1. desember 2011

Jóla(ó)undirbúningur.

23 dagar til jóla og það gæti verið apríl fyrir mér.

Í alvöru. Er að missa stig úr jólahúsmæðrakeppninni hraðar en þú getur sagt whatshallmacallit.

Það er ekkert jólaskraut komið upp. Meira að segja fólkið við hliðina á okkur sem er korter í lummó og á ekki sjónvarp er búið að missa sig í úti-jólaskreytingum (með fullri virðingu fyrir fólki sem velur að eiga ekki sjónvarp með þrjú börn sem grenja í kór...). Gatan mín er farin að blikka en það er slökkt á númer 169. Grátlegt.  

Rebekka tilkynnti mér áðan að hana langaði til að gefa jólasveininum föndrið sitt úr skólanum. Sá greinilega fyrir sér að hún væri lent hjá Skrögg-hildi Grámann þessi jól og að hún þyrfti að bjarga því sem bjargað yrði í hendurnar á einhverjum sem kynni að meta það.

Gleymdi að finna til súkkulaðidagatölin fyrir börnin mín í gær.  

Er ekki búin að baka eina sort. Ekki einu sinni búin finna eina uppskrift. Ekki einu sinni búin kaupa tilbúnar smákökur.

Þetta er samt fullkomlega út úr karakter af því að ég hef svo æði oft algjörlega misst mig um jólin.

Hef bakað eins og brjálæðingur þannig að það mætti halda að það byggi hér 17 manna fjölskylda.

Þegar ég var gjaldkeri í litla Landsbankaútibúinu í gamla daga úti á Nesi, skreytti ég stúkuna mína. Ekkert svona pínu. Ég missti mig. Það var sería utan um glerið. Það var fyrir tíma samræmdra jólaskreytinga í bankanum.

Ég verð tiltölulega anal þegar kemur jólagjafinnpökkun. Gjörsamlega tapa mér. Pappír er ekki það sama og pappír gott fólk.. hvað þá slaufan og skrautið. Ég eyði venjulega vangefnum tíma í að finna út hvernig pökkunarþemað er hver jól (ég veit... pínu klikk) og öðrum eins tíma í að finna rétta skrautið.

Hef alltaf,  (37 ár gott fólk), átt mitt eigið jóladagatal sem ég gúffa í mig eins og spenntur krakki á hverju kvöldi fyrir jól.

Ég trúi enn á jólasveininn.

En í ár. Ekkert. Ekki vottur af jólum. Zip.

Skil þetta ekki.

Kristján kemur heim á morgun og vonandi með jólaandann með sér. Hann er allavega búinn að lofa að baka Sörur í ár, en eins og allar góðar húsfrúr í Lúxembúrg vita, þá er hann Sörumeistari svæðisins.

Neyðaráætlunin verður sett í gang á morgun ef þetta lagast ekki. Elsku jólaandi. Drífðu þig bara í heimsókn. Ég lofa að taka þátt. Skal jafnvel skreyta húsið grænum greinum. Ég mun gera mitt besta í að drekka í mig jólaandann um helgina, set hreindýrahorn á hausinn og syng Jólahjól þar til ég verð rauð í framan. 

Ef allt bregst mun ég eyða einhverjum tíma í IKEA þar sem jólin byrjuðu í október. Mér skilst að enginn sleppi þaðan ó-jólaður . Vika ætti að duga mér.

Þar til næst..

21. nóvember 2011

Dómsdagur með ostum.

Já gott fólk,
það er komið að því.

D-day, dómsdagur, endalok alls þess sem er gott og sætt og ljúffengt í þessum heimi.

Á morgun verð ég sett eins og hamstur á hjól til þess eins að fá staðfestingu á því sem ég nú þegar veit.

Grátlegt líkamsástand mitt verður krufið til mergjar.

Hugmyndin er svosem góð og flest allir í vinnunni eru farnir að mæta þarna í veröld Satans. Á hverjum degi er alltaf einhver til fyrirmyndar og púlar sér út. Hjólar, lyftir, hleypur og lýgur því stanslaust að öllum sem heyra vilja hversu frábært þetta er.

Ok, fínt. Ég er alveg til í að vera með í klúbbnum, en það var áður en ég frétti það að til þess að mega fara í sturtu í þessum undirheimum Hadesar, þarf maður að undirgangast próf.

