þarf eitthvað að endurhugsa þetta. Og mér finnst meira að segja gaman að elda. Búin að elda fennel pasta, fennel fisk og fennel pasta aftur. Það var kúrbítsofnréttur í matinn í kvöld. Brokkólísúpa í síðustu viku og graskerssúpa þar áður. Búin að súrsa paprikur (fyrir Raclette seasonið skiljiði..). Ég elda og elda eins og skrattinn sjálfur sé á eftir mér, en það sér ekki högg á vatni. Og á hverjum þriðjudegi bætist við.

Vil ekki gefast upp á þessari hollustu, en ég held að herra google sjálfur sé orðinn leiður á þessu. Er búin að gúggla allar grænmetisuppskriftir algeimsins.

Ekki einu sinni reyna að benda á frystinn. Það kemst ekki meira inn í hann. Ekki ein baun (bókstaflega).

Ætla að halda áfram aðeins lengur, en ef ég sé bangapabba koma raulandi: "Gott er að borða gulrótina.. grófa brauðið steinseljuna.." þá er jafnlíklegt að ég dúndri í hann graskerinu og troði uppí hann gulrótunum og að ég taki undir sönginn..

Þar til næst...

p.s. í ískápnum eru núna eftirfarandi hlutir, óeldaðir:

  • Hokkaido grasker
  • kúrbítar
  • sveppir
  • púrrulaukur
  • tómatar
  • nokkrir maísstönglar
  • eggaldin
  • salathaus
  • risaskammtur af risaspínati
  • gulrætur
  • agúrka
  • steinselja 
  • laukar, gulir og rauðir
  • hnúðkál
Uppskriftir óskast... 

5. október 2011

Eiginkona ársins!

Rekur nú væntanlega einhvern í rogastans.

Ekki láta þó titilinn blekkja ykkur, þar sem hér á eftir fer (ekki) lofsöngur um síungan eiginmann minn sem á, ótrúlegt en satt, afmæli í dag.

Kristjáni er margt til lista lagt eins og flest ykkar vita. Hann er frábærlega skemmtilegur félagi, æðislegur kokkur, skemmtilegur pabbi , uppáhaldstengdasonur (ekki fleiri til...) og svo auðvitað augasteinn móður sinnar.

En af því að mér finnst skemmtilegra að benda á hina hliðina, þá skulum við rétt aðeins staldra við.

Þegar ég fyrst kynntist Kristjáni þá tilkynnti hann mér að þetta væri útúrpælt hjá honum að yngja upp strax (!) Svona eins og að það ætti að veita mér einhverja tryggingu.

Í dag er hann þó hlutfallslega minna eldri en ég heldur en hann var fyrir 13 eða fjórtán árum síðan (voru það kannski fimmtán? man aldrei hvaða ár við hittumst, þarf alltaf að spyrja Roald..).  Hann hefur jafnframt eitthvað yngingarelement við sig og er nokkuð naskur á að velja sér ekki svona "gömlu karla föt", þannig að gífurlegt aldursbilið er ekki að trufla mig, ennþá.

Talandi um föt. Kristján er þessi týpa sem elskar einkennisklæðnað. Hann hefur ótrúlega þörf fyrir að eiga átfittið í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur, jafnvel þó um sé að ræða tímabundið áhugamál. Skátarnir, golfið, skíði, hjólreiðar og hlaup. Mamma hans sagði einu sinni að Kristján hefði sómt sér vel í hernum (hjálpræðis?) af því að hann elskaði einkennisbúninga...  Greyið hefði bara átt að læra á lúður, þá hefði hann verið set for life hérna með Lúxembúrgísku lúðrasveitinni. Þeir eru í svaka júniformi og spila reglulega í götunni hjá okkur.

