27. nóvember 2007

Hvað er nýtt..?

Aðalfréttin er auðvitað sú að ...

...pössuninni um næstu helgi hefur verið reddað. Það er engin önnur en frú Lára Clausen sem mætir til leiks! Það kom í ljós að það var undarlega ódýrt að fljúga á milli Alicante og nálægra flugvalla við Luxemborg (reyndar ekki til Lux). Reyndar var það svo ótrúlegur prís að það er spurning hvort að flugbúnaður á vélinni sé í líkingu við hjólabúnað Flintstones bílanna… hmmm?

Eftir að hafa fattað þetta munum við einskis svífast við að flytja inn maddömmuna þegar þurfa þykir! Hún mun því mjög líklega fara í felur á næstu mánuðum….! Það verður allavega mjög gaman að sjá frúnna og er Gabríela að fara á límingunum og getur varla beðið eftir að fá ömmu í heimsókn. Skilur samt ekkert í því að afi komi ekki líka, vill helst að við látum sækja hann með þyrlu út á sjó!

Ferðinni er annars heitið til Barcelona þar sem vinnutilgangi verður blandað við almennan skemmtanatilgang. Verður án efa mjög skemmtilegt og gaman að fá tækifæri til að kynnast starfsfélögunum og mökum þeirra betur! Þetta verður vonandi líka góð afslöppun með lítilli verslun þar sem að frúin tæmdi verslanirnar í Kaupmannahöfn um daginn… Skilst reyndar á Kristjáni að hann ætli í Spa með stelpunum á laugardagsmorgun... það verður áhugavert..

Síðan er á döfinni Gala-jólakvöld í frönskum kastala þann 8.desember. Er búin að biðla til óska-Spánverjans um að koma í helgarferð til Lux, en hún þykist hafa öðrum hnöppum að hneppa ;O) Skil það reyndar vel, erfitt að fá helgarfrí þegar lítið kríli er komið í heiminn þar! En boðið stendur ennþá fröken !!

Á föstudagskvöldið síðasta var reyndar kvennakvöld bankanna sem í þetta skipti var haldið hjá Glitni. Ofboðslega flott hjá þeim og skemmtilegt. Leynigestur kvöldsins var síðan Jónsi úr Svörtum fötum, sem söng og trallaði það sem eftir lifði kvölds…!

Gabríela fór í afmælisboð á laugardaginn á meðan við fórum til Belgíu og keyptum eitt stykki þvottavél. Það hefur nefnilega komið á daginn að þvottavélin okkar heldur að hún sé uppá punt. Hún svosem tekur við þvottinum, veltir honum til og frá ... en virðist samt ekki vera fær um að ná einum einasta bletti úr ... Mamma hjálpaði síðan til við að brjóta vélina niður andlega með að segja marga ljóta hluti í nærveru hennar. Eftir það hefur vélin bara ekki jafnað sig.

Ákváðum því að skipta yfir í Siemens með hrækiprógrammi eins og mamma á... (fyrir þá sem ekki vita hvað hrækiprógramm er, skal það upplýst að það er 15 mínútna ofurprógram à la Siemens, hafði ekki mikla trú á því í fyrstu en er nú einlægur aðdáandi þess eftir að hafa búið í sama húsi og umrædd vél í nokkrar vikur..). Fáum vélina á morgun (hér gerist EKKERT samdægurs) og taka þeir gamla hróið með.

Þeir eru ægilega duglegir Lúxembúrgarnir í svona umhverfisvitundarverndardæmi... bjóðast alltaf til að sækja gamla eintakið þegar verið er að skipta út.. Spurning hvort að það sé sambærilegt í boði við skilnaði? “Við sækjum bara kallinn um leið og við komum með nýja eintakið.. ;O) “

Erum síðan búin að fá bílinn okkar! Loksins!!!! Þeim tókst auðvitað að klúðra smá með því að setja VITLAUSAN lit á bílinn!! En mig hefur svosem alltaf langað í bleikan bíl. Á eyrnalokka í stíl. Hann er allavega æðislegur að innan...

Erum síðan farin að telja niður til Ameríkuferðarinnar!! Óbojj hvað verður gaman! Fyrir þá sem ekki vita ætlum við familían að fara til Bandaríkjana margumtöluðu og eyða þar jólunum með Sveinka, Kollu, Jóu, Gunna, Leibba, Steina og Gunnari Finni. Verðum í kuldanum í Stowe, Vermont og verðum “aðeins” búin að safna um 300þúsund krónum í sameiginlegan matarsjóð þegar við förum. Alveg spurning hvort að það dugi fyrir ca 10 daga!!!!!!!!!!!

Er síðan á leið í jólaföndurdæmi með "Lísunum" en það er hópur íslenskra kvenna sem tengjast Landsbankanum með einum eða öðrum hætti. Ætla mér að búa til einn aðventukrans.. vona að það heppnist þrátt fyrir að ég sé ekki með mömmu mér við hlið ;O)

Vona að allir hafi það gott... við erum allavega ekki illa haldin! (það verður yfirvigt um jólin.. bara ekki í töskunum!!!!!!!!)