Ostaprófið. Sumir vilja kalla það fitubolluprófið, en hitt hljómar betur. Hvaða ostur ertu?

Á morgun er sumsé mitt próf. Framkvæmt af sadískum, hollenskum (sumir Hollendingar hata ennþá Íslendinga eftir Icesave og þessi flokkast þar undir) líkamsræktar-na####a.

Ég mun flokkast sem feitur gouda, og nota bene, gouda er til í allt að 48% hér í Lúx.

Finnst reyndar ótrúlega ómerkilegt af þeim sem skilgreindu fituskalann að búa ekki auka ramma á milli "average" og "obese". Hverskonar rugl er það? Já.. þú er svona í meðallagi.. en þú þarnað ógeðið þitt sem slysaðist einu prósenti hærra, þú ert bara obese! Ullabjakk!

Það er sumsé ég á morgun. Fröken obese.

Er núna að fara yfir litgreiningar palettuna til að finna út hvaða litur klæðir rautt best.

Ég nefnilega verð rauð í framan. Ekkert lítið sko. Heldur þannig að fólk stoppar mig gjarnan og spyr hvort að það sé allt í lagi með mig. Gerist á mínútu 3 og er hræðilegt. Fer á mínútu 300.

Hugsið tómat.
Teiknið á hann andlit.
Það er ég.

Það sem fylgir svona átaki gjarnan er síðan bætt mataræði. Hef svosem engar sérstakar áhyggjur þar. Er að borða viðbjóðslega hollt eftir að grænmetisvagninn hóf vikulega innrás sína.... en ég hef smá áhyggjur af namminu.

Ég var nefnilega á Íslandi.

Fór auðvitað í Krónuna og Bónus og keypti upp lagerinn af rauðum möndlum og hrískúlum.

Get ekki EKKI borðað það. Það væri bara móðgun.
Ekki er hægt að geyma það því að það stríðir á móti öllu sem ég hef tamið mér.
Og ekki er hægt að henda því (maður hendir ekki dýrgripum).

Vandamálið sem ég stend því frammi fyrir núna er eiginlega hálfgert keppnis.
Þarf hvort eð er að koma mér í keppnisgírinn.

Klukkan er núna níu um kvöld. Testið er klukkan tólf á morgun. Sem gerir 15 klukkutíma.

4000 hrískúlur og 2000 möndlur.

Babysteps...

Þangað til næst...

3. nóvember 2011

Ömmur

Eitt af því sem er ekki sjálfgefið, er að fá að kynnast ömmu sinni.

Ömmur eru, skv. skilgreiningu minni, mjúkar konur á sál og líkama, sem hægt er að sækja óendanlega ást og visku til. Þær kunna allt. Þær kenna manni að leggja kapla og spila spil. Þær vita allt sem þarf að vita og meira til. Ég átti tvær ömmur, önnur dó þegar ég var 16 ára en hin daginn eftir 17 ára afmælisdaginn minn. Ég fékk því ekki að kynnast þeim með þeim hætti sem ég hefði viljað. Óteljandi spurningum er enn ósvarað, spurningum sem ég hafði ekki rænu á að spyrja fyrir sautján ára aldurinn.

En af hverju er ég að skrifa um ömmur? Jú, af því að fyrir stuttu dó ein amma. Ekki amma mín, heldur amma hennar Auðar vinkonu minnar. Ég og Auður vorum bestu vinkonur í MR og höfum haldið vinskapnum áfram, þrátt fyrir að það líði núna lengri tími á milli þess sem við hittumst. Ein í Lúx og hin í Köben.  En ég var líka vinkona ömmu hennar. Amma hennar hét einnig Auður og var kjarnakona. Hún vann á sínum yngri árum í Landsbankanum og þannig fundum við samnefnara okkar. Og svo vorum við auðvitað báðar miklar vinkonur dótturdóttur hennar og aldursbil var ekki til.

Hún kom ósjaldan og kíkti á mig þegar ég vann í Landsanum. Hún var með sterkar skoðanir á því hvernig hlutirnir ættu að vera, hún var stolt af mér, gaf mér góð ráð og mér fannst óendanlega gott að knúsa hana þegar ég hitti hana. Hún hafði alltaf áhuga á því sem ég var að gera og ég veit að hún fylgdist með mér eftir að ég flutti út. Hún var þessi eiturhressa týpa sem var algjörlega "on top of things". Það var ekkert sem hún var ekki með á hreinu. Hún var einstök. Hún var holdgervingur Ömmunnar.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst henni.

Legg til að þið knúsið ömmurnar í kringum ykkur...

Þar til næst..

p.s. ykkur er alveg óhætt að knúsa afana líka....

1. nóvember 2011

Ísland, sækjum það... með ferðatösku og yfirvigt!

Það stefnir í Íslandsferð hjá frúnni.

Sem í flestum tilfellum þýðir yfirvigt á leiðinni tilbaka.

Yfirvigtin splittast í tvennt. Hluta af henni ber ég innanklæða, réttara sagt innvortis eftir ofát og belgingu vambar á tímabilinu. Síðan er hinn hlutinn sem er klárlega ekki minna mikilvægur.

Birgðaflutningur.

Fyrir þau ykkar sem haldið að allt fáist í útlandinu, skal það hér með leiðrétt. Það er rangt.

Helstu útflutningsvörur eru eftirtaldar:

Cheerios.
Efst á listanum. Þetta stöff er eins og gull. Höfum átt viðskipti með þetta hér úti. Á meðan hlutabréfavísitölur heimsins hríðféllu, stóð Cheeriosið óhaggað. Fæst ekki úti nema með sykurhúð helvítis.

Royal búðingur.
Þarf eitthvað að útskýra þetta? Hvernig á maður að neita börnum sínum um hlut sem geimvísindalega sannar að hamingju er að finna í skál?

Rauðar möndlur.
Það þarf þó að vanda sig við þennan lið. Hef Freyju menn grunaða um að setja gölluðu, allt-of-linu, möndlurnar í risa poka og selja í fríhöfninni. Hef nokkrum sinnum talið mig vera komna til himna, með slíkan risapoka læstan á milli krumlanna. En vonbrigðin hafa verið í réttu hlutfalli við stærð pokans. Linar og lélegar. Ég ét þær nú samt... maður hendir ekki svona hlutum, en rétta aðferðin er að kaupa litlu pokana (sem fást ekki í flughöfninni) og pakka þeim áður en farið er af stað. Bara nógu marga pakka.. með grjóthörðum og dásamlegum möndlum.

Hrískúlur frá Freyju.
Dásamlegt stöff. Er viss um að þær eru sannanlega í boði á himnum. Fullkomið jafnvægi  milli hrískúlu og súkkulaðis. Ekki þessi súkkulaðihryllingur sem er í boði í hjá N&S. Erum ekki sammála þarna hjónin (frekar en oft áður).. þar sem hann er aðdáandi nóakroppsins.  Éttu þá bara þitt stöff sjálfur vinur og láttu mitt í friði!!!

Hangikjöt og flatkökur og skyr.
Besta máltíð í heimi. Þarf smá lagni til að koma skyrinu ósködduðu.. en það er sko samt hægt. Erum ókrýndir meistarar í skyrútflutningi. Skil ekki afhverju við erum ekki á opinberum lista yfir útflutningsaðila skyrs.

..og þá er það cirka komið. Auðvitað dettur ýmislegt í töskuna.. en þetta eru lykilatriðin að hamingjunni í Lúx. Minni alla þá sem hyggja á heimsókn til okkar að athuga birgðarstöðu heimilisins í samræmi við ofangreint og koma okkur á "óvart..".

Þess á milli verður maður bara að láta sér nægja annars flokks mat. Í alvörunni, hver lifir af gæsalifur, strútskjöti, ostrum, ostum og sniglum einum saman?

Þar til næst..

19. október 2011

Morgunstund gefur gull í ..? hvað? ekkert!

Fyrir ykkur óþolandi morgunhanana er best að hætta hér. Takk fyrir lesturinn.

En fyrir hin ykkar sem eruð með mér í liði, þá er þessi pistill tileinkaður okkur sem finnst lífið betra.. eftir hádegi.

Ég veit ekki alveg hver byrjaði á þessu rugli, að rífa fólk upp á rassgatinu í morgunsárið og henda því út í náttmyrkrið. Ég meina, afhverju ekki að bíða eftir birtunni? Er það eitthvað verra?