Ef hann hefði lært á lúður þá hefði hann ekki heldur þurft að læra neina texta (erfitt að blása og syngja). Kristján kann nefnilega enga texta. Þá meina ég enga. Ekki einu sinni textann við „Góða mamma..“ sem ÖLL börn á Íslandi læra fyrir 6 mánaða aldur.  Þetta er eiginlega magnað, sér í lagi af því að það virðist á engan hátt halda honum frá því að syngja með.  Hátt.  Hann er líka sonur hennar Lallý sem syngur þindarlaust, en munurinn er sá að hún kann texta. Það eru þó helst textar með Britney Spears sem virðast síast í gegn hjá drengnum, en þar komum við að næsta elementi.

Píkupopp. Frá helvíti. Kristján elskar þær allar. Hvort sem þær heita Britney, Rihanna, Pink eða Katy. Hann elskar þær skilyrðislaust. Og kann hluta úr viðlögunum.  Veit ekki hvað þetta er, en stundum hef ég pínu áhyggjur.

Hann er nefnilega sirka alltaf 23 ára í anda.  Rétt eins og forgjöfin hans í golfi.

Sem gerir mig 14 árum eldri en hann... ætli hann sé ekki örugglega búinn að gleyma þessu með að yngja upp?

Til hammó með ammó.. elsku gamli kall...

Þar til næst...

3. október 2011

Móðir ársins..

Þegar kemur að barnauppeldi er ég margfaldur handhafi titilsins "Móðir ársins". Hef einnig samtvinnað það titlinum "húsmóðir ársins" þegar ég ræktaði milljarða af litlum pöddum í eldhúsinu.. en það er önnur saga.

Ég er þó ekki viss um að börnin mín hafi verið spurð álits... þ.e. þetta með móður-titilinn.

Fyrir utan smáatriði eins og að:

  • týna Rebekku í Maastricht
  • vera spurð að því á leikskóla þegar ég sótti barnið mitt hvort ég væri skyld því og mætti sækja
  • muna ekki hvort börnin mín hafi fengið hlaupabólu
  • gleyma að senda inn sjúkrakortið í skólann og fá skammir fyrir
  • finnast iðulega allt fyndið sem þeim finnst hræðilegt, eins og þegar þær breyttust útlitslega í skrímsli, báðar tvær í síðustu viku..
..þá tókst mér núna að gleyma að fara með Gabríelu í bólusetningu. Fór með hana til læknis fyrir viku og spurði lymskulega hvort hún gæti ekki þrumað í hana eins og einni bólusetningarsprautu þar sem við hefðum átt að koma með hana í sprautu 2 af 3 í lok ágúst. Fékk stíft augnaráð frá lækninum sem stundi og tjáði mér að þetta væri hið alvarlegasta mál. Þetta væri bara næstum allt of seint. Tók síðan nokkrar sekúndur í að stara á mig, en ég starði bara á móti.  Síðan henti hún mér út og skipaði mér að panta tíma hjá sér í snarhasti. Sem ég og gerði.

Mánudagur kl. 9. (heilinn: þriðjudagur kl. 9). Heilinn hjá mér ákvað sumsé að þetta væri á þriðjudegi.

Fékk síðan símtal í dag frá Gabý (hvað var ég að spá þegar ég lét hana fá gemsa?):

"Mamma". "Er þetta að segja þér eitthvað: læknir..sprauta..mánudagur..?" 

Hún talaði við mig í tón sem gaf í skyn að móðir hennar væri fæðingarhálviti. 

"Litli rugludallurinn minn. Þú hefur rangt fyrir þér. Þú ert nú aldeilis að rugla litla ruglukellingin mín. Mamma veit best. Þetta er á morgun."

Ég ætla ekki að lýsa næsta símtali sem átti sér stað eftir að hún fann miðann þar sem að tíminn stóð samviskusamlega skrifaður á.

Móðir ársins.

Er núna búin að fá nýjan tíma og Gabríela skrifaði það samviskusamlega inn á dagatalið. Hún andvarpaði líka stundarhátt og leit á systur sína. Veit hvað hún var að hugsa. 

"Eins gott að ég er hérna greyið mitt. Þetta er allt að fara í rugl."

Þar til næst...