Ástarkveðjur,
slauga og co.

p.s. bílinn er auðvitað ekki bleikur, hann er silfurgrár, átti að vera brúngrár... ;O)

19. nóvember 2007

Er þetta íslenskt mangó...?

Þá er komið fréttabréfi vikunnar.. dróst reyndar aðeins vegna ferð frúarinnar til Köben, en meira af því síðar.

Byrjum á yngsta meðlim fjölskyldunnar.

Rauðhærði skriðdrekinn hefur hafið innrás sína inn í frönskumælandi leikskóla! Hún virðist vera að pluma sig vel, ...með smá gráti á morgnanna, ennþá! Tók reyndar trylling á pabba sinn um daginn þegar hann fór út af vananum og sleppti morgunkaffinu með hinum mömmunum. Hún hélt nú ekki, benti í áttina að kaffistofunni og grét sáran! Þarf greinilega sitt kaffi á morgnanna :O)

Er þetta íslenskt mangó? spurði Gabríela um daginn þegar hún og Sylvía sátu í makindum og borðuðu niðurskorna ávexti. Nei, ekki var það svo, en mangóið hafði reyndar "gleymst" í ávaxtaskálinni og var því orðið frekar ofþroskað.. og kannski ekki alveg eins og hún átti að venjast. Niðurstaðan var því sú, að fyrst að ávöxturinn var eitthvað "funky" þá hlyti hann að vera íslenskur... áhugavert!

Síðan er það Kaupmannarhafnarferðin. Fór til að hitta Vesturbæjarútibúið í jólahlaðborði í Kóngsins Köben. Mikið var ææææææðislegt að hitta þau öll... svo ég tali nú ekki um herbergisfélagann, frú Kvaran :O) Fengum reyndar fyndnasta hótelherbergi sem ég hef komið í. Hef aldrei, og þá meina ég aldrei, séð jafn lítið herbergi. Og meira að segja undir súð þannig að innilokunarkenndin (ef við hefðum haft svoleiðis) hefði orðið fullkomin. En það skipti engu, kompaníið var það sem skipti máli og það var fyrsta flokks!

Þetta var þó ekki þrautalaust að komast á leiðarenda þar sem að SAS, sem er annálað fyrir ömurlega þjónustu og tíð "cancelled flights", ákvað að ég væri ekki velkomin í vélina og seldu sæti mitt (sem ég hafði keypt fyrir 1 og 1/2 mánuði) til einhvers annars. Ég var sú eina sem komst ekki í vélina! Þeir sendu mig í staðinn í sight-seeing um Evrópu og stoppi í Frankfurt. Smart. Fékk skaðabætur "à la SAS" sem er háð því að ég noti upphæðina hjá þeim.. annars fái ég bara 50%. Algjörir snillingar! Komst þó rétta leið heim, án aukastoppa..

Húsfaðirinn er farinn á stúfana að leita að vinnu og verður allt sett á fullt á næstu vikum. Þannig að þið ykkar sem hafið sambönd í Lúxuslandinu, látið vita af ykkur. Kallinn næst í síma +352 621 316 990 :O) Hans verður án efa sárt saknað úr morgunverðarhópnum enda þekktur fyrir hressleika á morgnanna! Sorry girls..

Eigum síðan að fá bílinn á morgun ..sjö-níu-þrettán... þeir eru búnir að draga það ansi lengi og verður fróðlegt að sjá hvort að þeir nái að standa við stóru orðin.

Annars er bíllinn okkar á Íslandi enn óseldur. Því er nú verr og miður. Auglýsi hann hér því enn og aftur til sölu.... Lýsing á gripnum er í bundnu máli annarsstaðar á síðunni..

Meira er nú ekki að frétta af mannskapnum í bili. Nema að okkur vantar helgarpössun 30.nóv-2.des..... Áhugasamir gefi sig fram við söluborð Icelandair og panti sér helgarferð til Frankfurt. Við skulum sækja ykkur. :O)

Ástarogsaknaðarogalltþað..

slauga og co.

10. nóvember 2007

Hef hafið störf á Snyrtistofunni Dýrðin..

...spurning hvort að snyrtistofan ætti frekar að heita Dýrið..svona miðað við afrakstur og blót..?

Það er nú bara þannig að þegar maður er fluttur af landinu ylhýra þar sem maður var búin að koma sér upp allskyns þægilegum þjónustulinkum til að viðhalda (ó)endanlegri fegurð húsfreyjunnar þá fer að draga fyrir sólu þegar þessa aðila vantar hér. Ekki svo að skilja að Lúxembúrgískar konur séu kafloðnar og kiðfættar með náttúrulegan háralit, heldur er ég ekki alveg að leggja í það strax að biðja um "hár eins og Sigrún á Hársögu gerir" eða græja allt hitt stöffið eins og Halldóra á Snyrtistofu Ágústu gerir.. á frönsku! No merci monsieur..

