19. október 2011

Morgunstund gefur gull í ..? hvað? ekkert!

Fyrir ykkur óþolandi morgunhanana er best að hætta hér. Takk fyrir lesturinn.

En fyrir hin ykkar sem eruð með mér í liði, þá er þessi pistill tileinkaður okkur sem finnst lífið betra.. eftir hádegi.

Ég veit ekki alveg hver byrjaði á þessu rugli, að rífa fólk upp á rassgatinu í morgunsárið og henda því út í náttmyrkrið. Ég meina, afhverju ekki að bíða eftir birtunni? Er það eitthvað verra?

Ég veit líka að ég er ekki ein í þessu. Ég á tildæmis bróður sem hefur séð sólarupprás bara af þeirri einföldu staðreynd að það birtir ekki fyrr en um 11 leytið á Íslandi á veturna.

Var ég ekki líka örugglega búin að minnast á að ég er gift Kristjáni. Hafið þið hitt Kristján?

Morgunglaðari persónu er líklega ekki hægt að finna. Finnst trúlegt að nokkrir fuglar, hérar og íkornar  úr Disney flögri, hoppi og skoppi í kringum hann á morgnanna (á meðan ég lúri ásamt hinum illfyglunum úr sömu verksmiðju). Hann er þessi ótrúlega hressa týpa og tilbúinn í daginn. Og svo þarf hann ótrúlega mikið að tala. Er eiginlega ekki að meika það. Sé ekki tilganginn með því að eiga samtal við yfirhöfuð einhvern á morgnanna. Ég held því raunar fram að það sé ekki hægt að segja neitt gáfulegt á morgnanna, nema að maður sé hreinlega að lesa upp texta sem var skrifaður kvöldið áður. Því er best að þegja.

Besta morgunsamband sem ég hef átt var veturinn þegar Gunni bróðir var í Stýrimannaskólann og ég í MR.  Fékk iðulega far með honum á morgnanna. Það fyrsta sem var umlað út úr sér var jafnframt það síðasta. Nokkurs konar ígildi kveðju þegar rennt var upp að Menntaskólanum.  Fullkomið. Fullkominn skilningur beggja aðila.

Á morgun þarf ég svo að vakna ógeðslega snemma. Sirka kl. 6.15. Það er nefnilega afmæli á heimilinu þegar hin yndislega en jafnframt morgunfúla barnið mitt hún Rebekka verður 6 ára. Hún er eins og ég: getur-ekki-opnað-augun.

Nema þegar hún á afmæli. Þá vaknar hún eldsnemma og vill fá pönnukökur.

Og hún fær þær.

Jafnvel þótt móðirin muni líta út eins ofnbakaður karfi sem enn hefur ekki opnað augun, þar sem hún ráfar um í eldhúsinu með spaðann að vopni og reynir að blanda hráefnunum saman með hálfa meðvitund.

Fer snemma að sofa í kvöld.

Þar til næst...

3 ummæli:

  1. Nafnlaus2:52 e.h.

    Ég er svo algjörlega á sama máli, þegar Nonni sprettur fram úr rúminu um 7 leytið um helgar (já, um helgar), þá held ég áfram að lúra á mínu græna fram eftir morgni. Nonni skilur ekkert hvernig ég "nenni" að sofa svona lengi, en ég skil hinsvegar ekkert hvað hann hefur að gera fram úr rúminu svona eldsnemma morguns :)
    Adi, Jóhanna

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus1:32 f.h.

    Við sem höfum alltaf verið taldar líkar en vá þarna erum við svart og hvítt!:)

    Var að tala við ma og pa og mikið hlakka ég til að sjá myndir úr afmælinu hjá Rebekku:)

    Knús og kram
    Ósk

    SvaraEyða
  3. Kolla Svala12:10 f.h.

    Alveg sammála. Vill helst ekki tala við neinn fyrr en fyrsta kókin er búin (ekki bara opnuð heldur búin). Steven vaknar klukkan 5 á morgnanna til að sleppa við traffík, held hann hafi bara gaman af að vakna svona snemma. Syngur í sturtu, skellir skúffum og þrammar um gólf. Vá hvað ég verð pirruð þegar hann vekur óvart Ólíver og fer svo í vinnunna og skilur mig eftir með barnið þar til Xenia kemur um 7:30 leytið. Ég hef samt lært að þykjast vera hress fyrir Ólíver greyjið, óþarfi að garga á 2 ára barn. Guði sé lof fyrir Mikka mús myndir og Sesame street. :)

    SvaraEyða