11. október 2011

Innrás Smjattpattana..

Þegar ég var lítil elskaði ég Smjattpattana. Söng hástöfum með og fílaði þetta í botn. Fannst Lúlli laukur fyndinn en Pála Púrra eitthvað hálf misheppnuð. Ég kunni líka Grænmetisvísuna úr Dýrunum í Hálsaskógi utan að.

Í stuttu, ég kunni öll lög um grænmeti sem voru í boði en heilaþvotturinn virkaði illa. Var ekki alveg að fíla að borða þetta. Einbeitti mér frekar að kókópöffsi og kókómjólkinni (með tilheyrandi afleiðingu, I do realise...).

Ég hef þó á síðari árum lært að meta þetta græna. Finnst það eiginlega bara orðið nokkuð gott. Er líka svo ægilega meðvituð eitthvað um hollustuna að mér fannst tilvalið að gerast áskrifandi að bíóvænni grænmetiskörfu vikulega. Tók bara samt minnsta skammtinn, svona á meðan ég væri að prófa.

Í hverri viku streymir því inn á heimilið, fyrir 18 Evrur eða svo, heill helvítis hellingur af þessum fjanda.

Í alvöru. Það er einhver takmörk fyrir því hvað hægt er að upphugsa af uppskriftum. Var með 7 kúrbíta í grænmetisskúffunni í dag, eldaði úr fjórum þeirra. Geri aðrir betur.

Spínat einhver? Hnúðkál? Radísur, Hokkaido grasker, maísstönglar (með hýðinu og alles) eða lauk? Sveppi eða salathaus? Tómat og púrrulauk. Eggaldin..?

Vanþakklæti hugsa örugglega einhverjir núna. Á meðan Ísland flytur inn "ofurþroskað" grænmeti vogar hún sér að kvarta.

Ekki misskilja. Ég var geðveikt spennt í byrjun. En þegar að heimilið sem hatar paprikur fékk 5 stykki á 8 dögum þá þarf eitthvað að endurhugsa þetta. Og mér finnst meira að segja gaman að elda. Búin að elda fennel pasta, fennel fisk og fennel pasta aftur. Það var kúrbítsofnréttur í matinn í kvöld. Brokkólísúpa í síðustu viku og graskerssúpa þar áður. Búin að súrsa paprikur (fyrir Raclette seasonið skiljiði..). Ég elda og elda eins og skrattinn sjálfur sé á eftir mér, en það sér ekki högg á vatni. Og á hverjum þriðjudegi bætist við.

Vil ekki gefast upp á þessari hollustu, en ég held að herra google sjálfur sé orðinn leiður á þessu. Er búin að gúggla allar grænmetisuppskriftir algeimsins.

Ekki einu sinni reyna að benda á frystinn. Það kemst ekki meira inn í hann. Ekki ein baun (bókstaflega).

Ætla að halda áfram aðeins lengur, en ef ég sé bangapabba koma raulandi: "Gott er að borða gulrótina.. grófa brauðið steinseljuna.." þá er jafnlíklegt að ég dúndri í hann graskerinu og troði uppí hann gulrótunum og að ég taki undir sönginn..

Þar til næst...

p.s. í ískápnum eru núna eftirfarandi hlutir, óeldaðir:

  • Hokkaido grasker
  • kúrbítar
  • sveppir
  • púrrulaukur
  • tómatar
  • nokkrir maísstönglar
  • eggaldin
  • salathaus
  • risaskammtur af risaspínati
  • gulrætur
  • agúrka
  • steinselja 
  • laukar, gulir og rauðir
  • hnúðkál
Uppskriftir óskast... 

5 ummæli:

  1. Ég þakka bara fyrir að vera að heiman, of mikið af grænú dóti. Ekki einu sinni rucula þarna

    SvaraEyða
  2. Er með eina góða fyrir spínatið sem heitir "kæfið prestinn" eða Strozzapreti, Spínatbollur með ríkotta osti-
    algjör snilld

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus11:48 f.h.

    Aumingja börnin.........

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus6:34 e.h.

    Ég myndi leita mér að góðir ratatouille uppskrift, gætir prófað þessa: http://acme.to/uppskriftir/archives/005244.php

    Kveðja Linda

    SvaraEyða
  5. Nafnlaus6:45 e.h.

    Fann aðra síðu þar sem ratatouille er eldað eins og ég man eftir því, ummmmm:

    http://bulleetblog.canalblog.com/archives/2009/07/17/14428335.html

    Kveðja Linda

    SvaraEyða