11. júlí 2014

Hopp og skopp í drullupollum!


Einhverntíman lofaði ég mér því að pólítískur pistil yrði aldrei skrifaður af mér.  Og þetta er ekki sá pistill.

Ég er bara með smá velgju hérna hinum megin við hafið, rýnandi í gegnum netgáttina til Íslands. Velgjan hlýtur að vera tilkomin af öllum þessum útlenska mat sem ég hef þurft að láta mér duga síðustu 7ár sem ég hef búið hér. Trúlega. Eða af umfjöllun um skyldur. Sér í lagi borgaralegar skyldur.

Mér finnst nefnilega ótrúlega aðdáunarvert þegar að fólk tekur það upp hjá sjálfu sér að stöðva áflog. Tekur bíllykla af drukknu fólki korteri áður en það sest undir stýri. Lætur í sér heyra þegar óréttlæti á sér stað. Eða tekur upp ruslið til að stuðla að betri stað fyrir alla. Þannig borgaralegar skyldur eru kúl og aðdáunarverðar.

Borgaraleg skylda á ekkert skylt með faglegri ákvörðunartöku þegar skórinn passar ekki. Kommon krakkar, þetta vitum við öll.  Þegar ég verð beðin um að stýra ákvörðunarhóp sem fjallar um ráðningu á næsta forstjóra Landspítalans ætla ég að segja. “Ji, en gaman. Ég er upp með mér að þið hafið haft mig í huga, ..en samt. Nei takk.” Af því að þó ég hafi ótrúlega gaman af læknadrama, hafi heimsótt nokkra úr þeirra starfstétt, hafi kannski örlítinn snefil af reynslu að stjórna smærri teymum er ég bara engan veginn hæf í djobbið. Barasta alls ekki.  Og því er rétt að segja; "nei takk" (..samt geðveikt kúl að manni hafi verið boðið giggið!).

Borgaralega skylda á heldur ekkert skylt með umsjón með þverfaglegum verkefnum ef stígvélið passar ekki. Er það borgaraleg skylda að taka að sér starf sem felur í sér fræðilega úttekt á efni sem búið er bókstaflega að spreyja með dassi af vændlætingu og pólitískum réttrúnaði. Svona ef maður sjálfur hefur haldið á spreybrúsanum?  Nei, ég segi bara svona.

Er þetta í alvöru eins og við ætluðum að plana nýja Ísland? Átti þetta ekki að verða faglegra og vandaðra og heiðarlegra.  Á ég kannski að bæta við gegnsærra? Afhverju erum við að ana fram og ráða okkur erlenda faglega ráðgjafa til að leysa úr vandanum eftir að vandinn er búinn að kremja okkur í klessu, í stað þess að fá sambærilega faglega (erlenda eða innlenda, skiptir ekki máli) áður en við hoppum aftur í sama drullupollinn.

Vona að þið séuð öll í regnkápum og stígvélum. Ég ætla að halda áfram að borða eitraða kjötið hérna úti og rýna í gegnum gáttina ríghaldandi í þá von að það stytti upp að lokum.

23. desember 2013

.. á Þorláksmessu 2013.

Jólabréfið.

Og þar kom að því. Árið sem jólakortin voru ekki prentuð.

Forgangsröðunin þessi jólin setti geðheilsu í fyrsta sæti og því varð þetta niðurstaðan: 

Rafrænt verrýmerrýkristmastújú í ár til ykkar. Og viti menn, kannski kemur prentaða útgáfan næsta ár! (lesist: ekki taka okkur af jólakortalistanum, við lofum bót og betrun!)

Hef samt ákveðið af einskærri sjálfselsku að skrifa smá pistil um afrek fjölskyldumeðlima í ár. Það er af nógu af taka, sér í lagi ef maður telur með hrakfallaafrek og vandræðaleg samfélagsmiðlunarafrek einstakra fjölskyldumeðlima. Þetta virkar líka ágætlega eins og dagbók fyrir gleymnu húsmóðurina sem man ekki á milli daga, hvað þá ára.

