5. október 2011

Eiginkona ársins!

Rekur nú væntanlega einhvern í rogastans.

Ekki láta þó titilinn blekkja ykkur, þar sem hér á eftir fer (ekki) lofsöngur um síungan eiginmann minn sem á, ótrúlegt en satt, afmæli í dag.

Kristjáni er margt til lista lagt eins og flest ykkar vita. Hann er frábærlega skemmtilegur félagi, æðislegur kokkur, skemmtilegur pabbi , uppáhaldstengdasonur (ekki fleiri til...) og svo auðvitað augasteinn móður sinnar.

En af því að mér finnst skemmtilegra að benda á hina hliðina, þá skulum við rétt aðeins staldra við.

Þegar ég fyrst kynntist Kristjáni þá tilkynnti hann mér að þetta væri útúrpælt hjá honum að yngja upp strax (!) Svona eins og að það ætti að veita mér einhverja tryggingu.

Í dag er hann þó hlutfallslega minna eldri en ég heldur en hann var fyrir 13 eða fjórtán árum síðan (voru það kannski fimmtán? man aldrei hvaða ár við hittumst, þarf alltaf að spyrja Roald..).  Hann hefur jafnframt eitthvað yngingarelement við sig og er nokkuð naskur á að velja sér ekki svona "gömlu karla föt", þannig að gífurlegt aldursbilið er ekki að trufla mig, ennþá.

Talandi um föt. Kristján er þessi týpa sem elskar einkennisklæðnað. Hann hefur ótrúlega þörf fyrir að eiga átfittið í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur, jafnvel þó um sé að ræða tímabundið áhugamál. Skátarnir, golfið, skíði, hjólreiðar og hlaup. Mamma hans sagði einu sinni að Kristján hefði sómt sér vel í hernum (hjálpræðis?) af því að hann elskaði einkennisbúninga...  Greyið hefði bara átt að læra á lúður, þá hefði hann verið set for life hérna með Lúxembúrgísku lúðrasveitinni. Þeir eru í svaka júniformi og spila reglulega í götunni hjá okkur.

Ef hann hefði lært á lúður þá hefði hann ekki heldur þurft að læra neina texta (erfitt að blása og syngja). Kristján kann nefnilega enga texta. Þá meina ég enga. Ekki einu sinni textann við „Góða mamma..“ sem ÖLL börn á Íslandi læra fyrir 6 mánaða aldur.  Þetta er eiginlega magnað, sér í lagi af því að það virðist á engan hátt halda honum frá því að syngja með.  Hátt.  Hann er líka sonur hennar Lallý sem syngur þindarlaust, en munurinn er sá að hún kann texta. Það eru þó helst textar með Britney Spears sem virðast síast í gegn hjá drengnum, en þar komum við að næsta elementi.

Píkupopp. Frá helvíti. Kristján elskar þær allar. Hvort sem þær heita Britney, Rihanna, Pink eða Katy. Hann elskar þær skilyrðislaust. Og kann hluta úr viðlögunum.  Veit ekki hvað þetta er, en stundum hef ég pínu áhyggjur.

Hann er nefnilega sirka alltaf 23 ára í anda.  Rétt eins og forgjöfin hans í golfi.

Sem gerir mig 14 árum eldri en hann... ætli hann sé ekki örugglega búinn að gleyma þessu með að yngja upp?

Til hammó með ammó.. elsku gamli kall...

Þar til næst...

1 ummæli: