3. október 2011

Móðir ársins..

Þegar kemur að barnauppeldi er ég margfaldur handhafi titilsins "Móðir ársins". Hef einnig samtvinnað það titlinum "húsmóðir ársins" þegar ég ræktaði milljarða af litlum pöddum í eldhúsinu.. en það er önnur saga.

Ég er þó ekki viss um að börnin mín hafi verið spurð álits... þ.e. þetta með móður-titilinn.

Fyrir utan smáatriði eins og að:

  • týna Rebekku í Maastricht
  • vera spurð að því á leikskóla þegar ég sótti barnið mitt hvort ég væri skyld því og mætti sækja
  • muna ekki hvort börnin mín hafi fengið hlaupabólu
  • gleyma að senda inn sjúkrakortið í skólann og fá skammir fyrir
  • finnast iðulega allt fyndið sem þeim finnst hræðilegt, eins og þegar þær breyttust útlitslega í skrímsli, báðar tvær í síðustu viku..
..þá tókst mér núna að gleyma að fara með Gabríelu í bólusetningu. Fór með hana til læknis fyrir viku og spurði lymskulega hvort hún gæti ekki þrumað í hana eins og einni bólusetningarsprautu þar sem við hefðum átt að koma með hana í sprautu 2 af 3 í lok ágúst. Fékk stíft augnaráð frá lækninum sem stundi og tjáði mér að þetta væri hið alvarlegasta mál. Þetta væri bara næstum allt of seint. Tók síðan nokkrar sekúndur í að stara á mig, en ég starði bara á móti.  Síðan henti hún mér út og skipaði mér að panta tíma hjá sér í snarhasti. Sem ég og gerði.

Mánudagur kl. 9. (heilinn: þriðjudagur kl. 9). Heilinn hjá mér ákvað sumsé að þetta væri á þriðjudegi.

Fékk síðan símtal í dag frá Gabý (hvað var ég að spá þegar ég lét hana fá gemsa?):

"Mamma". "Er þetta að segja þér eitthvað: læknir..sprauta..mánudagur..?" 

Hún talaði við mig í tón sem gaf í skyn að móðir hennar væri fæðingarhálviti. 

"Litli rugludallurinn minn. Þú hefur rangt fyrir þér. Þú ert nú aldeilis að rugla litla ruglukellingin mín. Mamma veit best. Þetta er á morgun."

Ég ætla ekki að lýsa næsta símtali sem átti sér stað eftir að hún fann miðann þar sem að tíminn stóð samviskusamlega skrifaður á.

Móðir ársins.

Er núna búin að fá nýjan tíma og Gabríela skrifaði það samviskusamlega inn á dagatalið. Hún andvarpaði líka stundarhátt og leit á systur sína. Veit hvað hún var að hugsa. 

"Eins gott að ég er hérna greyið mitt. Þetta er allt að fara í rugl."

Þar til næst...


3 ummæli: