21. desember 2007

Jólabréfið 2007.

Kæru þið öll, til sjávar og sveita!

Í ár var ákveðið að bréfið yrði í þeim stíl sem hefur einkennt samskipti okkar við umheiminn síðustu mánuði.. þ.e. að það yrði birt á blogginu okkar.

Árið byrjaði með hefðbundnum hætti. Það blundaði þó í okkur fram eftir vori að þetta yrði ár breytinganna og viti menn, um leið og prófum lauk hjá frúnni í vor var haldið af stað á starfsmannadeild Landsbankans og þá var ekki aftur snúið. Útibússtjórastólnum var skipt út fyrir stöðu í lánadeild bankans í Lúxemborg og fjölskyldan pakkaði niður í tösku. Eða réttara sagt töskur og einn stóran gám.

Risastóran.

Reyndar var ákeðið að fá fagfólk í það þar sem Kristján áttaði sig snemma á því að það yrðu litlar líkur á því að það yrði haldið út ef frúin ætti að sjá um pökkunina. Hún er víst þekkt fyrir arfalélegan árangur á því sviði..

Kristján kvaddi Eimskip með tár á hvörmum, enda lágu fyrir breytingar á fyrirtækinu sem hann var meira en lítið til að taka þátt í. En húsmæðrastörfin biðu og karlinn tók völdin í húsinu. Að sjá um þrjá kvenmenn er heljarinnar verk. Sérstaklega ef þær eru morgunsvæfar, geðstirrðar og snúnar .. sem auðvitað engin af okkur er.. þannig að verkið var auðvitað “pís of keik”..

Gabríela stundar nú nám í International School of Luxembourg og Rebekka stundar eitthvað allt annað í leikskólanum Enfant de la Roi. Þær eru báðar sælar og glaðar með sitt og bæta við sig á hverjum degi í tungumálum og annari færni. Höfum trú á því að þær verði frekar sterkari karakterar fyrir vikið en ekki..

Frúin er síðan búin að vera í vinnunni. Áhugavert að átta sig á því hvað maður kann lítið. Þ.e. ég kann ýmislegt um aðra bankatengda hluti.. en þeir bara nýtast mér ekki þarna. Það er því nóg að læra og ekkert nema gott um það að segja.

Jólin færðust síðan nær og nær og þetta árið gerðust undur og stórmerki.

Kristján bakaði Sörur.

Já, það er engin lygi. Kannski ýkjur en engin lygi. Það eru meira að segja til myndir af honum að leggja lokahönd á meistaraverkin með hvítu “K”-i.... úr dýrindis hvítu - Odense súkkulaði!

Það er því með mikilli gleði sem frúin ákveður að afsala sér bakstri komandi jóla með þá fullvissu að þessu hljóti hann að rúlla upp. Ef maður byrjar á erfiðustu sortinni þá er hitt allt barnaleikur! Er það ekki?

Við hlökkum síðan til að takast á við nýtt ár á nýjum stað. Upplifa vorið og sumarið og vonandi verðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá góða gesti í heimsókn. Það hefur allavega einhverjum verið hótað í þeim tilgangi að ná því fram..

Við óskum ykkur síðan öllum gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs. Þau ykkar sem eru á ferð um mið Evrópu eruð vinsamlegast beðin að stoppa við á 8, rue Raoul Follereau, L-1529, Luxembourg.. og þiggja kaffisopa.

Það verða kannski kökur með.

Jólakveðjur,
Kristján, Sigurlaug, Gabríela og Rebekka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli