21. desember 2007

Jólabréfið 2007.

Kæru þið öll, til sjávar og sveita!

Í ár var ákveðið að bréfið yrði í þeim stíl sem hefur einkennt samskipti okkar við umheiminn síðustu mánuði.. þ.e. að það yrði birt á blogginu okkar.

Árið byrjaði með hefðbundnum hætti. Það blundaði þó í okkur fram eftir vori að þetta yrði ár breytinganna og viti menn, um leið og prófum lauk hjá frúnni í vor var haldið af stað á starfsmannadeild Landsbankans og þá var ekki aftur snúið. Útibússtjórastólnum var skipt út fyrir stöðu í lánadeild bankans í Lúxemborg og fjölskyldan pakkaði niður í tösku. Eða réttara sagt töskur og einn stóran gám.

Risastóran.

Reyndar var ákeðið að fá fagfólk í það þar sem Kristján áttaði sig snemma á því að það yrðu litlar líkur á því að það yrði haldið út ef frúin ætti að sjá um pökkunina. Hún er víst þekkt fyrir arfalélegan árangur á því sviði..

Kristján kvaddi Eimskip með tár á hvörmum, enda lágu fyrir breytingar á fyrirtækinu sem hann var meira en lítið til að taka þátt í. En húsmæðrastörfin biðu og karlinn tók völdin í húsinu. Að sjá um þrjá kvenmenn er heljarinnar verk. Sérstaklega ef þær eru morgunsvæfar, geðstirrðar og snúnar .. sem auðvitað engin af okkur er.. þannig að verkið var auðvitað “pís of keik”..

Gabríela stundar nú nám í International School of Luxembourg og Rebekka stundar eitthvað allt annað í leikskólanum Enfant de la Roi. Þær eru báðar sælar og glaðar með sitt og bæta við sig á hverjum degi í tungumálum og annari færni. Höfum trú á því að þær verði frekar sterkari karakterar fyrir vikið en ekki..

Frúin er síðan búin að vera í vinnunni. Áhugavert að átta sig á því hvað maður kann lítið. Þ.e. ég kann ýmislegt um aðra bankatengda hluti.. en þeir bara nýtast mér ekki þarna. Það er því nóg að læra og ekkert nema gott um það að segja.

Jólin færðust síðan nær og nær og þetta árið gerðust undur og stórmerki.

Kristján bakaði Sörur.

Já, það er engin lygi. Kannski ýkjur en engin lygi. Það eru meira að segja til myndir af honum að leggja lokahönd á meistaraverkin með hvítu “K”-i.... úr dýrindis hvítu - Odense súkkulaði!

Það er því með mikilli gleði sem frúin ákveður að afsala sér bakstri komandi jóla með þá fullvissu að þessu hljóti hann að rúlla upp. Ef maður byrjar á erfiðustu sortinni þá er hitt allt barnaleikur! Er það ekki?

Við hlökkum síðan til að takast á við nýtt ár á nýjum stað. Upplifa vorið og sumarið og vonandi verðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá góða gesti í heimsókn. Það hefur allavega einhverjum verið hótað í þeim tilgangi að ná því fram..

Við óskum ykkur síðan öllum gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs. Þau ykkar sem eru á ferð um mið Evrópu eruð vinsamlegast beðin að stoppa við á 8, rue Raoul Follereau, L-1529, Luxembourg.. og þiggja kaffisopa.

Það verða kannski kökur með.

Jólakveðjur,
Kristján, Sigurlaug, Gabríela og Rebekka.

11. desember 2007

..oh..the sweet revenge..

Ég sé þetta alveg fyrir mér. Mamma og frú Clausen sitja saman á dimmu kaffihúsi í þeirri von að engin sjái til þeirra. Önnur réttir hinni brúðuna, hin heldur á nálinni. Brjálaðir kjúklingar og geggjaðir hanar dansa í kringum þær og Voodoo stemmingin er fullkomin. "Þetta kennir þeim".. segja þær og hlægja brjálæðislega... um leið og nálin fer í dúkkuna og seiðurinn er fullkomnaður.

Eða kannski ekki. Kannski er þetta bara smitandi. En í ljósi síðasta pistils, þegar ég var greinlega of snemma á mér að hrósa happi yfir því að vera ekki á staðnum þegar börnin mín fá ælu/niðurgangs pestina, má segja að skrattinn hafi hitt ömmu sína. Eða mína. Eða þeirra. Eða eitthvað...

Sumsé.. stutt yfirlit yfir helgina: veikindi (þessi ógeðslegu) og enginn kastali.

Stutt yfirlit yfir síðustu nótt. Allar veikir heimsins settar í tíundaveldi og margfaldaðar með sjö.

Auðvitað er þetta ekki ömmunum að kenna..(held ég..) það hljómar bara miklu dramatískara þannig.

Ljósi punkturinn við þetta er að þetta er mjög öflug megrun. Það fer allt út. Um alla neyðarútganga. ..og svo langar manni ekki að borða neitt. Aldrei.

En í ljósi sögunnar þá geri ég ráð fyrir því að þetta sé eins og þegar maður segist aldrei ætla að drekka aftur.. ;O)

En af örlítið léttari og skemmtilegri fréttum þá hefur Kristján formlega verið tekinn inn í morgunverðarsaumaklúbbinn og er boðinn í jólamorgunverðarklúbb á föstudaginn. Hann ætlar að baka eitthvað dásamlegt fyrir þær þannig að þið ykkar sem laumið á "idiot-proved" uppskriftum látið í ykkur heyra..

Hann er allavega mjög spenntur og gengur hér um húsið muldrandi "sörur... þær vilja sörur..".. Held að það sé ljóst að maðurinn þarf að fara að komast í vinnu.