Þannig að snyrtistofan opnaði í morgun. Byrjaði með vaxi..a'la öskur, blót og bölv.. og endaði með með hárlit í lengstu rót sem mannkyn hefur séð. Böttlerinn hló að mér allan tíman, en hann fær það borgað bölvaður. Engin desemberuppbót þetta árið! Afraksturinn er auðvitað stórkostlegur enda er efniviðurinn með eindæmum gæðalegur.

Bað síðan böttlerinn um að kveikja upp í arninum og brást hann vel við því, enda nýbúinn að fara út í skóg að höggva við (..eða kannski fór hann bara í búðina og keypti tilhogginn við..). Sjá má uppkveikjutaktana á meðfylgjandi mynd..!

Svona er hann aldeilis orðinn vel þjálfaður! Get leigt hann út til þeirra sem þess óska. Engin ábyrgð fylgir.

Nú er hann reyndar kominn inn í eldhús og farinn að gera að nautinu sem hann felldi í hádeginu... mmm.. nautasteik í kvöld með rauðvíninu sem ég heyri að hann er að opna! Skilst að um sé að ræða sömu tegund og Gunni bróðir skúraði gólfið með í Leifstöð.. fer betur í munni en á gólfi kallinn minn.. mundu það!
Í heimsókn hjá okkur er hún Sylvía sem ætlar að fá að gista í nótt. Þær tvær eru eins og samlokur þar sem að óstýrlátur ostur (Rebekka) er alltaf að reyna að troða sér á milli.

Hún gefur ekki þumlung eftir í baráttu sinni við að komast í klíkuna og er að ég held, að íhuga lengingaraðgerð í Rússlandi og talþjálfun til að komast nær takmarki sínu. Hér fyrir neðan má sjá vinkonurnar eftir andlistmálun dagsins. Gaby málaði Sylvíu og dittó..

Læt síðan fylgja með eina mynd af Rebekku síðan Gunni og Jóa voru hér.

Þá tók hún stroll "à la Afi".. dæmi hver fyrir sig ;)
Biðjum auðvitað að heilsa öllum og mikið væri nú gaman ef einhverjir af þeim sem kíkja við á síðunni, kasti á okkur kveðju.. þá erum við ekki alveg jafn langt í burtu!

Að lokum.. til hamingju með fallega nafnið þitt Kristinn Þór Hilmarsson. Knúsa þig í klessu þegar ég sé þig um jólin!

Au revoir..
Le böttler and the girls..

4. nóvember 2007

Vín og villtar meyjar..

...ekki kannski í því samhengi maður tengir oftast, heldur hefur þetta svona meira verið þemað síðustu daga. Gunni og Jóa komu í heimsókn á föstudagskvöldið og tóku villtu meyjarnar hér á heimilinu gleði sína á ný eftir að hafa þurft að hanga með pabba sínum allllllllla vikuna! Loksins ný andlit!

Til að hafa ofan af fyrir settinu fórum við með þau í outlettin rétt hjá Metz (í Frakklandi fyrir þau ykkar sem eru ekki svona alþjóðleg..) og þar var aðeins náð að versla. Fórum síðan beina leið þaðan í vínkynningu til hans Jesúsar. Jesú þessi er af spænskum ættum og tekur á móti litlum hópum og leiðir þá í allan sannleika um spænsku vínin. Enduðum á því að kaupa örfá eintök (teljum núna bara í dúsínum) og verður jafnframt hluti af flugvélinni á þriðjudaginn nýttur undir áfyllingu á Baugakórsbarinn... Amen.

Í dag fórum við síðan í bröns niðrí Grund (ekki tengt elliheimilinu) og röltum svo um gamla miðbæinn. Allt lokað á sunnudögum hér þannig að það var ekki mikið úr verslun í dag. Hef það eftir áreiðanlegum heimildum að það verði tekið á því á morgun í Trier...

Förum á eftir á veitingastað með tryllingana tvo.. ekki þó þennan sem er á horninu á götunni fyrir ofan... ónei, því að hann sérhæfir sig í hestasteikum sem einhvernveginn ég hef ekki lyst á! Klárinn góði með bernaise sósu..? Held ekki! Neibb, förum með liðið á ægilega góðan ítalskan stað sem tekur vel á móti börnum og brjálæðingum. Fullkominn staður fyrir okkur!

Lífið dettur síðan í réttan gír á morgun þegar Gabríela byrjar aftur í skólanum eftir vetrarfrí. Rebekka byrjar síðan að öllum líkindum í aðlögun á leikskóla sem er rétt hjá skólanum hennar Gabríelu í vikunni. Þá er meiri tími fyrir Kristján að sinna heimilisstörfum að kappi. Geri ráð fyrir því að það verði allt "spick-and-span" hérna á næstunni! Annars var hann með stórleik um daginn þegar hann var að velta fyrir sér þrifmálum og sá fyrir sér öskubuskustörfin með hryllingsglampa í augum.... Hann vatt sér þá yfir til nágrannakonu okkar og fékk nafnið á hreingerningarkonunni hennar... !!! Held að ég þurfi að setjast niður með honum og fara betur yfir starfslýsingu hans sem heimavinnandi húsmóðurs!

Jæja, meira ekki í bili.

Biðjum að heilsa öllum....