15. desember 2008

Af jólatrjám og öðrum ósóma...

Góða kvöldið gott fólk!

Eftir langt blogghlé ákvað ég að nú væri tími til kominn að smella einhverju fram. Þetta helgast kannski af þessu súra ástandi sem hefur ríkt hér í Lúxemborg að neistinn var ekki alveg í gangi hvað varðar skriftir. Sumir létu sér vaxa skegg. Ég hætti að skrifa ! :O)

Í dag náði þessi rússíbani ákveðnum endalokum þegar að öllum samningum við starfsmenn var sagt upp og einhverjir endurráðnir í framhaldi af því. Til að gera langa sögu stutta er ég að vinna áfram en það lýtur út fyrir það að maður sjái á bak vinnufélögum og vinum í kjölfar þessa dags. Úff.. en sá dagur!

Ákváðum síðan að kýla í okkur smá jólaanda eftir daginn, og drógum upp jólatréð sem við völdum um daginn í jólatréskóginum. Það jólatré er í raun sérhannaður árásarbúnaður, búinn
eiturhvössum nöglum í stað barrs og hefur það aðeins eitt markmið. Að meiða litla putta (og stóra). Náðum um tíma að yfirbuga það, hentum á það ljósaseríu og skrauti, komum því fyrir út í horni og horfðum stolt á. "Ógurlega fallegt tré og vel valið hjá okkur, hugsuðum við örugglega öll." Það dugði í 5 mínútur, þá gafst tréð upp og með hljóðu öskri réðst það á gólfið og henti af sér skrautinu og hellti vatni um allt gólf. Helv.. tré!

Tróðum kvikindinu aftur ofan í fótinn, heilu viskastykki með, þvinguðum það með öllu afli til samstarfs og hótuðum því öllu illu. Smellti af því mynd til að eiga allavega sönnun fyrir því að það hefði einhverntíman staðið upprétt! Tréð stendur þarna enn.. starir á okkur og virðist alltaf vera á leiðinni aftur á gólfið en ég er nokkuð viss um að það bíður næturinnar til að ná fram hefndum. Grenihrífan þín..

Af öðru jólalegu má meðal annars nefna jólatónleika ILS (skólinn hennar Gaby) en þar var hún að sjálfsögðu að syngja með bekknum sínum.

Það ætti að grilla í hana ef vel er að gáð...





Eyddum helginni annars með skemmtilegu fólki, vorum á föstudagskvöld í mat hjá Krissa og Rúnu, Elsa og Nonni komu líka og við borðuðum saman og spiluðum síðan Scattegories. Það er skemmst frá því að segja að ég var vinsamlegast beðin um að mæta ekki með Kristján aftur í þetta spil. Fyrir þau ykkar sem hafið ekki spilað þetta, þá mæli ég með þessu... verið bara viðbúin í geðveikislegar rökræður ef þið bjóðið Kristjáni í með....

Fórum síðan í laufabrauðsútskurð hjá Skúla og Helene á sunnudag þar sem dömurnar sýndu listir sínar með hnífana. Þriggja ára með svisseskan vasahníf...? Er eitthvað að því?



Jæja gott fólk, hef þetta ekki lengra í bili, það má ekki ofgera hlutunum.

Jólaundirbúningskveðjur frá Lúx,

slauga og co.

20. október 2008

Afmælisbarn dagsins..

..er Rebekka!

Krúsídúllan sú arna er nú orðin 3 ára og hélt upp á afmæli sitt með pompi og prakt í gær!

Fékk vini sína í heimsókn og reif af þeim pakkana þegar þeir birtust í dyragættinni... einstaklega vel upp alin ung dama!

Fær síðan að opna restina af pökkunum sínum í dag þegar hún kemur heim. Þá höldum við "annað" afmæli :O)

Set inni myndir fljótlega.. þetta er í smá hönk gott fólk... þetta með myndirnar, en það hlýtur að fara að reddast!

luv
slauga og co.

10. október 2008

Praktískar upplýsingar..

Daginn!

Hér er allt við það sama að frétta. Vildum bara koma á framfæri nýju símanúmeri hjá mér, ..ef ske kynni að það yrði lokað fyrir þetta gamla!

Nýi gemsinn minn er +352 621 777 084

Vildum síðan benda ykkur sem hafið veri að reyna að hringja í okkur frá Íslandi í gemsana okkar að við erum með íslenskt númer. Það er mun ódýrara! Þannig að þið sem viljið bjalla þessa síðustu og verstu daga, hringið þá frekar í 562 3121. Ekkert svæðisnúmer og ekkert vesen, bara einfalt og gott íslenskt númer. Áfram Ísland!

Elskum ykkur öll...

kv
slauga og co.

8. október 2008

Fréttir

Hæ,
langaði bara rétt að láta ykkur vita, í tilefni af því sem er að koma í ljós, að það er í lagi með okkur. Í alvöru.

Hvað verður vitum við ekki ennþá en það kemur í ljós...

Vildi bara láta ykkur vita.

Sest niður eitthvert kvöldið í vikunni og skrifa ítarlegri fréttir af okkur.

kv
slauga og co.

18. september 2008

Á Íslandi..

..er síminn hjá Kristjáni 841-0373.
Minn er lúxneskur.. +352 621 199 099 (geri þó ráð fyrir að ég sé í seilingarfjarlægð frá drengnum..)

kv
slauga

13. september 2008

Að læra að ganga upp á nýtt..

..er örugglega ekkert líkt því að skipta um tölvu, en mér datt bara engin önnur fyrirsögn í hug sem lýsir betur frústrasjónum síðustu daga!

Við vorum sumsé að skipta um tölvu. Hin, sem er eins og dauðvona gamalmenni, hangir ennþá á horriminni, með ónýtt diskadrif og bilaða nettengingu. Það var því ákveðið að skipta út og fara í "hinn heiminn". Makkintoss. Eitthvað sem ég hef hingað til tengt við nammidós á jólunum.

Í alvöru, þá er þetta ekkert grín. Slaufa hér og slaufa þar... kræst! Allt átti að vera eitthvað svo "plug and play.." en er það einhvernveginn ekki!

Við náðum loks að taka tónlistina yfir, erum að fá taugaáfall yfir tölvupóstinum (Entourage) og myndirnar eru bara geymdar á harða diskinum um sinn. Það verða því engar myndir eða vídeó í bráð á meðan við lærum betur á gripinn.

Hún er samt ægilega falleg þetta krútt.. eitthvað svo elegant og lekker.. en samt eitthvað svo glötuð ;O)

Á samt örugglega eftir að verða uppáhaldsvinkona okkar bráðum. Þegar allt virkar. Ekki fyrr!

Af familíunni er hins vegar allt gott að frétta. Skólinn hjá Gaby er byrjaður, nóg að gera og skriðdrekinn er að sjálfsögðu á fullu í leikskólanum. Hún (þ.e. skriðdrekinn) veiktist um daginn og uppgötvaði sælu þess að hanga heima á daginn. Hún byrjar því núna alla daga á því að tilkynna manni að hún sé "asin" (lasin). "é ekki leika Louise". Erum ekki búin að átta okkur á því hvort að Lousie sé svona mikið hrekkjusvín að það borgi sig að vera meldaður veikur heima, eða hvort þetta sé ein fóstran sem reynir að aga drekann til. Spurning..

Annars eru góðir gestir í Luxembourg þessa dagana, en Óla og Hannes mættu á svæðið með Pétur Kára og Atla Hrafn. Æðislegt að sjá drengina (og auðvitað foreldrana) eftir langan tíma! Þau gista hjá Birgi Leifi og Betu en við fáum að stela þeim smá ;O) Ætlum með þeim út að borða í kvöld ásamt Sigþóri og Lindu á Apóteki okkar Lúxara. Fórum til Nancy í gær og dáðumst þar að torgi Stanislas . Örkuðum um nærliggjandi garð og héldum síðan heim á leið...

Ekki meira í bili. Passið ykkur á commentakerfinu. Það bítur...

luv
slauga

29. ágúst 2008

aðeins meiri málning..

..æ, bara eitt smá í lokin, síðan lofa ég að hætta þessum málunarbloggum..

Trallerí...

kv

slauga

17. ágúst 2008

Tuscany..

..var dásamleg.
Vorum viku í húsinu, eignuðum ítalska vini í næsta húsi, drukkum ítölsk vín og borðuðum auðvitað pasta með. Hvað vill maður meira?
Barga var frábær bær, lítill og "næstum" ósnortinn af túrismamenguninni. Fórum til Flórens og áttuðum okkur þá á andstæðunum. Nenni samt eiginlega ekki að blogga um ferðina, aðallega vegna þess að við vorum að klára að gera ferðabókina á mypublisher. Ef þið viljið skal ég senda á ykkur linkinn af bókinni og þá getið þið flett í gegnum ferðina :O) Hendið bara inn komment eða sendið mér meil á seg@mmedia.is og þá sendi ég þetta þegar bókin er reddý (ætti að vera snemma í vikunni).


Fengum vini okkar í mat í gær og tókum spilakvöld. Einn gesturinn var eftir, hún Júlía dóttir Sigþórs og Jönu og í dag kepptust stelpurnar við mála ódauðleg listaverk. Hér eru nokkrar myndir:
Gabríela og eitt ódauðlegt verk fullunnið..
Júlía að byrja á mynd:
Ungur og upprennandi listamaður... málverkin eru til sölu gegn vægu gjaldi:

Hef ekki hugmynd um afhverju þetta kemur í svona undarlegu layouti hér á blogginu..c'est la vie!
Jæja, bara stutt núna, þori ekki öðru eftir að mágkona mín ein ágæt hraunaði yfir mig í símann áðan um bloggleti! ehemm...
Man ekki hvort ég var búin að blogga um það, en við komum heim í stutt frí þann 18.-28.september! Hlökkum mikið til!
Allavega, algjör leti í gangi núna af minni hálfu, nenni ekki að skrifa meir í bili.
bæjó,
slauga og co.

27. júlí 2008

Uppgefin..

..ekki vegna andlegra þrenginga eða bölsýniskasta, heldur fór þriggja manna fjölskyldan í hjólaferð í dag. Netta 4 klukkutíma!! Sannfærðist enn og aftur að líkamsástand mitt er ekki upp á marga fiska (reyndar hræðilega marga ef notast er við einfaldan útreikning..) !! Nokkrir svona hjólatúrar í viðbót og bingó! gæti líklega farið að vinna sem módel!

En nóg um slíkar hryllingsmyndir, nóg er að gerast á næstu dögum og verður farið stuttlega yfir það hér!

Sáum reyndar eitt pínu fyndið í hjólreiðatúrnum, risa rúta hafði ákveðið að stoppa á bensínstöð og bílstjórinn áttaði sig ekki á því að það var smá "brekka" í útafkeyrslunni. Rútan var sumsé pikkföst.. og ég náttúrulega greip símann og smellti af einni mynd:


Eftir 2 daga koma mamma, pabbi og Gabríela! jibbíjei!! Það verður æðislegt að fá skvísuna aftur og auðvitað frábært að fá mömmu og pabba í heimsókn. Erum síðan búin að leigja hús í Toscana héraði á Ítalíu og ætlum að dvelja þar í eina viku! mmmm.... það fjúka engin kíló í þeirri viku, það er alveg á hreinu, Ítalir eru víst ekki þekktir fyrir vondan mat eða vond vín...

Dólum okkur svo rólega tilbaka og reynum að finna einhver B&B á leiðinni. Gerum ráð fyrir að vera komin aftur til Lúx um 12-14. ágúst..

Síðan kemur nýja "peran" okkar þ. 22. ágúst! Kaja heitir hún og hlökkum við mikið til að kynnast henni. Held að það sé alveg ljóst að við höfum verið ljónheppin með "perur" og eigum örugglega eftir að fá báðar fyrrverandi (Marian og Salóme) í heimsókn áður en langt um líður!!
..
..If you are reading this Marian, I am suggesting that you come for a visit! We've been tracking your adventures throughout Australia and are looking forward to hearing more about them over the dinner table :O)
..
Það er því nóg að gera á næstunni. Höfum heldur ekki alveg legið í leti síðustu vikur. Um síðustu helgi var Blues og Jazz hátíð í Lúxemborg! Algjörlega frábært dæmi. Minnti mann á menningarnótt heima, bara einhvern vegin (sorrý) þúsund sinnum skemmtilegra...

Eyddum síðan gærdeginum í bænum þar sem miðaldarhátíð var í gangi.. .. tókum reyndar bara eftir því þegar við vorum á leiðinni heim frá sjóræningaskipinu sem er rétt við bæinn. Risa leiktæki fyrir krakka og busluaðstaða. Hér eru tvær myndir teknar úr símanum, við höfum ekki alveg verið að muna eftir myndavélinni uppá síðkastið!!

Biðjum annars að heilsa öllum,

uppgefin og co.

13. júlí 2008

Maastricht.....skóóóór...

Ok, Salóme, ef þú lest þetta, ekki verða reið.

En við vorum eiginlega að finna borgina. Þá meina ég BORGINA! Skruppum í gærmorgun til Maastricht í Hollandi. Liðlega 2 klst. ferð og boy oh.. boy! Þetta er alveg borgin. Allt iðandi af mannlífi, litlum sætum verslunargötum og skóm.

JÁ! Skóm!

Í Lúx fást eiginlega ekki skór. Maður telst vera mjög heppinn að finna flotta skó hér. Svoldið eins og að vinna í lottói. Enda vantar enn aldurshóp hér inn, þ.e. háskólafólk, sem auðvitað skapar eftirspurn eftir flottum skóm ;O).

Háskólanemarnir eru sumsé allir í Maastricth. Í flottum skóm!

Mmm.. ætlum að fara bráðlega aftur og gista þá kannski eina nótt. Allir velkomnir með! ..Maastricht er alveg málið, er m.a. með 4 Michelin stjörnu veitingastaði!

Það er ansi mikið, just so you know it!! Þetta er sumsé borgin sem ég ætla að skoða miiiklu betur!

Erum sumsé bara á rólegheitarnótum þessa dagana, með eitt barn og hið ljúfa líf ræður ríkjum. Söknum auðvitað Gabríelu óendanlega mikið en vitum að hún er í frábæru yfirlæti; var í stelpupartýi í gær hjá ömmu Lallý, er á sundnámskeið og leikjanámskeiði, er á leiðinni á Krosseyri næstu helgi og nýtur þess á milli ljúfa lífsins í faðmi ömmu og afa og allra hinna sem vilja knúsa hana :O)

Erum eiginlega bara að tjilla, ekkert að frétta þannig þannig að þetta er bara svona stutt til að segja hæ!

Eitt myndaband að lokum, tekið fyrir 10 mínútum, rétt fyrir háttatíma og tiltekt.



bless í bili,
slauga og co.

3. júlí 2008

Ein í kotinu... eða svona næstum því!

Saaaaa .... lóóóóóóó.... meeeeeee


Gaaaaa.....bíjjllllllllll......laaaaaaaa

Rebekka kallar!

Allir farnir, gestir, au-pair og barn. Þ.e. eitt barn, Gabríela.

Hitt barnið, sem gengur einnig undir nafninu rauðhærði skriðdrekinn, er ein með foreldrum sínum. Hún gengur um húsið og kallar þessi tvö nöfn til skiptis. Gaaabííííjjlaaaaa.... Saaaaalóóóómeeeeee. Og enginn svarar. Fúlt. Skilin ein eftir.

