27. nóvember 2007

Hvað er nýtt..?

Aðalfréttin er auðvitað sú að ...

...pössuninni um næstu helgi hefur verið reddað. Það er engin önnur en frú Lára Clausen sem mætir til leiks! Það kom í ljós að það var undarlega ódýrt að fljúga á milli Alicante og nálægra flugvalla við Luxemborg (reyndar ekki til Lux). Reyndar var það svo ótrúlegur prís að það er spurning hvort að flugbúnaður á vélinni sé í líkingu við hjólabúnað Flintstones bílanna… hmmm?

Eftir að hafa fattað þetta munum við einskis svífast við að flytja inn maddömmuna þegar þurfa þykir! Hún mun því mjög líklega fara í felur á næstu mánuðum….! Það verður allavega mjög gaman að sjá frúnna og er Gabríela að fara á límingunum og getur varla beðið eftir að fá ömmu í heimsókn. Skilur samt ekkert í því að afi komi ekki líka, vill helst að við látum sækja hann með þyrlu út á sjó!

Ferðinni er annars heitið til Barcelona þar sem vinnutilgangi verður blandað við almennan skemmtanatilgang. Verður án efa mjög skemmtilegt og gaman að fá tækifæri til að kynnast starfsfélögunum og mökum þeirra betur! Þetta verður vonandi líka góð afslöppun með lítilli verslun þar sem að frúin tæmdi verslanirnar í Kaupmannahöfn um daginn… Skilst reyndar á Kristjáni að hann ætli í Spa með stelpunum á laugardagsmorgun... það verður áhugavert..

Síðan er á döfinni Gala-jólakvöld í frönskum kastala þann 8.desember. Er búin að biðla til óska-Spánverjans um að koma í helgarferð til Lux, en hún þykist hafa öðrum hnöppum að hneppa ;O) Skil það reyndar vel, erfitt að fá helgarfrí þegar lítið kríli er komið í heiminn þar! En boðið stendur ennþá fröken !!

Á föstudagskvöldið síðasta var reyndar kvennakvöld bankanna sem í þetta skipti var haldið hjá Glitni. Ofboðslega flott hjá þeim og skemmtilegt. Leynigestur kvöldsins var síðan Jónsi úr Svörtum fötum, sem söng og trallaði það sem eftir lifði kvölds…!

Gabríela fór í afmælisboð á laugardaginn á meðan við fórum til Belgíu og keyptum eitt stykki þvottavél. Það hefur nefnilega komið á daginn að þvottavélin okkar heldur að hún sé uppá punt. Hún svosem tekur við þvottinum, veltir honum til og frá ... en virðist samt ekki vera fær um að ná einum einasta bletti úr ... Mamma hjálpaði síðan til við að brjóta vélina niður andlega með að segja marga ljóta hluti í nærveru hennar. Eftir það hefur vélin bara ekki jafnað sig.

Ákváðum því að skipta yfir í Siemens með hrækiprógrammi eins og mamma á... (fyrir þá sem ekki vita hvað hrækiprógramm er, skal það upplýst að það er 15 mínútna ofurprógram à la Siemens, hafði ekki mikla trú á því í fyrstu en er nú einlægur aðdáandi þess eftir að hafa búið í sama húsi og umrædd vél í nokkrar vikur..). Fáum vélina á morgun (hér gerist EKKERT samdægurs) og taka þeir gamla hróið með.

Þeir eru ægilega duglegir Lúxembúrgarnir í svona umhverfisvitundarverndardæmi... bjóðast alltaf til að sækja gamla eintakið þegar verið er að skipta út.. Spurning hvort að það sé sambærilegt í boði við skilnaði? “Við sækjum bara kallinn um leið og við komum með nýja eintakið.. ;O) “

Erum síðan búin að fá bílinn okkar! Loksins!!!! Þeim tókst auðvitað að klúðra smá með því að setja VITLAUSAN lit á bílinn!! En mig hefur svosem alltaf langað í bleikan bíl. Á eyrnalokka í stíl. Hann er allavega æðislegur að innan...

Erum síðan farin að telja niður til Ameríkuferðarinnar!! Óbojj hvað verður gaman! Fyrir þá sem ekki vita ætlum við familían að fara til Bandaríkjana margumtöluðu og eyða þar jólunum með Sveinka, Kollu, Jóu, Gunna, Leibba, Steina og Gunnari Finni. Verðum í kuldanum í Stowe, Vermont og verðum “aðeins” búin að safna um 300þúsund krónum í sameiginlegan matarsjóð þegar við förum. Alveg spurning hvort að það dugi fyrir ca 10 daga!!!!!!!!!!!

Er síðan á leið í jólaföndurdæmi með "Lísunum" en það er hópur íslenskra kvenna sem tengjast Landsbankanum með einum eða öðrum hætti. Ætla mér að búa til einn aðventukrans.. vona að það heppnist þrátt fyrir að ég sé ekki með mömmu mér við hlið ;O)

Vona að allir hafi það gott... við erum allavega ekki illa haldin! (það verður yfirvigt um jólin.. bara ekki í töskunum!!!!!!!!)

Ástarkveðjur,
slauga og co.

p.s. bílinn er auðvitað ekki bleikur, hann er silfurgrár, átti að vera brúngrár... ;O)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli