21. nóvember 2011

Dómsdagur með ostum.

Já gott fólk,
það er komið að því.

D-day, dómsdagur, endalok alls þess sem er gott og sætt og ljúffengt í þessum heimi.

Á morgun verð ég sett eins og hamstur á hjól til þess eins að fá staðfestingu á því sem ég nú þegar veit.

Grátlegt líkamsástand mitt verður krufið til mergjar.

Hugmyndin er svosem góð og flest allir í vinnunni eru farnir að mæta þarna í veröld Satans. Á hverjum degi er alltaf einhver til fyrirmyndar og púlar sér út. Hjólar, lyftir, hleypur og lýgur því stanslaust að öllum sem heyra vilja hversu frábært þetta er.

Ok, fínt. Ég er alveg til í að vera með í klúbbnum, en það var áður en ég frétti það að til þess að mega fara í sturtu í þessum undirheimum Hadesar, þarf maður að undirgangast próf.

Ostaprófið. Sumir vilja kalla það fitubolluprófið, en hitt hljómar betur. Hvaða ostur ertu?

Á morgun er sumsé mitt próf. Framkvæmt af sadískum, hollenskum (sumir Hollendingar hata ennþá Íslendinga eftir Icesave og þessi flokkast þar undir) líkamsræktar-na####a.

Ég mun flokkast sem feitur gouda, og nota bene, gouda er til í allt að 48% hér í Lúx.

Finnst reyndar ótrúlega ómerkilegt af þeim sem skilgreindu fituskalann að búa ekki auka ramma á milli "average" og "obese". Hverskonar rugl er það? Já.. þú er svona í meðallagi.. en þú þarnað ógeðið þitt sem slysaðist einu prósenti hærra, þú ert bara obese! Ullabjakk!

Það er sumsé ég á morgun. Fröken obese.

Er núna að fara yfir litgreiningar palettuna til að finna út hvaða litur klæðir rautt best.

Ég nefnilega verð rauð í framan. Ekkert lítið sko. Heldur þannig að fólk stoppar mig gjarnan og spyr hvort að það sé allt í lagi með mig. Gerist á mínútu 3 og er hræðilegt. Fer á mínútu 300.

Hugsið tómat.
Teiknið á hann andlit.
Það er ég.

Það sem fylgir svona átaki gjarnan er síðan bætt mataræði. Hef svosem engar sérstakar áhyggjur þar. Er að borða viðbjóðslega hollt eftir að grænmetisvagninn hóf vikulega innrás sína.... en ég hef smá áhyggjur af namminu.

Ég var nefnilega á Íslandi.

Fór auðvitað í Krónuna og Bónus og keypti upp lagerinn af rauðum möndlum og hrískúlum.

Get ekki EKKI borðað það. Það væri bara móðgun.
Ekki er hægt að geyma það því að það stríðir á móti öllu sem ég hef tamið mér.
Og ekki er hægt að henda því (maður hendir ekki dýrgripum).

Vandamálið sem ég stend því frammi fyrir núna er eiginlega hálfgert keppnis.
Þarf hvort eð er að koma mér í keppnisgírinn.

Klukkan er núna níu um kvöld. Testið er klukkan tólf á morgun. Sem gerir 15 klukkutíma.

4000 hrískúlur og 2000 möndlur.

Babysteps...

Þangað til næst...

1 ummæli:

  1. Nafnlaus9:49 e.h.

    Asskotans dugnaður er þetta!
    Verður þetta núna eitthvað hitaeiningamegrunarblogg...shit

    SvaraEyða