26. september 2011

Twentyfourseven?

Einu sinni hélt ég að allt væri fullkomið í útlöndum. Að öll framfaraskref sem tekin væru á Íslandi væru að fordæmi einhverra annarra. Getur svosem vel verið, en þeir sem tóku þau skref voru ekki að horfa til Lúxemborgar. Svo mikið er víst!

Ekki það að allt sé betra á Íslandi, ónei.. en sumt, já sumt mættu Lúxararnir alveg taka sér til fyrirmyndar.

Á laugardaginn var ákveðið að fara með Gabríelu upp á spítala þar sem hún leit út eins dalmatíuhundur, nema með rauða flekki í staðinn fyrir þá svörtu, og varirnar á henni voru skyndilega orðnar svo útblásnar að Angelina Jolie hefði skammast sín niðrí tær!

Eftir 3 tíma bið á spítalanum var loks komið að henni (já ég veit, þetta er alveg eins og Íslandi, bíðið bara aðeins..) og eftir skoðun hjá útúrþreyttum lækni var niðurstaðan: "Urticaria". Það útleggst á íslensku "bráðaofnæmi eða ofsakláði", skv. doktor.is

Og þá var það apótekið. Einmitt. Lyf og heilsa? Opið 24/7?
Nei.
Aldeilis akkúrat ekki.
Apótek eru auðvitað bara opin frá 9-6 virka daga og 9-12 um helgar. Afþví að þá verður fólk veikt.

Af góðmennsku sinni ákveða Lúxarar þó að hafa kannski eitt opið í borginni á öðrum tímum. Já þú last rétt: EITT. Þegar þú ert síðan búin að versla lyfin (eftir ca. klukkutíma bið) þá þarftu að borga aukalega 5 evrur í sérstakt utan-venjulegs-opnunartíma-gjald. Gjaldið hækkar síðan í 10 evrur ef það er stórhátíð. Yep, er ekki að ljúga. Halló 1982.

Að Gabríelu er það svo að frétta að hún lítur ennþá út eins og blettatígur, en þetta getur víst varað í marga marga marga daga... Ofnæmispróf verða heldur ekki framkvæmd nema að þetta komi fyrir aftur.

Rebekka reyndi að vera með í útlitsstemmingunni og fékk moskító til að bíta sig í andlitið. Hún lítur núna út eins og Mickey Rourke.. öðrum megin. Er nokkuð sæt hinum megin..

Þar til næst..


2 ummæli:

  1. Ohhhw, greyið Gabríela. Vona að þetta vari ekki-svo-marga daga :S

    Og já, það er ansi margt þjónustu-tengt sem er milljón sinnum betra á Íslandi en í Lúx.

    SvaraEyða
  2. Allt að gerast í LUX

    SvaraEyða