18. september 2007

Höfuðstaður Norrænna víkinga..

..öðru nafni IKEA !! Heimsótti það í dag. Ikea menn eru nú líklega rétt í þessum skrifuðu orðum að panta rauða dregilinn fyrir næstu komu mína og hafa dreift jólabónusnum snemma í ár :O)

Annars var ferð mín þangað ekki þrautalaus. Ég er búin að komast að því að orð mín hafa yfir sér nokkra spádómsstemmingu, því að ég var rétt nýlögð af stað þegar Lúxemborgari nokkur klessti aftan á mig!! ójá.. ekki var það sauðurinn frá Íslandi sem var í órétti, heldur "hinir".. Beið bara í rólegheitum eftir að komast inná hringtorgið á leið til sænska sælulandsins þegar svakalegur karl nokkur þrusaði aftan á mig og sendi mig nokkra metra áfram. Bílarnir óskemmdir og ég líka. Maðurinn var þó í taugaáfalli (gott á hann..;O) )! Er pínulítið að stirðna upp núna og verð því frekar morkin næstu daga. Mun þó reyna eftir fremsta megni að láta það ekki hafa áhrif á mig, ekki frekar en í IKEA.

Gabríela heldur áfram að blómstra hér í Lux og les enskar smábókmenntir á kvöldið áður en gengið er til náða. Blái hnötturinn tekur síðan við á kjarnyrtri íslensku og bænirnar enda síðan kvöldið áður en augun lokast.

Erum nú í óða önn að reyna að finna leikskóla fyrir rauðhærða skriðdrekann sem bíður heima. Eftir forkönnun standa tveir eftir, Kids care og síðan ... Hansel und Gretel. Ójá, það er boðið upp á leikskóla Hans og Grétu!! Bíð spennt eftir að skoða hann og sjá hvort að nornin sé leikskólastýran og brauðmolar í matinn! Mun sérstaklega skoða eldhúsið og athuga hvort að ofnarnir séu nokkuð í óðlilegri stærð... Fylgist spennt með næstu daga!!

Þá er færslu dagins lokið, ég þakka þeim sem hlýddu...

Bestu kveðjur,
slauga schumaker

Engin ummæli:

Skrifa ummæli