3. nóvember 2011

Ömmur

Eitt af því sem er ekki sjálfgefið, er að fá að kynnast ömmu sinni.

Ömmur eru, skv. skilgreiningu minni, mjúkar konur á sál og líkama, sem hægt er að sækja óendanlega ást og visku til. Þær kunna allt. Þær kenna manni að leggja kapla og spila spil. Þær vita allt sem þarf að vita og meira til. Ég átti tvær ömmur, önnur dó þegar ég var 16 ára en hin daginn eftir 17 ára afmælisdaginn minn. Ég fékk því ekki að kynnast þeim með þeim hætti sem ég hefði viljað. Óteljandi spurningum er enn ósvarað, spurningum sem ég hafði ekki rænu á að spyrja fyrir sautján ára aldurinn.

En af hverju er ég að skrifa um ömmur? Jú, af því að fyrir stuttu dó ein amma. Ekki amma mín, heldur amma hennar Auðar vinkonu minnar. Ég og Auður vorum bestu vinkonur í MR og höfum haldið vinskapnum áfram, þrátt fyrir að það líði núna lengri tími á milli þess sem við hittumst. Ein í Lúx og hin í Köben.  En ég var líka vinkona ömmu hennar. Amma hennar hét einnig Auður og var kjarnakona. Hún vann á sínum yngri árum í Landsbankanum og þannig fundum við samnefnara okkar. Og svo vorum við auðvitað báðar miklar vinkonur dótturdóttur hennar og aldursbil var ekki til.

Hún kom ósjaldan og kíkti á mig þegar ég vann í Landsanum. Hún var með sterkar skoðanir á því hvernig hlutirnir ættu að vera, hún var stolt af mér, gaf mér góð ráð og mér fannst óendanlega gott að knúsa hana þegar ég hitti hana. Hún hafði alltaf áhuga á því sem ég var að gera og ég veit að hún fylgdist með mér eftir að ég flutti út. Hún var þessi eiturhressa týpa sem var algjörlega "on top of things". Það var ekkert sem hún var ekki með á hreinu. Hún var einstök. Hún var holdgervingur Ömmunnar.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst henni.

Legg til að þið knúsið ömmurnar í kringum ykkur...

Þar til næst..

p.s. ykkur er alveg óhætt að knúsa afana líka....

1 ummæli:

  1. Nafnlaus11:46 e.h.

    Takk Silla mín. Fallega skrifað og hittir í mark. Hún var svona, alltaf, Knús, Inga (mamma/amma)

    SvaraEyða