27. september 2007

Í fréttum er þetta helst..

..að forráðamenn Blogger.com höfðu samband við mig út af sérlegu álagi á kommentakerfið á síðunni minni. Ég er því beðin um að koma því á framfæri við fólk um stilla kveðjum og athugasemdum í hóf, kerfið þolir ekki nema ákveðið magn. Verið alveg róleg, ekki missa ykkur, það komast allir að!!!!

..annars er ein vika búin í nýrri vinnu. Er svona hægt og rólega að koma mér inn í hlutina, er þó enn stoltur handhafi titilsins "vitleysingur vikunnar" en vona bara að einhver nýr fari að byrja sem getur tekið við honum af mér..

..foreldrarnir, les parents (jú jú, maður er orðin svo alþjóðlegur að maður getur ekki bundið sig eingöngu í það ylhýra..) koma á morgun ásamt rauðhærða skriðdrekanum. Skilst á síðustu fréttum að heiman að hún stjórni afa sínum með harðri hendi, hafi jafnvel tekist að koma böndum á fréttaáhorf hans og stillingu hljóðs í sjónvarpi, eitthvað sem mörgum hefur dreymt um en fáa þorað..

..að leitin að leikskólanum stendur enn yfir! Sérlegur fulltrúi frá leikskólaráði mun þó mæta á svæðið 2.nóvember til að taka út dæmið. Ljóst er að það eins gott að byrgja sig upp á uppskeruhátíðum víðsvegar í nágrenninu til að undirbúa komu hennar og kallsins..

..veður er orðið skítt, svona rigning og frekar kalt. Treysti þó á að sólin láti sjá sig fljótlega aftur til að hita svæðið, þetta gengur náttúrulega ekki að hafa þetta svona! Fannst það stórkostlega glatað í morgun... alveg þar til ég las veðurfréttirnar frá Íslandi..

..fleira ekki í bili, er að passa 4 börn í augnablikinu þar sem skötuhjúin á heimilinu eiga brúðkaupsafmæli í dag! Börnin sofnuð og ég réðst til atlögu við tölvuna. Er að "mappa" leiðirnar fyrir mömmu og pabba þannig að þau rati hér um borg.. he he..."turn right.. allright..?"

Bonsoir...

21. september 2007

Að byrja í nýrri vinnu, 101 for dummies....

1. Finndu út hvar klósettið er, mjög nauðsynlegt að vita frá fyrstu stundu, kemur í veg fyrir óþægilegri augnablik síðar meir..

2. Finndu út hvar mötuneytið og kaffivélin er, álíka mikilvægt og nr. 1.

3. Ef þú ert ekki búinn að fatta nr. 1, slepptu þá nr. 2.

4. Sestu á réttan stað. Ekki t.d. í sætið hjá náunganum við hliðina á þér. Kemur einnig í veg fyrir vandræðileg augnablik.

5. Finndu út hvar pennarnir eru geymdir og blöð, þú virkar meira "að vinna" ef þú heldur fast um þessa hluti.

6. Msn og tölvupóstur eru nauðsynleg atriði fyrstu daga, þá lítur út fyrir að þú sért að vinna þegar puttarnir lemja lyklaborðið með miklum hraða.

7. Fake it 'till you make it.

18. september 2007

Höfuðstaður Norrænna víkinga..

..öðru nafni IKEA !! Heimsótti það í dag. Ikea menn eru nú líklega rétt í þessum skrifuðu orðum að panta rauða dregilinn fyrir næstu komu mína og hafa dreift jólabónusnum snemma í ár :O)

Annars var ferð mín þangað ekki þrautalaus. Ég er búin að komast að því að orð mín hafa yfir sér nokkra spádómsstemmingu, því að ég var rétt nýlögð af stað þegar Lúxemborgari nokkur klessti aftan á mig!! ójá.. ekki var það sauðurinn frá Íslandi sem var í órétti, heldur "hinir".. Beið bara í rólegheitum eftir að komast inná hringtorgið á leið til sænska sælulandsins þegar svakalegur karl nokkur þrusaði aftan á mig og sendi mig nokkra metra áfram. Bílarnir óskemmdir og ég líka. Maðurinn var þó í taugaáfalli (gott á hann..;O) )! Er pínulítið að stirðna upp núna og verð því frekar morkin næstu daga. Mun þó reyna eftir fremsta megni að láta það ekki hafa áhrif á mig, ekki frekar en í IKEA.

Gabríela heldur áfram að blómstra hér í Lux og les enskar smábókmenntir á kvöldið áður en gengið er til náða. Blái hnötturinn tekur síðan við á kjarnyrtri íslensku og bænirnar enda síðan kvöldið áður en augun lokast.

Erum nú í óða önn að reyna að finna leikskóla fyrir rauðhærða skriðdrekann sem bíður heima. Eftir forkönnun standa tveir eftir, Kids care og síðan ... Hansel und Gretel. Ójá, það er boðið upp á leikskóla Hans og Grétu!! Bíð spennt eftir að skoða hann og sjá hvort að nornin sé leikskólastýran og brauðmolar í matinn! Mun sérstaklega skoða eldhúsið og athuga hvort að ofnarnir séu nokkuð í óðlilegri stærð... Fylgist spennt með næstu daga!!

Þá er færslu dagins lokið, ég þakka þeim sem hlýddu...

Bestu kveðjur,
slauga schumaker

17. september 2007

50 / 50

Það var og. Frúin er mætt til fyrirheitna landsins og hóf dvöl sína á því að læra að keyra um götur Lúxemborgar. Með réttu hefði átt að gefa út viðvörun í útvarpi til hinna ökumannanna sem gátu, ekki á nokkurn hátt, talið sig örugga í umferðinni þann dag. Fyrsti klukkutíminn var í fylgd með Kristjáni, sem síðan var kvaddur niðrá lestarstöð þar sem hann þurfti að ferðast með langferðarbíl til að komast til Frankfurt Hahn. Þaðan flaug hann síðan til Íslands til að hefja seinni hálfleik flutningsins.

Við starfi Kristjáns sem leiðsögumanns tók þýð rödd enskumælandi konu sem sagði mér blíðlega hvert ég ætti að fara..."in two hundred meters, turn right.." Beið eftir því að hún myndi missa sig og orga á mig .."I said right, are you stupid or what, right, right !! Don't you get it...?" En sem betur fer var kurteisi forrituð í prógrammið og við Gabríela reyndum eftir bestu getu að laun henni kurteisina með hlýðni!

Komumst þó til Skúla og Helene að lokum og búum þar í góðu yfirlæti þeirra hjóna! Hér er mikið fjör á heimilinu enda 4 aðilar 6 ára og yngri ;O)

Er síðan búin að tékka á nauðsynjahlutum fyrir "einstæða" móður í Luxemborg, og hef einbeitt mér að því allra allra allra nauðsynlegasta. Til þeirra hluta teljast til dæmis kjörbúð þeirra félaga Henna og Mára ..ehem..... Reyni samt að stilla þessu í hóf, kaupi til dæmis ekki meira en 2 hluti í hverjum vöruflokki.. ;O)

En nóg um það að sinni, ætla að halda áfram letilífinu, sem formlega lýkur á fimmtudag þegar ég hef vinnu hér í borg.

Vona að kuldaboli sé ekki búinn að bíta af ykkur rassinn...

Bestu kveðjur úr Lúxuslandi (þar sem hitinn fór í 25+ í gær..)

slauga og gaby