Vorum síðan að frétta að elsklingurinn hann Sissó er á leiðinni til okkar... með örlitlu vinnustoppi í Frankfurt. Hlökkum mikið til að hitta hann í næstu viku!

Erum annars að græja óperuherbergið, Kristján var sendur í IKEA til að redda því sem átti eftir að redda, en síðan fara þau bara saman, hann og Salóme og kaupa rest....

Veðrið sýnist mér eitthvað vera að skána, en hér hefur rignt eins og hellt væri úr fötu síðustu vikur. Einhverjir eru farnir að smíða örk. En nú er allavega blár og huggulegur himinn, en hvort það er bara í suðurátt veit ég ekki því ég hef ekki litið út norðan megin :O)

Hlökkum annars mikið til að hitta þau ykkar sem hafið tíma til að kíkja á okkur 20.-21. des. .. Þannig að þetta sé alveg á hreinu þá komum við landsins 20.des kl. ca. 15.30. Þá verður brunað með frúnna í björgunaraðgerð á hári og eftir það verðum við öll í Jörfalindinni. Förum síðan í flug kl. 17 næsta dag, en þurfum að mæta mjög snemma þar sem það er ekki hægt að bóka sæti... íhaa.. frábær þjónusta hjá Flugleiðum!!! Worst case scenario er því að við verðum á víð og dreif um vélina. Frábært fyrir þann sem lendir með Rebekku :O) :O)

Nóg í bili, vona að þetta hafi ekki verið of þunglyndislegt blogg. ...þau verða að fá að vera með líka!

Bæjó spæjó,
slauga og co.

3. desember 2007

Myndir og mál..

..áður en pistillinn hefst er rétt að þakka dætrum okkar Kristjáns fyrir að hlýða okkur.

Takk.

Það er nefnilega þannig að af öllum pestum sem börn geta fengið finnst mér ógeðslegast að "díla við" ælupest og niðurgang. Bara ógeð. Þannig að við höfum brýnt það fyrir þeim að bíða með allt slíkt þar til að þær eru í pössun hjá skyldum aðilum. Helst ömmum og öfum. ...og það klikkaði ekki þessa helgi frekar en fyrr í vetur! Frú Clausen fékk allan pakkann!! Kl. 5 að nóttu. En við ekki. Út á þetta gengur gott uppeldi. Við biðjum, þær hlýða...


En þá er rétt að birta nokkrar myndir af þessum hlýðnu börnum. Fannst þessi reyndar vera frekar fyndin og lýsa stemmingunni sem Rebekka hefur yfir sér. Pínu púki en samt eitthvað svo kjútt.. ;O)


Við höfum reyndar komist að því að Rebekka er frönsk. Ekki íslensk, og það er það sem að hefur verið að valda misskilningi á heimilinu. Hún hefur í raun og veru ekki skilið okkur og við ekki hana. Það leið ekki vika þar til hún var farin að segja Au revoir við fóstrurnar, og rak okkur þá minni í þegar hún segði þetta og við héldum að hún væri að segja "afi". Algjör misskilningur, hún var í raun og veru að tala frönsku þar sem hún var loksins komin í landið sem skildi hana. Fyrir þá sem efa þetta þá er rétt að benda á að hún hefur ekki enn sagt "bless" eða "bæ bæ". Bara au-revoir. Erum að vonast til að fóstrurnar skili til okkar fréttum sem henni hefur legið á að segja okkur.


Finnst nú rétt að setja samt eina "englamynd" af henni, fyrir ömmurnar, svo þær geti fyrirgefið henni veikindin sem hún tímasetur við viðveru þeirra..






Af hinni dótturinni er einnig allt gott að frétta. Hún heldur áfram að bæta við sig enskum /amerískum frösum and is verrý möts lörning ábát kristmas.. jú nóv, djísus and stöff..

Er annars alveg að blómstra og höfum við mikla trú á því að næsta ár verði hún í aðalhlutverki í skóla-jólaleikritinum. Í ár er hún bakgrunnur ;O). Hún er annars ótrúlega samviskusamur nemandi. Verður alltaf að klára heimalærdóminn um leið og hún kemur heim. Sem hefur orðið til þess að við veltum því fyrir okkur hvort að hún sé ættleidd. Þetta er allavega hæfileiki sem hvorugt okkar kannast við að hafa komið með í genapottinn ! En gott mál engu að síður (þ.e. lærdómsstemming ekki ættleiðingin..)!

Erum síðan að fara að fá Au-pair til okkar í janúar. Hún heitir Salóme og er frá Bolungarvík. Þetta er eingöngu gert fyrir Dúnnu frænku enda er það ljóst að það er afbragðsfólk sem kemur að vestan. Vill meira að segja svo til að kærastinn hennar er sonur elluboggudúddu.. æ nei, ég man ekki svona ættfræði, en svona hljómar þetta allt á vestfirsku. Gunni-stínu-beina..Spurning um að mamma setji inn komment hverra manna drengurinn er :O)

Barcelona ferðin var síðan alveg afskaplega vel heppnuð. Í alla staði. Á fundinum á laugardagsmorgun leit ég reyndar út eins og dauðinn sjálfur hefði ælt yfir mig. Held að það hafi eingöngu verið vegna þess að ég fékk ekki nógan svefn. Örugglega bara það. Ákvað að það færi bara best á því að ég tæki á mig útlitslega mynd á líðan allra annarra í herberginu..

En jæja.. nóg í bili. Set samt inn mynd af kransinum mínum fína sem ég gerði um daginn. Bara til að monta mig. Finnst hann voða fínn :O)

Gabríelu langaði síðan að koma því á framfæri, rétt í þessu, að hún saknar ykkar allra mjög mikið.. :O)

Ástarkveðjur,

Luxararnir