1. nóvember 2011

Ísland, sækjum það... með ferðatösku og yfirvigt!

Það stefnir í Íslandsferð hjá frúnni.

Sem í flestum tilfellum þýðir yfirvigt á leiðinni tilbaka.

Yfirvigtin splittast í tvennt. Hluta af henni ber ég innanklæða, réttara sagt innvortis eftir ofát og belgingu vambar á tímabilinu. Síðan er hinn hlutinn sem er klárlega ekki minna mikilvægur.

Birgðaflutningur.

Fyrir þau ykkar sem haldið að allt fáist í útlandinu, skal það hér með leiðrétt. Það er rangt.

Helstu útflutningsvörur eru eftirtaldar:

Cheerios.
Efst á listanum. Þetta stöff er eins og gull. Höfum átt viðskipti með þetta hér úti. Á meðan hlutabréfavísitölur heimsins hríðféllu, stóð Cheeriosið óhaggað. Fæst ekki úti nema með sykurhúð helvítis.

Royal búðingur.
Þarf eitthvað að útskýra þetta? Hvernig á maður að neita börnum sínum um hlut sem geimvísindalega sannar að hamingju er að finna í skál?

Rauðar möndlur.
Það þarf þó að vanda sig við þennan lið. Hef Freyju menn grunaða um að setja gölluðu, allt-of-linu, möndlurnar í risa poka og selja í fríhöfninni. Hef nokkrum sinnum talið mig vera komna til himna, með slíkan risapoka læstan á milli krumlanna. En vonbrigðin hafa verið í réttu hlutfalli við stærð pokans. Linar og lélegar. Ég ét þær nú samt... maður hendir ekki svona hlutum, en rétta aðferðin er að kaupa litlu pokana (sem fást ekki í flughöfninni) og pakka þeim áður en farið er af stað. Bara nógu marga pakka.. með grjóthörðum og dásamlegum möndlum.

Hrískúlur frá Freyju.
Dásamlegt stöff. Er viss um að þær eru sannanlega í boði á himnum. Fullkomið jafnvægi  milli hrískúlu og súkkulaðis. Ekki þessi súkkulaðihryllingur sem er í boði í hjá N&S. Erum ekki sammála þarna hjónin (frekar en oft áður).. þar sem hann er aðdáandi nóakroppsins.  Éttu þá bara þitt stöff sjálfur vinur og láttu mitt í friði!!!

Hangikjöt og flatkökur og skyr.
Besta máltíð í heimi. Þarf smá lagni til að koma skyrinu ósködduðu.. en það er sko samt hægt. Erum ókrýndir meistarar í skyrútflutningi. Skil ekki afhverju við erum ekki á opinberum lista yfir útflutningsaðila skyrs.

..og þá er það cirka komið. Auðvitað dettur ýmislegt í töskuna.. en þetta eru lykilatriðin að hamingjunni í Lúx. Minni alla þá sem hyggja á heimsókn til okkar að athuga birgðarstöðu heimilisins í samræmi við ofangreint og koma okkur á "óvart..".

Þess á milli verður maður bara að láta sér nægja annars flokks mat. Í alvörunni, hver lifir af gæsalifur, strútskjöti, ostrum, ostum og sniglum einum saman?

Þar til næst..

2 ummæli:

  1. Nafnlaus2:01 e.h.

    Hver þarf Creme Brulee þegar hann á Royal búðing? Hver þarf belgískt súkkulaði þegar hann á Freyju hrís?

    SvaraEyða
  2. Nóa kropp rules

    SvaraEyða