14. júní 2008

Af hátíðardögum og öðrum dögum..

17.júní í dag..

Ekki nóg með það að við hér í Lux erum 2 klukkutímum á undan í tíma og tilveru, heldur erum við einnig á undan í stórviðburðum og höldum upp á 17.júní í dag. Þ.e. 14.júní...

Ætlum að fara á hátíð Íslendingafélagsins í Lúx sem er einhversstaðar norður í landi í klukkutíma fjarlægð. Munum við þar belgja okkur út af SS pylsum og lambakjöti ásamt því að bergja á himneskum drykkjum ættuðum úr ölgerð Egils nokkurs Skallagrímssonar. Mmm.... malt og appelsín... Tökum auðvitað lagið og munum syngja og tralla "hey hó jibbíjei" í allan dag.

Ég lofa!

Smellti einni af stelpunum áðan, svona í þjóðhátíðarstemmingunni:




Annars er það auðvitað helst í fréttum að Kristján vinnur ekki lengur hjá Kúnna og Nagla og hefur því aftur hafið atvinnuleit hér í Lúxemborg. Veltir hann því nú fyrir sér hvað hann vill taka sér fyrir hendur á milli þess sem að hann kíkir á leikina í einhverri fótboltakeppni sem tröllríður öllu þessa dagana. Maður veltir því fyrir sér hvort um tilviljun sé að ræða ;O)


Rebekka er öll að koma til í tungumálinu. Tilkynnti móður sinni einn daginn þar sem hún stóð sveitt inn á baði að reyna að koma andlitinu á og hárinu í skorður að "mamma prinsessa líka..." Hversu sætt er það? Litli skriðdrekinn okkar á svona massífa smurolíu takta til og meira að segja tók kúrs í blómaskreytingu um daginn til að geta fært móður sinni gjöf á mæðradaginn hér Lúx:



...nokkur feit stig skoruð þarna :O)


Gabríela hefur hins vegar hafið meistaranám í niðurtalningu. Allt er talið niður. Það heitasta í niðurtalningu er núna hversu margir dagar eru þangað til hún fer til Íslands. Hún er með nokkrar útgáfur. Í dag eru það 13 "allir"-dagar eða 9 skóladagar. Mikill spenningur fyrir að koma heim og hitta alla! Hún er að sjálfsögðu búin að bóka ferð á Krosseyri og auðvitað í sumó hjá ömmu og afa. Hún ætlar í klippingu hjá Sollu frænku, sundnámskeið í afa og ömmu sundlaug og hitta Garp og Gútsí. Bið alla aðila vinsamlegast um að aðlaga sín plön að hennar ;O)


Jæja, ekki eftir neinu að bíða. Volvóinn er mættur fyrir utan og við stúlkurnar eigum að koma okkur út hið snarasta. Biðjum að heilsa öllum með ósk um gleðilega þjóðhátíð.. fjórtánda, fimmtánda, sextánda eða sautjánda júní.

Húrra!

ástarsaknaðarogalltþað..

slauga og co.

3 ummæli:

  1. Nafnlaus9:08 e.h.

    Skreytingin slær í gegn.Kv.Jóa

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus2:54 e.h.

    hæ það eru fleiri sem eru í niðurtalningu,við hlökkum mikið til að fá heimsókn og þá vonandi fleiri en eina. kveðja afi og amma Jörfal.

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus3:36 e.h.

    ég get staðferst að amman og afinn hlakka til - hitti þau í Ikea með Gabríeluglampa í augunum.
    Óska ykkur til hamingju með allar borgirnar og þjóðhátíð Íslendinga. Með hverjum halda menn svo í LUX - er það áfram Frakkland eða heldur diskókóngurinn með sætu strákunum í Portúgal. Vonandi fær hann vinnu á góðu diskóteki að lokinni keppninni. Bestu kveðjur úr eðal íslensku gluggaveðri

    SvaraEyða