21. desember 2007

Jólabréfið 2007.

Kæru þið öll, til sjávar og sveita!

Í ár var ákveðið að bréfið yrði í þeim stíl sem hefur einkennt samskipti okkar við umheiminn síðustu mánuði.. þ.e. að það yrði birt á blogginu okkar.

Árið byrjaði með hefðbundnum hætti. Það blundaði þó í okkur fram eftir vori að þetta yrði ár breytinganna og viti menn, um leið og prófum lauk hjá frúnni í vor var haldið af stað á starfsmannadeild Landsbankans og þá var ekki aftur snúið. Útibússtjórastólnum var skipt út fyrir stöðu í lánadeild bankans í Lúxemborg og fjölskyldan pakkaði niður í tösku. Eða réttara sagt töskur og einn stóran gám.

Risastóran.

Reyndar var ákeðið að fá fagfólk í það þar sem Kristján áttaði sig snemma á því að það yrðu litlar líkur á því að það yrði haldið út ef frúin ætti að sjá um pökkunina. Hún er víst þekkt fyrir arfalélegan árangur á því sviði..

Kristján kvaddi Eimskip með tár á hvörmum, enda lágu fyrir breytingar á fyrirtækinu sem hann var meira en lítið til að taka þátt í. En húsmæðrastörfin biðu og karlinn tók völdin í húsinu. Að sjá um þrjá kvenmenn er heljarinnar verk. Sérstaklega ef þær eru morgunsvæfar, geðstirrðar og snúnar .. sem auðvitað engin af okkur er.. þannig að verkið var auðvitað “pís of keik”..

Gabríela stundar nú nám í International School of Luxembourg og Rebekka stundar eitthvað allt annað í leikskólanum Enfant de la Roi. Þær eru báðar sælar og glaðar með sitt og bæta við sig á hverjum degi í tungumálum og annari færni. Höfum trú á því að þær verði frekar sterkari karakterar fyrir vikið en ekki..

Frúin er síðan búin að vera í vinnunni. Áhugavert að átta sig á því hvað maður kann lítið. Þ.e. ég kann ýmislegt um aðra bankatengda hluti.. en þeir bara nýtast mér ekki þarna. Það er því nóg að læra og ekkert nema gott um það að segja.

Jólin færðust síðan nær og nær og þetta árið gerðust undur og stórmerki.

Kristján bakaði Sörur.

Já, það er engin lygi. Kannski ýkjur en engin lygi. Það eru meira að segja til myndir af honum að leggja lokahönd á meistaraverkin með hvítu “K”-i.... úr dýrindis hvítu - Odense súkkulaði!

Það er því með mikilli gleði sem frúin ákveður að afsala sér bakstri komandi jóla með þá fullvissu að þessu hljóti hann að rúlla upp. Ef maður byrjar á erfiðustu sortinni þá er hitt allt barnaleikur! Er það ekki?

Við hlökkum síðan til að takast á við nýtt ár á nýjum stað. Upplifa vorið og sumarið og vonandi verðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá góða gesti í heimsókn. Það hefur allavega einhverjum verið hótað í þeim tilgangi að ná því fram..

Við óskum ykkur síðan öllum gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs. Þau ykkar sem eru á ferð um mið Evrópu eruð vinsamlegast beðin að stoppa við á 8, rue Raoul Follereau, L-1529, Luxembourg.. og þiggja kaffisopa.

Það verða kannski kökur með.

Jólakveðjur,
Kristján, Sigurlaug, Gabríela og Rebekka.

11. desember 2007

..oh..the sweet revenge..

Ég sé þetta alveg fyrir mér. Mamma og frú Clausen sitja saman á dimmu kaffihúsi í þeirri von að engin sjái til þeirra. Önnur réttir hinni brúðuna, hin heldur á nálinni. Brjálaðir kjúklingar og geggjaðir hanar dansa í kringum þær og Voodoo stemmingin er fullkomin. "Þetta kennir þeim".. segja þær og hlægja brjálæðislega... um leið og nálin fer í dúkkuna og seiðurinn er fullkomnaður.

Eða kannski ekki. Kannski er þetta bara smitandi. En í ljósi síðasta pistils, þegar ég var greinlega of snemma á mér að hrósa happi yfir því að vera ekki á staðnum þegar börnin mín fá ælu/niðurgangs pestina, má segja að skrattinn hafi hitt ömmu sína. Eða mína. Eða þeirra. Eða eitthvað...

Sumsé.. stutt yfirlit yfir helgina: veikindi (þessi ógeðslegu) og enginn kastali.

Stutt yfirlit yfir síðustu nótt. Allar veikir heimsins settar í tíundaveldi og margfaldaðar með sjö.

Auðvitað er þetta ekki ömmunum að kenna..(held ég..) það hljómar bara miklu dramatískara þannig.

Ljósi punkturinn við þetta er að þetta er mjög öflug megrun. Það fer allt út. Um alla neyðarútganga. ..og svo langar manni ekki að borða neitt. Aldrei.

En í ljósi sögunnar þá geri ég ráð fyrir því að þetta sé eins og þegar maður segist aldrei ætla að drekka aftur.. ;O)

En af örlítið léttari og skemmtilegri fréttum þá hefur Kristján formlega verið tekinn inn í morgunverðarsaumaklúbbinn og er boðinn í jólamorgunverðarklúbb á föstudaginn. Hann ætlar að baka eitthvað dásamlegt fyrir þær þannig að þið ykkar sem laumið á "idiot-proved" uppskriftum látið í ykkur heyra..

Hann er allavega mjög spenntur og gengur hér um húsið muldrandi "sörur... þær vilja sörur..".. Held að það sé ljóst að maðurinn þarf að fara að komast í vinnu.

Vorum síðan að frétta að elsklingurinn hann Sissó er á leiðinni til okkar... með örlitlu vinnustoppi í Frankfurt. Hlökkum mikið til að hitta hann í næstu viku!

Erum annars að græja óperuherbergið, Kristján var sendur í IKEA til að redda því sem átti eftir að redda, en síðan fara þau bara saman, hann og Salóme og kaupa rest....

Veðrið sýnist mér eitthvað vera að skána, en hér hefur rignt eins og hellt væri úr fötu síðustu vikur. Einhverjir eru farnir að smíða örk. En nú er allavega blár og huggulegur himinn, en hvort það er bara í suðurátt veit ég ekki því ég hef ekki litið út norðan megin :O)

Hlökkum annars mikið til að hitta þau ykkar sem hafið tíma til að kíkja á okkur 20.-21. des. .. Þannig að þetta sé alveg á hreinu þá komum við landsins 20.des kl. ca. 15.30. Þá verður brunað með frúnna í björgunaraðgerð á hári og eftir það verðum við öll í Jörfalindinni. Förum síðan í flug kl. 17 næsta dag, en þurfum að mæta mjög snemma þar sem það er ekki hægt að bóka sæti... íhaa.. frábær þjónusta hjá Flugleiðum!!! Worst case scenario er því að við verðum á víð og dreif um vélina. Frábært fyrir þann sem lendir með Rebekku :O) :O)

Nóg í bili, vona að þetta hafi ekki verið of þunglyndislegt blogg. ...þau verða að fá að vera með líka!

Bæjó spæjó,
slauga og co.

3. desember 2007

Myndir og mál..

..áður en pistillinn hefst er rétt að þakka dætrum okkar Kristjáns fyrir að hlýða okkur.

Takk.

Það er nefnilega þannig að af öllum pestum sem börn geta fengið finnst mér ógeðslegast að "díla við" ælupest og niðurgang. Bara ógeð. Þannig að við höfum brýnt það fyrir þeim að bíða með allt slíkt þar til að þær eru í pössun hjá skyldum aðilum. Helst ömmum og öfum. ...og það klikkaði ekki þessa helgi frekar en fyrr í vetur! Frú Clausen fékk allan pakkann!! Kl. 5 að nóttu. En við ekki. Út á þetta gengur gott uppeldi. Við biðjum, þær hlýða...


En þá er rétt að birta nokkrar myndir af þessum hlýðnu börnum. Fannst þessi reyndar vera frekar fyndin og lýsa stemmingunni sem Rebekka hefur yfir sér. Pínu púki en samt eitthvað svo kjútt.. ;O)


Við höfum reyndar komist að því að Rebekka er frönsk. Ekki íslensk, og það er það sem að hefur verið að valda misskilningi á heimilinu. Hún hefur í raun og veru ekki skilið okkur og við ekki hana. Það leið ekki vika þar til hún var farin að segja Au revoir við fóstrurnar, og rak okkur þá minni í þegar hún segði þetta og við héldum að hún væri að segja "afi". Algjör misskilningur, hún var í raun og veru að tala frönsku þar sem hún var loksins komin í landið sem skildi hana. Fyrir þá sem efa þetta þá er rétt að benda á að hún hefur ekki enn sagt "bless" eða "bæ bæ". Bara au-revoir. Erum að vonast til að fóstrurnar skili til okkar fréttum sem henni hefur legið á að segja okkur.


Finnst nú rétt að setja samt eina "englamynd" af henni, fyrir ömmurnar, svo þær geti fyrirgefið henni veikindin sem hún tímasetur við viðveru þeirra..






Af hinni dótturinni er einnig allt gott að frétta. Hún heldur áfram að bæta við sig enskum /amerískum frösum and is verrý möts lörning ábát kristmas.. jú nóv, djísus and stöff..

Er annars alveg að blómstra og höfum við mikla trú á því að næsta ár verði hún í aðalhlutverki í skóla-jólaleikritinum. Í ár er hún bakgrunnur ;O). Hún er annars ótrúlega samviskusamur nemandi. Verður alltaf að klára heimalærdóminn um leið og hún kemur heim. Sem hefur orðið til þess að við veltum því fyrir okkur hvort að hún sé ættleidd. Þetta er allavega hæfileiki sem hvorugt okkar kannast við að hafa komið með í genapottinn ! En gott mál engu að síður (þ.e. lærdómsstemming ekki ættleiðingin..)!

Erum síðan að fara að fá Au-pair til okkar í janúar. Hún heitir Salóme og er frá Bolungarvík. Þetta er eingöngu gert fyrir Dúnnu frænku enda er það ljóst að það er afbragðsfólk sem kemur að vestan. Vill meira að segja svo til að kærastinn hennar er sonur elluboggudúddu.. æ nei, ég man ekki svona ættfræði, en svona hljómar þetta allt á vestfirsku. Gunni-stínu-beina..Spurning um að mamma setji inn komment hverra manna drengurinn er :O)

Barcelona ferðin var síðan alveg afskaplega vel heppnuð. Í alla staði. Á fundinum á laugardagsmorgun leit ég reyndar út eins og dauðinn sjálfur hefði ælt yfir mig. Held að það hafi eingöngu verið vegna þess að ég fékk ekki nógan svefn. Örugglega bara það. Ákvað að það færi bara best á því að ég tæki á mig útlitslega mynd á líðan allra annarra í herberginu..

En jæja.. nóg í bili. Set samt inn mynd af kransinum mínum fína sem ég gerði um daginn. Bara til að monta mig. Finnst hann voða fínn :O)

Gabríelu langaði síðan að koma því á framfæri, rétt í þessu, að hún saknar ykkar allra mjög mikið.. :O)

Ástarkveðjur,

Luxararnir

27. nóvember 2007

Hvað er nýtt..?

Aðalfréttin er auðvitað sú að ...

...pössuninni um næstu helgi hefur verið reddað. Það er engin önnur en frú Lára Clausen sem mætir til leiks! Það kom í ljós að það var undarlega ódýrt að fljúga á milli Alicante og nálægra flugvalla við Luxemborg (reyndar ekki til Lux). Reyndar var það svo ótrúlegur prís að það er spurning hvort að flugbúnaður á vélinni sé í líkingu við hjólabúnað Flintstones bílanna… hmmm?

Eftir að hafa fattað þetta munum við einskis svífast við að flytja inn maddömmuna þegar þurfa þykir! Hún mun því mjög líklega fara í felur á næstu mánuðum….! Það verður allavega mjög gaman að sjá frúnna og er Gabríela að fara á límingunum og getur varla beðið eftir að fá ömmu í heimsókn. Skilur samt ekkert í því að afi komi ekki líka, vill helst að við látum sækja hann með þyrlu út á sjó!

Ferðinni er annars heitið til Barcelona þar sem vinnutilgangi verður blandað við almennan skemmtanatilgang. Verður án efa mjög skemmtilegt og gaman að fá tækifæri til að kynnast starfsfélögunum og mökum þeirra betur! Þetta verður vonandi líka góð afslöppun með lítilli verslun þar sem að frúin tæmdi verslanirnar í Kaupmannahöfn um daginn… Skilst reyndar á Kristjáni að hann ætli í Spa með stelpunum á laugardagsmorgun... það verður áhugavert..

Síðan er á döfinni Gala-jólakvöld í frönskum kastala þann 8.desember. Er búin að biðla til óska-Spánverjans um að koma í helgarferð til Lux, en hún þykist hafa öðrum hnöppum að hneppa ;O) Skil það reyndar vel, erfitt að fá helgarfrí þegar lítið kríli er komið í heiminn þar! En boðið stendur ennþá fröken !!

Á föstudagskvöldið síðasta var reyndar kvennakvöld bankanna sem í þetta skipti var haldið hjá Glitni. Ofboðslega flott hjá þeim og skemmtilegt. Leynigestur kvöldsins var síðan Jónsi úr Svörtum fötum, sem söng og trallaði það sem eftir lifði kvölds…!

Gabríela fór í afmælisboð á laugardaginn á meðan við fórum til Belgíu og keyptum eitt stykki þvottavél. Það hefur nefnilega komið á daginn að þvottavélin okkar heldur að hún sé uppá punt. Hún svosem tekur við þvottinum, veltir honum til og frá ... en virðist samt ekki vera fær um að ná einum einasta bletti úr ... Mamma hjálpaði síðan til við að brjóta vélina niður andlega með að segja marga ljóta hluti í nærveru hennar. Eftir það hefur vélin bara ekki jafnað sig.

Ákváðum því að skipta yfir í Siemens með hrækiprógrammi eins og mamma á... (fyrir þá sem ekki vita hvað hrækiprógramm er, skal það upplýst að það er 15 mínútna ofurprógram à la Siemens, hafði ekki mikla trú á því í fyrstu en er nú einlægur aðdáandi þess eftir að hafa búið í sama húsi og umrædd vél í nokkrar vikur..). Fáum vélina á morgun (hér gerist EKKERT samdægurs) og taka þeir gamla hróið með.

Þeir eru ægilega duglegir Lúxembúrgarnir í svona umhverfisvitundarverndardæmi... bjóðast alltaf til að sækja gamla eintakið þegar verið er að skipta út.. Spurning hvort að það sé sambærilegt í boði við skilnaði? “Við sækjum bara kallinn um leið og við komum með nýja eintakið.. ;O) “

Erum síðan búin að fá bílinn okkar! Loksins!!!! Þeim tókst auðvitað að klúðra smá með því að setja VITLAUSAN lit á bílinn!! En mig hefur svosem alltaf langað í bleikan bíl. Á eyrnalokka í stíl. Hann er allavega æðislegur að innan...

Erum síðan farin að telja niður til Ameríkuferðarinnar!! Óbojj hvað verður gaman! Fyrir þá sem ekki vita ætlum við familían að fara til Bandaríkjana margumtöluðu og eyða þar jólunum með Sveinka, Kollu, Jóu, Gunna, Leibba, Steina og Gunnari Finni. Verðum í kuldanum í Stowe, Vermont og verðum “aðeins” búin að safna um 300þúsund krónum í sameiginlegan matarsjóð þegar við förum. Alveg spurning hvort að það dugi fyrir ca 10 daga!!!!!!!!!!!

Er síðan á leið í jólaföndurdæmi með "Lísunum" en það er hópur íslenskra kvenna sem tengjast Landsbankanum með einum eða öðrum hætti. Ætla mér að búa til einn aðventukrans.. vona að það heppnist þrátt fyrir að ég sé ekki með mömmu mér við hlið ;O)

Vona að allir hafi það gott... við erum allavega ekki illa haldin! (það verður yfirvigt um jólin.. bara ekki í töskunum!!!!!!!!)

Ástarkveðjur,
slauga og co.

p.s. bílinn er auðvitað ekki bleikur, hann er silfurgrár, átti að vera brúngrár... ;O)

19. nóvember 2007

Er þetta íslenskt mangó...?

Þá er komið fréttabréfi vikunnar.. dróst reyndar aðeins vegna ferð frúarinnar til Köben, en meira af því síðar.

Byrjum á yngsta meðlim fjölskyldunnar.

Rauðhærði skriðdrekinn hefur hafið innrás sína inn í frönskumælandi leikskóla! Hún virðist vera að pluma sig vel, ...með smá gráti á morgnanna, ennþá! Tók reyndar trylling á pabba sinn um daginn þegar hann fór út af vananum og sleppti morgunkaffinu með hinum mömmunum. Hún hélt nú ekki, benti í áttina að kaffistofunni og grét sáran! Þarf greinilega sitt kaffi á morgnanna :O)

Er þetta íslenskt mangó? spurði Gabríela um daginn þegar hún og Sylvía sátu í makindum og borðuðu niðurskorna ávexti. Nei, ekki var það svo, en mangóið hafði reyndar "gleymst" í ávaxtaskálinni og var því orðið frekar ofþroskað.. og kannski ekki alveg eins og hún átti að venjast. Niðurstaðan var því sú, að fyrst að ávöxturinn var eitthvað "funky" þá hlyti hann að vera íslenskur... áhugavert!

Síðan er það Kaupmannarhafnarferðin. Fór til að hitta Vesturbæjarútibúið í jólahlaðborði í Kóngsins Köben. Mikið var ææææææðislegt að hitta þau öll... svo ég tali nú ekki um herbergisfélagann, frú Kvaran :O) Fengum reyndar fyndnasta hótelherbergi sem ég hef komið í. Hef aldrei, og þá meina ég aldrei, séð jafn lítið herbergi. Og meira að segja undir súð þannig að innilokunarkenndin (ef við hefðum haft svoleiðis) hefði orðið fullkomin. En það skipti engu, kompaníið var það sem skipti máli og það var fyrsta flokks!

Þetta var þó ekki þrautalaust að komast á leiðarenda þar sem að SAS, sem er annálað fyrir ömurlega þjónustu og tíð "cancelled flights", ákvað að ég væri ekki velkomin í vélina og seldu sæti mitt (sem ég hafði keypt fyrir 1 og 1/2 mánuði) til einhvers annars. Ég var sú eina sem komst ekki í vélina! Þeir sendu mig í staðinn í sight-seeing um Evrópu og stoppi í Frankfurt. Smart. Fékk skaðabætur "à la SAS" sem er háð því að ég noti upphæðina hjá þeim.. annars fái ég bara 50%. Algjörir snillingar! Komst þó rétta leið heim, án aukastoppa..

Húsfaðirinn er farinn á stúfana að leita að vinnu og verður allt sett á fullt á næstu vikum. Þannig að þið ykkar sem hafið sambönd í Lúxuslandinu, látið vita af ykkur. Kallinn næst í síma +352 621 316 990 :O) Hans verður án efa sárt saknað úr morgunverðarhópnum enda þekktur fyrir hressleika á morgnanna! Sorry girls..

Eigum síðan að fá bílinn á morgun ..sjö-níu-þrettán... þeir eru búnir að draga það ansi lengi og verður fróðlegt að sjá hvort að þeir nái að standa við stóru orðin.

Annars er bíllinn okkar á Íslandi enn óseldur. Því er nú verr og miður. Auglýsi hann hér því enn og aftur til sölu.... Lýsing á gripnum er í bundnu máli annarsstaðar á síðunni..

Meira er nú ekki að frétta af mannskapnum í bili. Nema að okkur vantar helgarpössun 30.nóv-2.des..... Áhugasamir gefi sig fram við söluborð Icelandair og panti sér helgarferð til Frankfurt. Við skulum sækja ykkur. :O)

Ástarogsaknaðarogalltþað..

slauga og co.

10. nóvember 2007

Hef hafið störf á Snyrtistofunni Dýrðin..

...spurning hvort að snyrtistofan ætti frekar að heita Dýrið..svona miðað við afrakstur og blót..?

Það er nú bara þannig að þegar maður er fluttur af landinu ylhýra þar sem maður var búin að koma sér upp allskyns þægilegum þjónustulinkum til að viðhalda (ó)endanlegri fegurð húsfreyjunnar þá fer að draga fyrir sólu þegar þessa aðila vantar hér. Ekki svo að skilja að Lúxembúrgískar konur séu kafloðnar og kiðfættar með náttúrulegan háralit, heldur er ég ekki alveg að leggja í það strax að biðja um "hár eins og Sigrún á Hársögu gerir" eða græja allt hitt stöffið eins og Halldóra á Snyrtistofu Ágústu gerir.. á frönsku! No merci monsieur..

Þannig að snyrtistofan opnaði í morgun. Byrjaði með vaxi..a'la öskur, blót og bölv.. og endaði með með hárlit í lengstu rót sem mannkyn hefur séð. Böttlerinn hló að mér allan tíman, en hann fær það borgað bölvaður. Engin desemberuppbót þetta árið! Afraksturinn er auðvitað stórkostlegur enda er efniviðurinn með eindæmum gæðalegur.

Bað síðan böttlerinn um að kveikja upp í arninum og brást hann vel við því, enda nýbúinn að fara út í skóg að höggva við (..eða kannski fór hann bara í búðina og keypti tilhogginn við..). Sjá má uppkveikjutaktana á meðfylgjandi mynd..!

Svona er hann aldeilis orðinn vel þjálfaður! Get leigt hann út til þeirra sem þess óska. Engin ábyrgð fylgir.

Nú er hann reyndar kominn inn í eldhús og farinn að gera að nautinu sem hann felldi í hádeginu... mmm.. nautasteik í kvöld með rauðvíninu sem ég heyri að hann er að opna! Skilst að um sé að ræða sömu tegund og Gunni bróðir skúraði gólfið með í Leifstöð.. fer betur í munni en á gólfi kallinn minn.. mundu það!
Í heimsókn hjá okkur er hún Sylvía sem ætlar að fá að gista í nótt. Þær tvær eru eins og samlokur þar sem að óstýrlátur ostur (Rebekka) er alltaf að reyna að troða sér á milli.

Hún gefur ekki þumlung eftir í baráttu sinni við að komast í klíkuna og er að ég held, að íhuga lengingaraðgerð í Rússlandi og talþjálfun til að komast nær takmarki sínu. Hér fyrir neðan má sjá vinkonurnar eftir andlistmálun dagsins. Gaby málaði Sylvíu og dittó..

Læt síðan fylgja með eina mynd af Rebekku síðan Gunni og Jóa voru hér.

Þá tók hún stroll "à la Afi".. dæmi hver fyrir sig ;)
Biðjum auðvitað að heilsa öllum og mikið væri nú gaman ef einhverjir af þeim sem kíkja við á síðunni, kasti á okkur kveðju.. þá erum við ekki alveg jafn langt í burtu!

Að lokum.. til hamingju með fallega nafnið þitt Kristinn Þór Hilmarsson. Knúsa þig í klessu þegar ég sé þig um jólin!

Au revoir..
Le böttler and the girls..

4. nóvember 2007

Vín og villtar meyjar..

...ekki kannski í því samhengi maður tengir oftast, heldur hefur þetta svona meira verið þemað síðustu daga. Gunni og Jóa komu í heimsókn á föstudagskvöldið og tóku villtu meyjarnar hér á heimilinu gleði sína á ný eftir að hafa þurft að hanga með pabba sínum allllllllla vikuna! Loksins ný andlit!

Til að hafa ofan af fyrir settinu fórum við með þau í outlettin rétt hjá Metz (í Frakklandi fyrir þau ykkar sem eru ekki svona alþjóðleg..) og þar var aðeins náð að versla. Fórum síðan beina leið þaðan í vínkynningu til hans Jesúsar. Jesú þessi er af spænskum ættum og tekur á móti litlum hópum og leiðir þá í allan sannleika um spænsku vínin. Enduðum á því að kaupa örfá eintök (teljum núna bara í dúsínum) og verður jafnframt hluti af flugvélinni á þriðjudaginn nýttur undir áfyllingu á Baugakórsbarinn... Amen.

Í dag fórum við síðan í bröns niðrí Grund (ekki tengt elliheimilinu) og röltum svo um gamla miðbæinn. Allt lokað á sunnudögum hér þannig að það var ekki mikið úr verslun í dag. Hef það eftir áreiðanlegum heimildum að það verði tekið á því á morgun í Trier...

Förum á eftir á veitingastað með tryllingana tvo.. ekki þó þennan sem er á horninu á götunni fyrir ofan... ónei, því að hann sérhæfir sig í hestasteikum sem einhvernveginn ég hef ekki lyst á! Klárinn góði með bernaise sósu..? Held ekki! Neibb, förum með liðið á ægilega góðan ítalskan stað sem tekur vel á móti börnum og brjálæðingum. Fullkominn staður fyrir okkur!

Lífið dettur síðan í réttan gír á morgun þegar Gabríela byrjar aftur í skólanum eftir vetrarfrí. Rebekka byrjar síðan að öllum líkindum í aðlögun á leikskóla sem er rétt hjá skólanum hennar Gabríelu í vikunni. Þá er meiri tími fyrir Kristján að sinna heimilisstörfum að kappi. Geri ráð fyrir því að það verði allt "spick-and-span" hérna á næstunni! Annars var hann með stórleik um daginn þegar hann var að velta fyrir sér þrifmálum og sá fyrir sér öskubuskustörfin með hryllingsglampa í augum.... Hann vatt sér þá yfir til nágrannakonu okkar og fékk nafnið á hreingerningarkonunni hennar... !!! Held að ég þurfi að setjast niður með honum og fara betur yfir starfslýsingu hans sem heimavinnandi húsmóðurs!

Jæja, meira ekki í bili.

Biðjum að heilsa öllum....

27. október 2007

Vikufrí..

..hjá Gabríelu hófst í gær. Fyrsta af nokkrum sem dynur yfir skólabörn á þessu svæði yfir veturinn. Held að næsta (fyrir utan jólafríið) sé í febrúar, síðan eitt í mars og svo það síðasta fyrir sumarfrí í maí... Eins gott að einhver sé heima til að sinna börnunum.. ;O) (lesist: Kristján has settled down for good..)

Annar er það að frétta af heimilismálum að leikskólamál virðast vera að leysast, erum komin með tvo í sigtið sem eru lausir fljótlega. Annar er nálægt skólanum hennar Gabríelu en hinn er tiltölulega nálægt heimilinu. Sá heitir því skemmtilega nafni Jardin de la Musique, (Tónlistargarðurinn) og er mikil áhersla lögð á tónlistarsköpun og tjútt og trall fyrir tveggja ára og eldri :O) Gæti hentað skvísunni vel! Hún er allavega mjög áhugaverð í kjörbúðunum þegar hún beygir sig í hnjánum og byrjar að "bömpa" í takt við tónlistina... minnir dáldið á danshreyfingar Sveinbjörns frænda..

Á morgun breytist tíminn hér í Lúx, þannig að nú verður klukkutíma munur á milli okkar og rigningarogrokslandsins. Það versta er að stelpurnar vakna örugglega á sama tíma á morgun, þ.e. kl. 8, sem er þá í rauninni 7.. gæti reyndar verið að þær myndu vakna kl 7.. sem er þá aftur kl. 6.. og svo gætu þær vaknað hálfátta ....... !!

Þurfum bara að sannfæra þær um að það sé nótt nótt nótt !

Og já!! Til hamingju með nafnið litli Erlu og Ólason.. Ólafur Diðrik Ólafsson! Held að þú hljótir að verða Ráðherra eða eitthvað ægilega merkilegt með þetta virðulega nafn! Fylgist spennt með!

Fáum síðan góða gesti í næstu viku þegar Gunni og Jóa koma í heimsókn. Eins gott segi ég nú bara þar sem það er hringt í "Unna" mörgum sinnum á dag úr leikfangasímanum og varla er borðaður sá biti að hann sé ekki fyrir sama aðila. Á því von á að fá manninn sílspikaðan út með eldrautt eyra eftir mikla símanotkun..

Nóg í bili, skjáumst síðar,

slauga

p.s. salan á bílnum klikkaði, það er því enn tækifæri fyrir þá sem nöguðu sig í handarbakið eftir síðasta blogg....

22. október 2007

Fyrstur kemur, fyrstur fær!!!!!!




Ljótur bíll til sölu

kostar eina tölu

Talan sú er ekki há..

semja um það gjarnan má...




20. október 2007

Afmælissöngurinn...

Ætlaði að reyna að setja hér inn myndband frá afmælissöngnum í dag.. en eftir 2,5 klst. biðtíma í tölvunni virðist þetta ekki hafast! Sorrý!

Þökkum kærlega þeim sem hringdu... og takk fyrir pakkann, Kolla og Sveinki, nú verður dúkkan böðuð reglulega ásamt því sem leikið verður á munnhörpuna... mmmm....takk kææææææææærlega. ("týndi" batterínunum úr píanódæminu hennar Rebekku um daginn, fínt að vera komin með eitt svona sem gengur fyrir lungnamætti..) ! :O)

Afmælisdagurinn fór vel fram, fengum Sylvíu, Theu og Henríettu í heimsókn ásamt Marie og Rachel úr næsta húsi. Einnig kíktu Krissi og Rúna við ásamt vinum sínum sem eru í heimsókn og Oddbjörgu mömmu Rúnu. (Fyrir Landsbankafólk er það að segja um þá ágætu konu að þetta er hin eina sanna Oddbjörg í Bæjarhrauninu :O) )

Ákvað síðan að senda Kristján, mömmu og pabba í hvítvínssmökkun til "dílersins" þeirra Krissa og Rúnu. Keyptar voru 18 flöskur af indælis víni... sjáum hvað það dugar !!

Ætlum síðan að kíkja á morgun í kastala í Bouillon í Belgíu (http://www.bouillon-initiative.be/ ) þar sem fram fer mikil fuglasýning og var m.a. lýst með þessum orðum: "Fram til 11 nóv er fuglasýning í hallargarðinum þar sem fuglatemjarar láta uglur, hauka, hrægamma og kondór fljúga um og leika listir."

Þetta hentar örugglega fólki með fuglafóbíu mjög vel... eh... læt vita ef ég fæ taugaáfall!!! Ef að fuglarnir duga ekki til að setja mig út af laginu þá kíki ég á pyntingarklefann sem er í kastalanum...

Förum að skila settinu til Íslands. Fyrir áhugasama koma þau á þriðjudagskvöldið. Vinsamlegast farið varlega að þeim, þau verða MJÖG MJÖG þreytt.

Biðjum að heilsa öllum heima!!

Ástarogsaknaðarkveðjur með afmælislagi dagsins..

Afmælisbarn dagsins..

kaffi og kökur kl. 3.

Allir velkomnir :O)

17. október 2007

Sigurlaugur Hilmarsson kominn í heiminn!!

...til hamingju elsku Hilmar og Eva!!!

Hann er algjört æði æði æði..

Knús og margfaldir kossar frá langaliðinu (sem lengdist töluvert og gránaði skyndilega í gær, er ekki frá því að mjöðmin á þeirri löngu hafi gefið sig og önnur ellieinkenni hafi gert vart við sig..)

... og okkur unglömbunum hér í Lúxembourg!

Mælum með vorheimsókn í vorsólina hér í Lúx með þann stutta!!!

Ástarkveðjur,
slauga og co.

15. október 2007

Til hamingju með afmælið...

...stóri bróðir...

Knús og kossar frá öllum í Lux

:O)

13. október 2007

Myndir

Jæja, byrjum á því að sýna ykkur nokkrar myndir í tilefni af því að síminn er loksins tengdur! Þ.e. íslenska gamla góða númerið okkar. Nú getið þið hringt í okkur eins og venjulega, án þess að setja nein númer fyrir framan. Bara sjö stafi, that's all folks!!

Byrjum á vinnudýrunum. Þið hélduð að þau væru hlekkjuð í kjallaranum. Öðru nær!! Mynd segir meira en þúsund orð..


Einmitt og akkúrat!!

Síðan er hér ein yndisleg af Gabríelu, tekin eftir fjölskyldudag Landsbankans..


...og síðan frá Trier..


..og ekki má gleyma skriðdrekanum!!

..og að lokum. Fór í foreldraviðtal um daginn. Allt gott um það að segja! En þar beið mín eftirfarandi mynd. Langaði að leyfa ykkur að njóta hennar einnig.

Bestu kveðjur frá lúx..

11. október 2007

Sviptingar í Bourgarstjórn..

Nýr meirihluti við það að taka völdin í Bourginni hér, þ.e. Lúxembourg.

Kristján væntanlegur á morgun og ef ég þekki dætur mínar rétt leynist í þeim lítill hrafnarbjörn sem skiptir liði þegar vel viðrar til. Dagar elsku mömmu eru liðnir ;O)

Það er búið að telja niður í komu kallsins og strika vandlega yfir á dagatalinu. Dagurinn á morgun verður án efa lengi fyrir þá eldri að líða, þar sem að hún er líka í fríi frá skólanum. Á morgun er ég sumsé að fara í fyrsta foreldraviðtalið! Það verður áhugavert.. svo ekki sé nú meira sagt!

Hef þetta stutt núna, er að passa fyrir Helene.. Skúli skrapp nefnilega á Frón!

Myndir hljóta að fara að koma.... eða hvað haldið þið?

Bestu kveðjur frá
LúxembouRRRRRRRRRRg

slauga

8. október 2007

Tengingu náð..

..og komin í samband! Fyrir þau ykkar sem vilja það vita erum við komin með Lúxembúrgískan heimasíma, númerið er 266 83449 (og muna eftir 352 á undan) en ég mæli með að fólk hinkri aðeins þar til að Kristján kemur og tengir íslenska númerið okkar við módemið. Þá er bara hægt að hringja eins og venjulega!

Í fréttum er annars það helst að vinnudýrin standa sig með stakri prýði. Þau taka upp úr kössum, skipta á bleyjum, þrífa ælur eftir börnin, skúra, keyra í skóla og vinnu, elda, lesa fyrir svefninn og rotast síðan. Lykilatriði er bara að tengja ekki sjónvarp fyrir þau strax. Halda þeim alveg á tánum... ekki fyrr en síðasti kassinn er í augsýn, þá má tengja imbann. Annars missir maður algjörlega stjórnina.

"Má ég horfa á "meeerí popinss"? segir sú eldri núna (eftir að tengingu á sjónvarpið var náð) og er farin að þróa með sé ævintýralega amerískan hreim. vonn tú þrí... mæ neim is Geibríela... Hún er annars ótrúlega aðlögunarfær og enn ekki kominn sá dagur þegar hún neitar að fara í skólann! Sjö níu þrettán..

Sú yngri tók Lúxemborg með látum. Henni halda engin bönd og ég er ekki frá því að villidýr í nærliggjandi skógum hafi ákveðið að halda sig til hlés. "ÁAI" er öskrað hérna reglulega og afinn tekur kipp. Það er sumsé verið að kalla á hann. Lúxemborgararnir halda hins vegar að hún sé að öskra "Au revoir" og brosa blíðlega að þessu hæfileikaríka barni sem er strax farið að tala frönsku. Little do they know, hún talar ekki einu sinni íslensku...

Vinnan er fín og jafnvel ívið meira en það. Ægileg gleði hér um helgina þegar hópur útibússtjóra Landsbankans mætti til að kveðja mig sérstaklega. Reyndar nýttu þeir tækifærið líka við að halda sinn árlega stóra fund, en auðvitað var lítið mál að bæta því við. Einstaklega skemmtilegt að hitta þá og tjútta með þeim svona í lok útibússtjóraferilsins :O)

Vona að allir séu hressir og glaðir heima og fyrir þá sem hafa áhuga eru til sölu tvær glæsikerrur heima, fást á ótrúlega góðum prís. Önnur er gömul og hin eldri. Hafið samband við kallinn ef þið viljið..

Bið að heilsa mönnum og músum,

slauga og co.

p.s. myndir koma síðar..

27. september 2007

Í fréttum er þetta helst..

..að forráðamenn Blogger.com höfðu samband við mig út af sérlegu álagi á kommentakerfið á síðunni minni. Ég er því beðin um að koma því á framfæri við fólk um stilla kveðjum og athugasemdum í hóf, kerfið þolir ekki nema ákveðið magn. Verið alveg róleg, ekki missa ykkur, það komast allir að!!!!

..annars er ein vika búin í nýrri vinnu. Er svona hægt og rólega að koma mér inn í hlutina, er þó enn stoltur handhafi titilsins "vitleysingur vikunnar" en vona bara að einhver nýr fari að byrja sem getur tekið við honum af mér..

..foreldrarnir, les parents (jú jú, maður er orðin svo alþjóðlegur að maður getur ekki bundið sig eingöngu í það ylhýra..) koma á morgun ásamt rauðhærða skriðdrekanum. Skilst á síðustu fréttum að heiman að hún stjórni afa sínum með harðri hendi, hafi jafnvel tekist að koma böndum á fréttaáhorf hans og stillingu hljóðs í sjónvarpi, eitthvað sem mörgum hefur dreymt um en fáa þorað..

..að leitin að leikskólanum stendur enn yfir! Sérlegur fulltrúi frá leikskólaráði mun þó mæta á svæðið 2.nóvember til að taka út dæmið. Ljóst er að það eins gott að byrgja sig upp á uppskeruhátíðum víðsvegar í nágrenninu til að undirbúa komu hennar og kallsins..

..veður er orðið skítt, svona rigning og frekar kalt. Treysti þó á að sólin láti sjá sig fljótlega aftur til að hita svæðið, þetta gengur náttúrulega ekki að hafa þetta svona! Fannst það stórkostlega glatað í morgun... alveg þar til ég las veðurfréttirnar frá Íslandi..

..fleira ekki í bili, er að passa 4 börn í augnablikinu þar sem skötuhjúin á heimilinu eiga brúðkaupsafmæli í dag! Börnin sofnuð og ég réðst til atlögu við tölvuna. Er að "mappa" leiðirnar fyrir mömmu og pabba þannig að þau rati hér um borg.. he he..."turn right.. allright..?"

Bonsoir...

21. september 2007

Að byrja í nýrri vinnu, 101 for dummies....

1. Finndu út hvar klósettið er, mjög nauðsynlegt að vita frá fyrstu stundu, kemur í veg fyrir óþægilegri augnablik síðar meir..

2. Finndu út hvar mötuneytið og kaffivélin er, álíka mikilvægt og nr. 1.

3. Ef þú ert ekki búinn að fatta nr. 1, slepptu þá nr. 2.

4. Sestu á réttan stað. Ekki t.d. í sætið hjá náunganum við hliðina á þér. Kemur einnig í veg fyrir vandræðileg augnablik.

5. Finndu út hvar pennarnir eru geymdir og blöð, þú virkar meira "að vinna" ef þú heldur fast um þessa hluti.

6. Msn og tölvupóstur eru nauðsynleg atriði fyrstu daga, þá lítur út fyrir að þú sért að vinna þegar puttarnir lemja lyklaborðið með miklum hraða.

7. Fake it 'till you make it.

18. september 2007

Höfuðstaður Norrænna víkinga..

..öðru nafni IKEA !! Heimsótti það í dag. Ikea menn eru nú líklega rétt í þessum skrifuðu orðum að panta rauða dregilinn fyrir næstu komu mína og hafa dreift jólabónusnum snemma í ár :O)

Annars var ferð mín þangað ekki þrautalaus. Ég er búin að komast að því að orð mín hafa yfir sér nokkra spádómsstemmingu, því að ég var rétt nýlögð af stað þegar Lúxemborgari nokkur klessti aftan á mig!! ójá.. ekki var það sauðurinn frá Íslandi sem var í órétti, heldur "hinir".. Beið bara í rólegheitum eftir að komast inná hringtorgið á leið til sænska sælulandsins þegar svakalegur karl nokkur þrusaði aftan á mig og sendi mig nokkra metra áfram. Bílarnir óskemmdir og ég líka. Maðurinn var þó í taugaáfalli (gott á hann..;O) )! Er pínulítið að stirðna upp núna og verð því frekar morkin næstu daga. Mun þó reyna eftir fremsta megni að láta það ekki hafa áhrif á mig, ekki frekar en í IKEA.

Gabríela heldur áfram að blómstra hér í Lux og les enskar smábókmenntir á kvöldið áður en gengið er til náða. Blái hnötturinn tekur síðan við á kjarnyrtri íslensku og bænirnar enda síðan kvöldið áður en augun lokast.

Erum nú í óða önn að reyna að finna leikskóla fyrir rauðhærða skriðdrekann sem bíður heima. Eftir forkönnun standa tveir eftir, Kids care og síðan ... Hansel und Gretel. Ójá, það er boðið upp á leikskóla Hans og Grétu!! Bíð spennt eftir að skoða hann og sjá hvort að nornin sé leikskólastýran og brauðmolar í matinn! Mun sérstaklega skoða eldhúsið og athuga hvort að ofnarnir séu nokkuð í óðlilegri stærð... Fylgist spennt með næstu daga!!

Þá er færslu dagins lokið, ég þakka þeim sem hlýddu...

Bestu kveðjur,
slauga schumaker

17. september 2007

50 / 50

Það var og. Frúin er mætt til fyrirheitna landsins og hóf dvöl sína á því að læra að keyra um götur Lúxemborgar. Með réttu hefði átt að gefa út viðvörun í útvarpi til hinna ökumannanna sem gátu, ekki á nokkurn hátt, talið sig örugga í umferðinni þann dag. Fyrsti klukkutíminn var í fylgd með Kristjáni, sem síðan var kvaddur niðrá lestarstöð þar sem hann þurfti að ferðast með langferðarbíl til að komast til Frankfurt Hahn. Þaðan flaug hann síðan til Íslands til að hefja seinni hálfleik flutningsins.

Við starfi Kristjáns sem leiðsögumanns tók þýð rödd enskumælandi konu sem sagði mér blíðlega hvert ég ætti að fara..."in two hundred meters, turn right.." Beið eftir því að hún myndi missa sig og orga á mig .."I said right, are you stupid or what, right, right !! Don't you get it...?" En sem betur fer var kurteisi forrituð í prógrammið og við Gabríela reyndum eftir bestu getu að laun henni kurteisina með hlýðni!

Komumst þó til Skúla og Helene að lokum og búum þar í góðu yfirlæti þeirra hjóna! Hér er mikið fjör á heimilinu enda 4 aðilar 6 ára og yngri ;O)

Er síðan búin að tékka á nauðsynjahlutum fyrir "einstæða" móður í Luxemborg, og hef einbeitt mér að því allra allra allra nauðsynlegasta. Til þeirra hluta teljast til dæmis kjörbúð þeirra félaga Henna og Mára ..ehem..... Reyni samt að stilla þessu í hóf, kaupi til dæmis ekki meira en 2 hluti í hverjum vöruflokki.. ;O)

En nóg um það að sinni, ætla að halda áfram letilífinu, sem formlega lýkur á fimmtudag þegar ég hef vinnu hér í borg.

Vona að kuldaboli sé ekki búinn að bíta af ykkur rassinn...

Bestu kveðjur úr Lúxuslandi (þar sem hitinn fór í 25+ í gær..)

slauga og gaby

8. apríl 2007