Ég veit líka að ég er ekki ein í þessu. Ég á tildæmis bróður sem hefur séð sólarupprás bara af þeirri einföldu staðreynd að það birtir ekki fyrr en um 11 leytið á Íslandi á veturna.

Var ég ekki líka örugglega búin að minnast á að ég er gift Kristjáni. Hafið þið hitt Kristján?

Morgunglaðari persónu er líklega ekki hægt að finna. Finnst trúlegt að nokkrir fuglar, hérar og íkornar  úr Disney flögri, hoppi og skoppi í kringum hann á morgnanna (á meðan ég lúri ásamt hinum illfyglunum úr sömu verksmiðju). Hann er þessi ótrúlega hressa týpa og tilbúinn í daginn. Og svo þarf hann ótrúlega mikið að tala. Er eiginlega ekki að meika það. Sé ekki tilganginn með því að eiga samtal við yfirhöfuð einhvern á morgnanna. Ég held því raunar fram að það sé ekki hægt að segja neitt gáfulegt á morgnanna, nema að maður sé hreinlega að lesa upp texta sem var skrifaður kvöldið áður. Því er best að þegja.

Besta morgunsamband sem ég hef átt var veturinn þegar Gunni bróðir var í Stýrimannaskólann og ég í MR.  Fékk iðulega far með honum á morgnanna. Það fyrsta sem var umlað út úr sér var jafnframt það síðasta. Nokkurs konar ígildi kveðju þegar rennt var upp að Menntaskólanum.  Fullkomið. Fullkominn skilningur beggja aðila.

Á morgun þarf ég svo að vakna ógeðslega snemma. Sirka kl. 6.15. Það er nefnilega afmæli á heimilinu þegar hin yndislega en jafnframt morgunfúla barnið mitt hún Rebekka verður 6 ára. Hún er eins og ég: getur-ekki-opnað-augun.

Nema þegar hún á afmæli. Þá vaknar hún eldsnemma og vill fá pönnukökur.

Og hún fær þær.

Jafnvel þótt móðirin muni líta út eins ofnbakaður karfi sem enn hefur ekki opnað augun, þar sem hún ráfar um í eldhúsinu með spaðann að vopni og reynir að blanda hráefnunum saman með hálfa meðvitund.

Fer snemma að sofa í kvöld.

Þar til næst...

11. október 2011

Innrás Smjattpattana..

Þegar ég var lítil elskaði ég Smjattpattana. Söng hástöfum með og fílaði þetta í botn. Fannst Lúlli laukur fyndinn en Pála Púrra eitthvað hálf misheppnuð. Ég kunni líka Grænmetisvísuna úr Dýrunum í Hálsaskógi utan að.

Í stuttu, ég kunni öll lög um grænmeti sem voru í boði en heilaþvotturinn virkaði illa. Var ekki alveg að fíla að borða þetta. Einbeitti mér frekar að kókópöffsi og kókómjólkinni (með tilheyrandi afleiðingu, I do realise...).

Ég hef þó á síðari árum lært að meta þetta græna. Finnst það eiginlega bara orðið nokkuð gott. Er líka svo ægilega meðvituð eitthvað um hollustuna að mér fannst tilvalið að gerast áskrifandi að bíóvænni grænmetiskörfu vikulega. Tók bara samt minnsta skammtinn, svona á meðan ég væri að prófa.

Í hverri viku streymir því inn á heimilið, fyrir 18 Evrur eða svo, heill helvítis hellingur af þessum fjanda.

Í alvöru. Það er einhver takmörk fyrir því hvað hægt er að upphugsa af uppskriftum. Var með 7 kúrbíta í grænmetisskúffunni í dag, eldaði úr fjórum þeirra. Geri aðrir betur.

Spínat einhver? Hnúðkál? Radísur, Hokkaido grasker, maísstönglar (með hýðinu og alles) eða lauk? Sveppi eða salathaus? Tómat og púrrulauk. Eggaldin..?

Vanþakklæti hugsa örugglega einhverjir núna. Á meðan Ísland flytur inn "ofurþroskað" grænmeti vogar hún sér að kvarta.

Ekki misskilja. Ég var geðveikt spennt í byrjun. En þegar að heimilið sem hatar paprikur fékk 5 stykki á 8 dögum þá þarf eitthvað að endurhugsa þetta. Og mér finnst meira að segja gaman að elda. Búin að elda fennel pasta, fennel fisk og fennel pasta aftur. Það var kúrbítsofnréttur í matinn í kvöld. Brokkólísúpa í síðustu viku og graskerssúpa þar áður. Búin að súrsa paprikur (fyrir Raclette seasonið skiljiði..). Ég elda og elda eins og skrattinn sjálfur sé á eftir mér, en það sér ekki högg á vatni. Og á hverjum þriðjudegi bætist við.

Vil ekki gefast upp á þessari hollustu, en ég held að herra google sjálfur sé orðinn leiður á þessu. Er búin að gúggla allar grænmetisuppskriftir algeimsins.

Ekki einu sinni reyna að benda á frystinn. Það kemst ekki meira inn í hann. Ekki ein baun (bókstaflega).

Ætla að halda áfram aðeins lengur, en ef ég sé bangapabba koma raulandi: "Gott er að borða gulrótina.. grófa brauðið steinseljuna.." þá er jafnlíklegt að ég dúndri í hann graskerinu og troði uppí hann gulrótunum og að ég taki undir sönginn..

Þar til næst...

p.s. í ískápnum eru núna eftirfarandi hlutir, óeldaðir:

  • Hokkaido grasker
  • kúrbítar
  • sveppir
  • púrrulaukur
  • tómatar
  • nokkrir maísstönglar
  • eggaldin
  • salathaus
  • risaskammtur af risaspínati
  • gulrætur
  • agúrka
  • steinselja 
  • laukar, gulir og rauðir
  • hnúðkál
Uppskriftir óskast... 

5. október 2011

Eiginkona ársins!

Rekur nú væntanlega einhvern í rogastans.

Ekki láta þó titilinn blekkja ykkur, þar sem hér á eftir fer (ekki) lofsöngur um síungan eiginmann minn sem á, ótrúlegt en satt, afmæli í dag.

Kristjáni er margt til lista lagt eins og flest ykkar vita. Hann er frábærlega skemmtilegur félagi, æðislegur kokkur, skemmtilegur pabbi , uppáhaldstengdasonur (ekki fleiri til...) og svo auðvitað augasteinn móður sinnar.

En af því að mér finnst skemmtilegra að benda á hina hliðina, þá skulum við rétt aðeins staldra við.

Þegar ég fyrst kynntist Kristjáni þá tilkynnti hann mér að þetta væri útúrpælt hjá honum að yngja upp strax (!) Svona eins og að það ætti að veita mér einhverja tryggingu.

Í dag er hann þó hlutfallslega minna eldri en ég heldur en hann var fyrir 13 eða fjórtán árum síðan (voru það kannski fimmtán? man aldrei hvaða ár við hittumst, þarf alltaf að spyrja Roald..).  Hann hefur jafnframt eitthvað yngingarelement við sig og er nokkuð naskur á að velja sér ekki svona "gömlu karla föt", þannig að gífurlegt aldursbilið er ekki að trufla mig, ennþá.

Talandi um föt. Kristján er þessi týpa sem elskar einkennisklæðnað. Hann hefur ótrúlega þörf fyrir að eiga átfittið í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur, jafnvel þó um sé að ræða tímabundið áhugamál. Skátarnir, golfið, skíði, hjólreiðar og hlaup. Mamma hans sagði einu sinni að Kristján hefði sómt sér vel í hernum (hjálpræðis?) af því að hann elskaði einkennisbúninga...  Greyið hefði bara átt að læra á lúður, þá hefði hann verið set for life hérna með Lúxembúrgísku lúðrasveitinni. Þeir eru í svaka júniformi og spila reglulega í götunni hjá okkur.

Ef hann hefði lært á lúður þá hefði hann ekki heldur þurft að læra neina texta (erfitt að blása og syngja). Kristján kann nefnilega enga texta. Þá meina ég enga. Ekki einu sinni textann við „Góða mamma..“ sem ÖLL börn á Íslandi læra fyrir 6 mánaða aldur.  Þetta er eiginlega magnað, sér í lagi af því að það virðist á engan hátt halda honum frá því að syngja með.  Hátt.  Hann er líka sonur hennar Lallý sem syngur þindarlaust, en munurinn er sá að hún kann texta. Það eru þó helst textar með Britney Spears sem virðast síast í gegn hjá drengnum, en þar komum við að næsta elementi.

Píkupopp. Frá helvíti. Kristján elskar þær allar. Hvort sem þær heita Britney, Rihanna, Pink eða Katy. Hann elskar þær skilyrðislaust. Og kann hluta úr viðlögunum.  Veit ekki hvað þetta er, en stundum hef ég pínu áhyggjur.

Hann er nefnilega sirka alltaf 23 ára í anda.  Rétt eins og forgjöfin hans í golfi.

Sem gerir mig 14 árum eldri en hann... ætli hann sé ekki örugglega búinn að gleyma þessu með að yngja upp?

Til hammó með ammó.. elsku gamli kall...

Þar til næst...

3. október 2011

Móðir ársins..

Þegar kemur að barnauppeldi er ég margfaldur handhafi titilsins "Móðir ársins". Hef einnig samtvinnað það titlinum "húsmóðir ársins" þegar ég ræktaði milljarða af litlum pöddum í eldhúsinu.. en það er önnur saga.

Ég er þó ekki viss um að börnin mín hafi verið spurð álits... þ.e. þetta með móður-titilinn.

Fyrir utan smáatriði eins og að:

  • týna Rebekku í Maastricht
  • vera spurð að því á leikskóla þegar ég sótti barnið mitt hvort ég væri skyld því og mætti sækja
  • muna ekki hvort börnin mín hafi fengið hlaupabólu
  • gleyma að senda inn sjúkrakortið í skólann og fá skammir fyrir
  • finnast iðulega allt fyndið sem þeim finnst hræðilegt, eins og þegar þær breyttust útlitslega í skrímsli, báðar tvær í síðustu viku..
..þá tókst mér núna að gleyma að fara með Gabríelu í bólusetningu. Fór með hana til læknis fyrir viku og spurði lymskulega hvort hún gæti ekki þrumað í hana eins og einni bólusetningarsprautu þar sem við hefðum átt að koma með hana í sprautu 2 af 3 í lok ágúst. Fékk stíft augnaráð frá lækninum sem stundi og tjáði mér að þetta væri hið alvarlegasta mál. Þetta væri bara næstum allt of seint. Tók síðan nokkrar sekúndur í að stara á mig, en ég starði bara á móti.  Síðan henti hún mér út og skipaði mér að panta tíma hjá sér í snarhasti. Sem ég og gerði.

Mánudagur kl. 9. (heilinn: þriðjudagur kl. 9). Heilinn hjá mér ákvað sumsé að þetta væri á þriðjudegi.

Fékk síðan símtal í dag frá Gabý (hvað var ég að spá þegar ég lét hana fá gemsa?):

"Mamma". "Er þetta að segja þér eitthvað: læknir..sprauta..mánudagur..?" 

Hún talaði við mig í tón sem gaf í skyn að móðir hennar væri fæðingarhálviti. 

"Litli rugludallurinn minn. Þú hefur rangt fyrir þér. Þú ert nú aldeilis að rugla litla ruglukellingin mín. Mamma veit best. Þetta er á morgun."

Ég ætla ekki að lýsa næsta símtali sem átti sér stað eftir að hún fann miðann þar sem að tíminn stóð samviskusamlega skrifaður á.

Móðir ársins.

Er núna búin að fá nýjan tíma og Gabríela skrifaði það samviskusamlega inn á dagatalið. Hún andvarpaði líka stundarhátt og leit á systur sína. Veit hvað hún var að hugsa. 

"Eins gott að ég er hérna greyið mitt. Þetta er allt að fara í rugl."

Þar til næst...


28. september 2011

Golf or not to golf.

Fyrir þá sem mig þekkja, vita þeir að ég er ekki sleipur golfari. Eiginlega bara "ekkert" golfari. Hef samt farið í golf ferð og allt. Er bara einfaldlega virkilega lélegur golfari.

Þetta er ekki einu sinni svona hógværð. Ef ég væri góð myndi ég syngja það af fjallstoppunum  (eða svona meira af hæðinni hér í Lúx). Það bara er ekki málið. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef þurft að setja X í staðinn fyrir töluna (nú taka allir golfarar andköf því að það þýðir fyrir ykkur hin sem hafið ekki hundsvit á þessu að höggin eru orðin fleiri en tíu á holunni......). Mér er ekki eiginlega ekki viðbjargandi.

Man samt að ég átti (fyrir þúsund árum) svona byrjendaheppnisár. Man sérstaklega eftir því að hafa verið sterkari en Hugi, vinur okkar Kidda, eitt árið. Sama ár og jörðin skalf á Selfossi. Líklega 2000. Það ár er held ég ekkert á leiðinni aftur. En það var samt svona næs móment.

En afhverju að rifja þetta upp núna. Jú, af því að hvað gerir sá sem er svo óhugnarlega lélegur í golfi að réttast væri að sá aðili myndi skammast sín og gefa golfsettið.. jú, sá aðili skráir sig í golfmót.

Eina sem getur réttlætt þessa ákvörðun mína er að það eru verðlaun fyrir flestu höggin. It's got my name on it!!

Veit í alvöru ekki hvað ég var að hugsa, en ég veit að það er of seint að bakka út úr þessu.

Síðan eru líka veitt verðlaun fyrir flottasta golfdressið, en seriously fólk. Þetta er í Lúxemborg. Ég á ekki séns í helvíti á móti úberskvísunum hérna. Ég á ekki einu sinni golfbuxur.. Hvað er það?

Treysti samt á Guð og lukkuna á föstudaginn. Mun sveifla kylfufjandanum eins og brjálæðingur á sterum og loka augunum í eitt andartak og vonast til að hitta helvítis kúluna.... í sirka rétta átt.

Líklega buxnalaus.

Þar til næst..

26. september 2011

Twentyfourseven?

Einu sinni hélt ég að allt væri fullkomið í útlöndum. Að öll framfaraskref sem tekin væru á Íslandi væru að fordæmi einhverra annarra. Getur svosem vel verið, en þeir sem tóku þau skref voru ekki að horfa til Lúxemborgar. Svo mikið er víst!

Ekki það að allt sé betra á Íslandi, ónei.. en sumt, já sumt mættu Lúxararnir alveg taka sér til fyrirmyndar.

Á laugardaginn var ákveðið að fara með Gabríelu upp á spítala þar sem hún leit út eins dalmatíuhundur, nema með rauða flekki í staðinn fyrir þá svörtu, og varirnar á henni voru skyndilega orðnar svo útblásnar að Angelina Jolie hefði skammast sín niðrí tær!

Eftir 3 tíma bið á spítalanum var loks komið að henni (já ég veit, þetta er alveg eins og Íslandi, bíðið bara aðeins..) og eftir skoðun hjá útúrþreyttum lækni var niðurstaðan: "Urticaria". Það útleggst á íslensku "bráðaofnæmi eða ofsakláði", skv. doktor.is

Og þá var það apótekið. Einmitt. Lyf og heilsa? Opið 24/7?
Nei.
Aldeilis akkúrat ekki.
Apótek eru auðvitað bara opin frá 9-6 virka daga og 9-12 um helgar. Afþví að þá verður fólk veikt.

Af góðmennsku sinni ákveða Lúxarar þó að hafa kannski eitt opið í borginni á öðrum tímum. Já þú last rétt: EITT. Þegar þú ert síðan búin að versla lyfin (eftir ca. klukkutíma bið) þá þarftu að borga aukalega 5 evrur í sérstakt utan-venjulegs-opnunartíma-gjald. Gjaldið hækkar síðan í 10 evrur ef það er stórhátíð. Yep, er ekki að ljúga. Halló 1982.

Að Gabríelu er það svo að frétta að hún lítur ennþá út eins og blettatígur, en þetta getur víst varað í marga marga marga daga... Ofnæmispróf verða heldur ekki framkvæmd nema að þetta komi fyrir aftur.

Rebekka reyndi að vera með í útlitsstemmingunni og fékk moskító til að bíta sig í andlitið. Hún lítur núna út eins og Mickey Rourke.. öðrum megin. Er nokkuð sæt hinum megin..

Þar til næst..


20. september 2011

og?

Hvernig byrjar maður að blogga aftur?
Þarf samt að laga helling til, linkar breyttir.. búnir.. eitthvað...
Sjáum til. Kannski gerist eitthvað...