1. desember 2011

Jóla(ó)undirbúningur.

23 dagar til jóla og það gæti verið apríl fyrir mér.

Í alvöru. Er að missa stig úr jólahúsmæðrakeppninni hraðar en þú getur sagt whatshallmacallit.

Það er ekkert jólaskraut komið upp. Meira að segja fólkið við hliðina á okkur sem er korter í lummó og á ekki sjónvarp er búið að missa sig í úti-jólaskreytingum (með fullri virðingu fyrir fólki sem velur að eiga ekki sjónvarp með þrjú börn sem grenja í kór...). Gatan mín er farin að blikka en það er slökkt á númer 169. Grátlegt.  

Rebekka tilkynnti mér áðan að hana langaði til að gefa jólasveininum föndrið sitt úr skólanum. Sá greinilega fyrir sér að hún væri lent hjá Skrögg-hildi Grámann þessi jól og að hún þyrfti að bjarga því sem bjargað yrði í hendurnar á einhverjum sem kynni að meta það.

Gleymdi að finna til súkkulaðidagatölin fyrir börnin mín í gær.  

Er ekki búin að baka eina sort. Ekki einu sinni búin finna eina uppskrift. Ekki einu sinni búin kaupa tilbúnar smákökur.

Þetta er samt fullkomlega út úr karakter af því að ég hef svo æði oft algjörlega misst mig um jólin.

Hef bakað eins og brjálæðingur þannig að það mætti halda að það byggi hér 17 manna fjölskylda.

Þegar ég var gjaldkeri í litla Landsbankaútibúinu í gamla daga úti á Nesi, skreytti ég stúkuna mína. Ekkert svona pínu. Ég missti mig. Það var sería utan um glerið. Það var fyrir tíma samræmdra jólaskreytinga í bankanum.

Ég verð tiltölulega anal þegar kemur jólagjafinnpökkun. Gjörsamlega tapa mér. Pappír er ekki það sama og pappír gott fólk.. hvað þá slaufan og skrautið. Ég eyði venjulega vangefnum tíma í að finna út hvernig pökkunarþemað er hver jól (ég veit... pínu klikk) og öðrum eins tíma í að finna rétta skrautið.

Hef alltaf,  (37 ár gott fólk), átt mitt eigið jóladagatal sem ég gúffa í mig eins og spenntur krakki á hverju kvöldi fyrir jól.

Ég trúi enn á jólasveininn.

En í ár. Ekkert. Ekki vottur af jólum. Zip.

Skil þetta ekki.

Kristján kemur heim á morgun og vonandi með jólaandann með sér. Hann er allavega búinn að lofa að baka Sörur í ár, en eins og allar góðar húsfrúr í Lúxembúrg vita, þá er hann Sörumeistari svæðisins.

Neyðaráætlunin verður sett í gang á morgun ef þetta lagast ekki. Elsku jólaandi. Drífðu þig bara í heimsókn. Ég lofa að taka þátt. Skal jafnvel skreyta húsið grænum greinum. Ég mun gera mitt besta í að drekka í mig jólaandann um helgina, set hreindýrahorn á hausinn og syng Jólahjól þar til ég verð rauð í framan. 

Ef allt bregst mun ég eyða einhverjum tíma í IKEA þar sem jólin byrjuðu í október. Mér skilst að enginn sleppi þaðan ó-jólaður . Vika ætti að duga mér.

Þar til næst..

2 ummæli:

  1. Ha ha... Ég er ekki farin að gera neitt heldur en rétt náði, fyrir tilviljun, í jóladagatalið fyrir krakkana. Stebbi er pínu að missa sig í jóla-útiseríunum..Held að hann hafi hrokkið í gang þegar maðurinn á móti beisiklí "upplýsti" garðinn sinn og gerði enn betur og klippti niður öll tréin svo við gætum örugglega séð ljósin líka. Annars er það besta sem ég hef heyrt er frá Kristni Ásgeirs.. Tilvitnun hefst ".jæja best að kveikja á jólaseríunni....ég er með mestu skreytinguna í götunni....nágrannnarnir eru slefandi og halda að allir dagpeningarnir mínir fari í rafmangsreikninginn....ííííííhaaaaaa" tilvitnun lokið. Ég hló svo mikið að ég hringdi í hann og hann sagði mér að hann væri með 45 metra langa jólaséríu á timer og að nágranni hans hefði bankað hjá honum í gær og beðið hann að slökkva á ljósadýrðinni því hann væri búinn að vera í stöðugu flogakasti síðan Kristinn kveikti á seríunni!!! Hann bætti því svo við að hann væri með timerinn stilltan þannig að það væri slökkt þegar nágranninn svæfi en kveiknaði um leið og hann vaknaði!!

    Gaman að lesa þetta, skemmtilegt blogg frá skemmtilegri konu :O)

    kv
    Edda

    SvaraEyða
  2. Þetta hljómar svo sannarlega ólíkt þér :)

    IKEA til þess að kalla fram jólaskapið? Úff púff, myndi ekki virka fyrir mig. Besta ráðið við jólaskapsleysi er að sjálfsögðu jóla-Tívólí en það er svolítið langt í burtu. Næst besta ráðið að mínu mati væri að taka frá kvöld fyrir fjölskylduna: slökkva á öllum símum og tölvum, kveikja á kertum og jólatónlist, baka eina smákökusort öll saman, spila e-ð skemmtilegt fjölskyldu-borðspil og horfa svo saman á e-a huggulega jólamynd - kannski Miracle on 34th Street eða e-ð álíka? :D

    SvaraEyða