8. október 2007

Tengingu náð..

..og komin í samband! Fyrir þau ykkar sem vilja það vita erum við komin með Lúxembúrgískan heimasíma, númerið er 266 83449 (og muna eftir 352 á undan) en ég mæli með að fólk hinkri aðeins þar til að Kristján kemur og tengir íslenska númerið okkar við módemið. Þá er bara hægt að hringja eins og venjulega!

Í fréttum er annars það helst að vinnudýrin standa sig með stakri prýði. Þau taka upp úr kössum, skipta á bleyjum, þrífa ælur eftir börnin, skúra, keyra í skóla og vinnu, elda, lesa fyrir svefninn og rotast síðan. Lykilatriði er bara að tengja ekki sjónvarp fyrir þau strax. Halda þeim alveg á tánum... ekki fyrr en síðasti kassinn er í augsýn, þá má tengja imbann. Annars missir maður algjörlega stjórnina.

"Má ég horfa á "meeerí popinss"? segir sú eldri núna (eftir að tengingu á sjónvarpið var náð) og er farin að þróa með sé ævintýralega amerískan hreim. vonn tú þrí... mæ neim is Geibríela... Hún er annars ótrúlega aðlögunarfær og enn ekki kominn sá dagur þegar hún neitar að fara í skólann! Sjö níu þrettán..

Sú yngri tók Lúxemborg með látum. Henni halda engin bönd og ég er ekki frá því að villidýr í nærliggjandi skógum hafi ákveðið að halda sig til hlés. "ÁAI" er öskrað hérna reglulega og afinn tekur kipp. Það er sumsé verið að kalla á hann. Lúxemborgararnir halda hins vegar að hún sé að öskra "Au revoir" og brosa blíðlega að þessu hæfileikaríka barni sem er strax farið að tala frönsku. Little do they know, hún talar ekki einu sinni íslensku...

Vinnan er fín og jafnvel ívið meira en það. Ægileg gleði hér um helgina þegar hópur útibússtjóra Landsbankans mætti til að kveðja mig sérstaklega. Reyndar nýttu þeir tækifærið líka við að halda sinn árlega stóra fund, en auðvitað var lítið mál að bæta því við. Einstaklega skemmtilegt að hitta þá og tjútta með þeim svona í lok útibússtjóraferilsins :O)

Vona að allir séu hressir og glaðir heima og fyrir þá sem hafa áhuga eru til sölu tvær glæsikerrur heima, fást á ótrúlega góðum prís. Önnur er gömul og hin eldri. Hafið samband við kallinn ef þið viljið..

Bið að heilsa mönnum og músum,

slauga og co.

p.s. myndir koma síðar..

Engin ummæli:

Skrifa ummæli