Foreldrarnir hugsa sér gott til glóðarinnar og sjá fyrir sér að nú hefjist uppeldið! Það hríslast örugglega um nokkra við þennan lestur, enda jafnast þetta á við dvöl í ungliðabúðum kaþólsku kirkjunnar á miðöldum.

En það er alveg á hreinu að Salóme er saknað (og auðvitað Gabríelu líka..). Smelli hérna inn mynd sem ég fékk að stela frá Saló. Tekin þegar hún var að passa fyrir okkur á meðan við vorum í Róm:




Algjörar dúllur.. allar þrjár! Takk Saló fyrir veturinn! Hugsaðu svo vel um hann frænda minn annars kem ég og tek í skottið á þér!!!

Annars er gestagangur búinn að vera með ágætis móti. Á 10 daga tímabili voru hér í húsinu auk fjölskyldumeðlima; Sigga og Eygló, (mamma Saló og litla frænka), Sissó, Begga og Kristinn og Jón og Gullý!

Auk þeirra, en ekki á sama tímabili, fengum við Dísu, Gretti, Andreu og Emil í heimsókn.

Erum því enn í sæluvímu eftir allar þessar heimsóknir. Fyrrnefndi hópurinn (fyrir utan Jón og Gullý) var það heppinn að hann náði afmæli hertogans hér í Lúx, en þá halda Lúxarar sína þjóðhátíð. Allur bærinn var undirlagður af tónlist og partýi og endalaust gaman. Veit að ég má reikna með B&K á sama tíma að ári :O)

Gabríela er komin til Íslands og dvelur í góðu yfirlæti hjá ömmu sinni og afa. Veit að hún hefur verið að "hjálpa" Ósk með fótboltanámskeið og er nú væntanlega stödd upp í sumó í sveitasælunni. ...skal alveg viðurkenna að ég er pínu abbó ;O)

Fótbolti er hins vegar ekki mjög ríkjandi í skólanum hennar Gaby. Enda geðsjúklega amerískur skóli.. yes, há dú jú dú!

Þessi myndir segja væntanlega meira en mörg orð!













Viljum svo endilega hvetja fólk til að nýta sér flugferðir til meginlandsins áður en að KREPPAN verður til þess að flugsamgöngur við Ísland leggjast af og gamli Gullfoss verður tekin aftur í notkun. Pæliði aðeins í því.. kreppa hvað!
Kveðjum héðan í bili úr Lúxuslandinu. Þurfum að huga að því hvað við gerum á morgun, frúin tók sér frí og vorum við að spá í að skella okkur til Brussel með lestinni. Vitum það ekki. En það gæti verið næs...

Þar til næst,
slauga og co.

14. júní 2008

Af hátíðardögum og öðrum dögum..

17.júní í dag..

Ekki nóg með það að við hér í Lux erum 2 klukkutímum á undan í tíma og tilveru, heldur erum við einnig á undan í stórviðburðum og höldum upp á 17.júní í dag. Þ.e. 14.júní...

Ætlum að fara á hátíð Íslendingafélagsins í Lúx sem er einhversstaðar norður í landi í klukkutíma fjarlægð. Munum við þar belgja okkur út af SS pylsum og lambakjöti ásamt því að bergja á himneskum drykkjum ættuðum úr ölgerð Egils nokkurs Skallagrímssonar. Mmm.... malt og appelsín... Tökum auðvitað lagið og munum syngja og tralla "hey hó jibbíjei" í allan dag.

Ég lofa!

Smellti einni af stelpunum áðan, svona í þjóðhátíðarstemmingunni:




Annars er það auðvitað helst í fréttum að Kristján vinnur ekki lengur hjá Kúnna og Nagla og hefur því aftur hafið atvinnuleit hér í Lúxemborg. Veltir hann því nú fyrir sér hvað hann vill taka sér fyrir hendur á milli þess sem að hann kíkir á leikina í einhverri fótboltakeppni sem tröllríður öllu þessa dagana. Maður veltir því fyrir sér hvort um tilviljun sé að ræða ;O)


Rebekka er öll að koma til í tungumálinu. Tilkynnti móður sinni einn daginn þar sem hún stóð sveitt inn á baði að reyna að koma andlitinu á og hárinu í skorður að "mamma prinsessa líka..." Hversu sætt er það? Litli skriðdrekinn okkar á svona massífa smurolíu takta til og meira að segja tók kúrs í blómaskreytingu um daginn til að geta fært móður sinni gjöf á mæðradaginn hér Lúx:



...nokkur feit stig skoruð þarna :O)


Gabríela hefur hins vegar hafið meistaranám í niðurtalningu. Allt er talið niður. Það heitasta í niðurtalningu er núna hversu margir dagar eru þangað til hún fer til Íslands. Hún er með nokkrar útgáfur. Í dag eru það 13 "allir"-dagar eða 9 skóladagar. Mikill spenningur fyrir að koma heim og hitta alla! Hún er að sjálfsögðu búin að bóka ferð á Krosseyri og auðvitað í sumó hjá ömmu og afa. Hún ætlar í klippingu hjá Sollu frænku, sundnámskeið í afa og ömmu sundlaug og hitta Garp og Gútsí. Bið alla aðila vinsamlegast um að aðlaga sín plön að hennar ;O)


Jæja, ekki eftir neinu að bíða. Volvóinn er mættur fyrir utan og við stúlkurnar eigum að koma okkur út hið snarasta. Biðjum að heilsa öllum með ósk um gleðilega þjóðhátíð.. fjórtánda, fimmtánda, sextánda eða sautjánda júní.

Húrra!

ástarsaknaðarogalltþað..

slauga og co.

3. júní 2008

Diskó friskó...

Daginn!


Fórum í diskó partý um helgina og ég bara varð að setja inn þessa mynd.
Aðallega út af skegginu hans Kristjáns.
Hvet ykkur til að stækka myndina og skoða mottuna....

1. maí 2008

Dýrafræði..

Veist þú hvað dýrin segja?

22. apríl 2008

Óskar-listi?

Auðvitið var það Ósk sem gat listann, svona 92%.. enda enginn smá óskalisti hér á ferð. Eina atriðið sem vafðist fyrir henni var nr. 10. Þetta er "einhverja bók" :O)

..og varðandi "litla trampólínið" þá er það ekki hógværð sem spilar þarna hlutverk, heldur örvænting. Það var nefnilega búið að tilkynna henni að það yrði ekki keypt trampólín, ekki nú og ekki í framtíðinni.. erum búin að heyra aðeins of margar hryllingssögur tengdar þessu. Þá uppgötvaði hún að það er til mini-útgáfa af þessu og er að reyna að troða henni inn í pakkann... snjöll stelpa!

Annars er það að frétta að ég skaust til Parísar um helgina með stelpum úr vinnunni, voða gaman og er stefnan sett á Róm um næstu helgi! Þar ætlum við að hitta Vigga og Grétu og eyða með þeim nokkrum dögum í þessari spennandi borg. Hlakka mikið til. Ábendingar um veitingastaði eru vel þegnar!

Munum síðan keyra niðreftir til Spánar 9.maí og vera í viku hjá tengdó. Eigum von á því að Heiddi, Signý og Gulli (ásamt nýjum ófæddum erfingja) verði á staðnum og hlakkar okkur mikið til að hitta þau :O)

Þetta er svona nokkurn veginn planið fyrir næsta mánuðinn. ´

Biðjum að heilsa öllum í bili,
kv
slauga og co.

18. apríl 2008

Óskalisti Gabríelu...

Finnst rétt að þið spreytið ykkur á þessu áður en ég set inn "þýðingu"!


6. apríl 2008

Sumarið komið?

Byrjum á ljósmynd...


..eins og sést þá tók sumarið örlitla U-beygju núna um helgina! Skiptust á skin, skúrir og massíft haglél!! Erum ekki sátt!

Hér keppist fólk við að sannfæra okkur um að í fyrra hafi verið 30 stiga hiti í apríl, yeah right! Kanntu annan...

Heimsóttum nágranna okkar í dag, Gígju og Jeromie, en þau búa á horninu fyrir neðan okkur. Hún er íslensk og hann Belgi. 2 fjörugir strákar á heimilinu, Leó, sem varð 7 ára í gær og Viktor sem er rétt 2 mánaða. Leó og Gabríela náðu vel saman, horfðu á sjóræningamynd og ætla sér stóra hluti í Playstation.

Greyið drengurinn, veit ekki á hverju hann á von, hún er auðvitað búin að taka "master class" og "extensive training" hjá frú Mogensen..

Fórum í gær á skemmtilega sýningu sem heitir ca... "Mekanískir draumar Leonard De Vinci"

Þar er sumé búið að byggja slatta af þeim hlutum sem hann teiknaði, eiginlega ótrúlega fríkað að sjá hvað hann var óendanlega langt á undan sinni samtíð. Hér er linkurinn fyrir þá sem treysta sér í frönskuna.

Fleira er ekki í fréttum... ætla að reyna að enda á vídeói, sjáum hvernig til tekst!



Bæjó,

slauga og co.

2. apríl 2008

Moi buggaði í bíjinn..

..bara örstutt (af því að síðustu færslur hafa einmitt verið svo langar og ítarlegar ;O) )..

Fannst þetta bara óhemju fyndin setning sem datt úr úr fransk/íslenska barninu okkar um daginn. .. sumsé:

"Moi buggaði í bíjinn" þýðir "ég gubbaði í bílinn".. en það var mér tilkynnt í gær þegar ég kom heim. Þá hafði Rebekka fengið nóg af ógeðlsegri bensínstækju í bílnum (gat á bensínleiðslu aukabílsins sem leiddi til megnrar stækju sem var lagað í dag) og gerði sér lítið fyrir og ældi til að mótmæla þessu.

Hún er sumsé öll að koma til í orðum. Þau eru bara óeðlilega undarlega samsett í augnablikinu vegna blöndunar tungumálanna!

Moi (ég) er notað óspart
Veux pas!! með áherslu (vil ekki)
Ici, ici, ici... (hér, hérna, hér ..oft með æsingi)
Encore (aftur)
Au revoir.. gjarnan sagt þegar hún er búin að fá nóg af liðinu!
NON!!!! ...mikið notað, held að þýðing sé óþörf!

Annars er Kristján farinn að vinna hjá flutningarfyrirtækinu Kúnni og Nagli (Kuehne-Nagel.com)
...hann kemur sjálfur með ítarlegan fréttaflutning af því djobbi á næstunni. Mér færist það illa úr hendi!

Annars biðjum við bara að heilsa í bili og líka broddgölturinn sem við hittum þegar við komum heim áðan... hrikalegt krútt og var bara að tjilla við tréð!

bæjó,
slauga og co.

24. mars 2008

Páskar og París..

Nokkrar myndir:

Skruppum til Parísar á Skírdag og var ætlunin að eyða Föstudeginum langa í faðmi Dúmbó og félaga..





... hringekjurnar voru vinsælar..


Síðan komu páskarnir með tilheyrandi súkkulaðiáti... Báðar höfðu föndrað páskakörfur í skólunum og var innihaldið ekki skv. stöðlum manneldisráðs.. ekki einu sinni nálægt því!Á leiðinni heim frá París var Gabríela búin að vera að lesa fyrir Rebekku. Lestrarhraðinn er ekki orðinn mjög mikill ennþá og er greinilegt að Rebekka er alveg með það á hreinu með hvaða takti á að lesa bækur.. ég vona að þið getið opnað þetta vídeó.. þetta er fyrsta vídeótilraunin á bloggi..


Meira ekki í bili..

Gleðilega páska og allt það,

slauga og co.

26. febrúar 2008

Nýtt útlit..

..og meiri breytingar á bloggi á leiðinni.

Þurfti smá hvíld frá bloggi, byrja að krafti... bráðum!

luv
slauga