Af Drekanum (hundinum sko) er það að frétta að hann er jafn latur og í fyrra, aðeins minna feitur en með jafnvalkvæða heyrn. Hann hefur líka þróað með sér hjartaveiki sem hann notar til að réttlæta letina og virðist ekki skilja að virkunin gæti verið  jákvæð í hina áttina. Hann er samt óttalegt krútt og hefur náð að bræða flesta þá sem hann hittir. Nema kannski ekki nágrannakonuna til vinstri. Hún hatar hann eins og pestina.

Rebekka er eins og flestir vita snillingur á marga vegu. Hún er góð og gjafmild og mikill vinur vina sinna. Hún er líka þver eins og (..ekki hugsa ”móðirin”..plís!) naut í flagi þegar þannig liggur á henni og hefur mikla réttlætiskennd sem kemur henni oft í klandur. Hún hefur meðal annars afrekað það hafa fengið regnhlíf í augað, verið hrint niður tröppur (og mætt heim í rifnum buxum í kjölfarið) og fengið sand og lús í hárið. Bara sirka svona eins og það á að vera þegar maður er með rautt hár, freknur og átta ára. Heilsan hefur líka lagast hjá henni, en hún hefur eytt síðustu 6 árum hér í Lúxemborg með því æla og spúa eins og múkki á vel völdum augnablikum (yfir matarborð, yfir rúm, á veggi, á gólf, í bíl, í verslunum.. sjaldnast í klósett eða fötur... viljiði að ég haldi áfram?). Eftir nokkrar tilraunir í samvinnu við lækna hefur verið ákveðið að laktósi sé hennar óvinur og því er honum núna sleppt. Og viti menn.. ælusplatterinn er í fríi!

Gabríela – korter-í-unglinginn hefur færst upp á næsta skólastig hér í Lúxemborg. Hún er nú komin í Lycée og glímir þar við frönsku, þýsku, stærðfræði, unglingabólur, landafræði og önnur þau vandamál sem hrella 12 ára unglinga í hinum vestræna heimi. Hún er svo óendanlega dugleg að læra að við veltum því gjarnan fyrir okkur hvort hún hafi verið ættleidd og við bara gleymt því. Foreldrarnir kannast allavega ekki við slíka elju þegar fortíðin er rifjuð upp, en klöppum okkur sífellt á öxlina og brosum hógvært út í annað þegar henni er hrósað. Allt eins og þetta sé okkur að þakka. Hún æfir tennis og fótbolta (eins og systirin) og er að umþaðbil að tvöfalda matarreikninginn á heimilinu, sér í lagi þegar það er soðinn fiskur í matinn. Ótrúlegt hvað krakkinn getur étið.

Karlinn er ennþá að heiman. Svona oftast. Kemur samt auðvitað heim á helgum og þegar tilefni er til. Sem minnir mig á það. Hann hljóp í liða-maraþoni í Lúxemborg í vor. Hinir í liðinu voru ykkar einlæg, bróðir minn hann Kristinn og Begga mágkona. Ótrúlega gaman og allir náðu að klára sinn legg. Sem er frábært.. nú hlýtur hann að stefna á hálfmaraþon næst.. ha? Er það ekki ...? Kiddi...??  Lítið um golf í ár, þó eitthvað en meira af ferðalögum. Hann elskar t.d. að keyra um Evrópu með konuna sína, aftursætis-frammísætis-viðhliðinaásætis-bílstjóra-dauðans, sér við hlið (eða ekki) og lagði það á sig að keyra til Ítalíu í sumar þar sem við eyddum dásamlegri viku með góðum vinum.

Og nú hugsar þú, fer þessu bréfi ekki í alvöru að ljúka. Jú, það væri bara fínt. Þá þarf náttúrulega ekki að telja upp afrek frúarinnar sem felast helst í því, eins og svo oft áður, að halda titlinum ”móðir ársins” á lofti. Ég vil bara að þið vitið það að þó að maður gleymi foreldrafundum, fái lánaðan pening úr veskjum barna sinna (og gleymi að borga tilbaka) og borði nammið þeirra á kvöldin (já, þetta íslenska) gerir það mann ekki að vondri manneskju. Bara alls ekki.  Hver á gallalausa foreldra, ég bara spyr? Jesú?  Af öðrum afrekum má nefna að nýr vinnustaður tók við greyinu og þar er hún enn.  Barasta alveg eins og þegar hún byrjaði í mars (helv..-linkedin-helv..-uppfærslu-helv..-ævintýralega-klúður).

Kvöddum síðan í desember hana Sigrúnu sem hefur þjáðst með fjölskyldunni í skipulags-óreyðunni í ár. Hún er æði. Hún söng endalaust og gaf mikla hlýju til barnanna okkar. Fyrir það erum við þakklát. Og líka það að eiga hana að vini um ókomna framtíð.

Við látum þetta duga að sinni. Vona að þið hafið ekki sofnað. Í lokin, mynd af okkur sem kristallar ástæðuna fyrir því að það er ekkert vit í því að láta fagfólk taka mynd af okkur.  Fjarstýring og málið er dautt. Hvað er flókið við þetta?

Jólarafrænt-knús frá Lúx.. (og svo þið sem viljið alvöru knús þá verðum við á klakanum frá 26.desember til 5.janúar 2014).  Áhugasömum bent á að panta tíma.

9. janúar 2013

Af dólgum og kreizí kerlingum í flugi...

Alveg er ég nokkuð viss um að einhver ykkar hafið verið að bíða eftir þessum pistli. Þ.e. þið ykkar sem hafið setið með mér í flugvél. Já,viðurkennið það bara. Þegar þið fyrst fréttuð af meintum flugdólgi í vél Flugleiða þá spáðuð þið í það hvort ég hefði verið að skjótast vestur yfir haf. Þar til þið fréttuð að um væri að ræða karlmann.

Samúð mín er nefnilega líka hjá honum, en ekki bara hjá farþegunum og starfsfólkinu. Fyrir einhverja var þetta nefnilega entertainment og brjálæðislega góð saga til að segja frá.. og deila með öllum heiminum. Bókstaflega. Hann þurfti áfram að upplifa óttann, nema í þetta skipti teipaður í sætið.

Gaurinn, hann er trúlega eins og ég - held ég. Fyrir okkur flughrædda fólkið er þetta nefnilega eins og að spila rússneska rúllettu með kúlur í öllum hólfum nema einu. Líkurnar fara frá því að vera "öruggasti ferðamáti heims" yfir í fljúgandi líkkistu. I kid you not.

Flughræðsla snýst nefnilega svolítið um það að vita að þú ert ekki við stjórnvölinn. Við teljum okkur trú um að við séum öruggari í bíl sem við keyrum af því að þá erum við allavega að stýra. En þarna var hann hvorki með stjórn á farartækinu né sjálfum sér. Tvöfaldur bömmer.

Hann líklega réð bara ekki við sig. Í alvöru. Ég veit að það hljómar asnalega en mín upplifun er allavega þannig.

Sá næsti sem horfir róandi í augun á mér í flugi og segir "þú ert öruggari hér en á Reykjanesbrautinni" getur troðið þeim stóra sannleik upp þar sem sólin skín vonandi aldrei.

Það er nefnilega ótrúlega merkilegt að skynsamasta fólk (lesist: ég), missir vitið, ráðið og næstum rænuna við það að þurfa að spenna öryggisbeltið og finna vélina rúlla af stað eftir flugbrautinni.

Allt sem var pikkað upp í eðlisfræði hér í denn er farið. Út í hafsauga.

Það að læknast af flughræðslu er að sætta sig við að geta ekkert gert. Lögmál eðlisfræðinnar og líkindareikningar lúta í lægra haldi fyrir forlagatrú og fávitahætti.

Ég hef prófað allt. Trúið mér. Ég var næstum því flugdólgurinn á leiðinni til Boston hér um árið (takk Linda, takk Erla fyrir að henda mér ekki út yfir Grænlandi). Ég var kreisí, kreisí, kreisí kerlingin á leið frá Búdapest til Köben eitt árið. Ég missti kúlið (ekki eins og ég hafi haft það í alvöru í vélinni, en þið skiljið..) algjörlega síðasta sumar þegar flugmenn Icelandexpress ákváðu að þruma vélinni aftur upp 2 sekúndum fyrir lendingu í Köln. Ég svitna, skelf og stressast upp eins og enginn sé morgundagurinn við hvert aukahljóð (sem enginn heyrir nema ég), við hvern aukahristing (sem aðrir nota til að snúa sér á hinn vangann og halda áfram að slefa ofan í koddann) og við hvert dingl í bjöllunum... og stundum fer ég að gráta.

Ég reiknaði einu sinni líkurnar á því að vélin færi niður með því að telja frægt fólk sem beið eftir vélinni (really, ekki spyrja).  Fékk það út að sú vél færi niður og við yrðum öll á forsíðu Moggans.

Ég á mun verri sögur. Ætla að hlífa ykkur við þeim.

Ég fór meira að segja á flughræðslunámskeið. Einkatíma. Þeir dugðu í ca. 5 ár. Held að það hafi verið svona "best fyrir" stimpill sem ég tók ekki eftir.

Í hvert skipti sem vélardruslan lendir síðan á áfangastað, kemur skynsemin aftur í hausinn og mér líður eins og mesta fávita í heiminum...

Næst þegar þið lendið við hliðina á flughræddri manneskju, reynið þá að tala við hana um allt og ekkert. Fórnið ykkur fyrir  málstaðinn. Nema að þið séuð einungis að leita eftir frægð á reddit og þá skuluð þið fyrir alla muni hvísla reglulega "er þetta hljóð eðlilegt?"

...þar til næst..

slauga

p.s. hvað ef maður þarf að pissa eftir að vera teipaður í sætið og einnig fyrir munninn?

14. febrúar 2012

Gamalt fólk...

Það er náttúrulega alveg á mörkunum að ég fari að birta þetta. Það eru ákveðnar líkur á því að eftir lestur þessa pistils, verði ég gerð arflaus og brottræk að eilífu úr kleinulandi.

En sumu er bara ekki hægt að horfa framhjá. Það bara hreinlega öskrar á litla, sæta, krúttlega (lesist líklega: sadíska) púkann sem býr inní mér.

Ég fór í stutta ferð til fyrirheitna Íslandsins um daginn og var umvafin gamalmennum.

Hér er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ég elska gamalt fólk. Svona flest. Eins og til dæmis foreldra mína. Þau eru í raun ekki svo gömul, hef eiginlega alltaf fundist þau ótrúlega ungleg og hress.

Þar til ég sit með þeim bíl.

Ég veit að ég er bílhrædd, en gott fólk, þetta er bara svakalegt.

Pabbi er meira svona krúttlegur. Minnir mig svoldið á bíómynd, svona rétt þegar þær voru að komast í lit. Munið ekki eftir því þegar liðið var að keyra og hreyfði stýrið svona ótt og títt. Yup. Akkúrat. Það er hann. Svo er hann alltaf að segja mér fréttir á leiðinni frá Keflavík og það þýðir að hann er ekkert að horfa á veginn. En ég sit eins og með stífkrampa í baksætinu og vona bara að mamma nái að fylgjast með.

Og það gerir hún. Guð minn góður, fylgist hún með. Hún til dæmis tilkynnir honum reglulega hvort að hann viti hvað sektin sé há fyrir hina ýmsu hluti. Eins og "Gunnar, veistu hvað það kostar mikið að fara yfir á rauðu?" Í þann mund sem hann FER yfir á rauðu. Held að þetta kallist eftirvarnir.

Þetta væri svosem í lagi ef hún væri eitthvað betri. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Hún er bara ekki hótinu skárri. Ekki það að ég sé að benda neinum á neitt, en þá væri ég voða glöð ef einhver lögga vildi svona fljótlega sekta hana fyrir að tala í síma á meðan hún keyrir. Hún verður nefnilega ægilega óákveðin hvorum megin línunnar hún ætlar að vera, þannig að hún er bara cirka í miðjunni. Á tveggja akreina götu.

Ég verð líklega aldrei aftur sótt til Keflavíkur af þessum ágætu hjónum. En það þarf einhver að segja þeim þetta. Það er bara algjör tilviljun að ég sé komin 2,332 kílómetra í burtu þegar ég læt þetta gossa.

Kynntist líka lauslega öðru gömlu fólki. Fór nefnilega í ónafngreint íþróttamannvirki til að nýta hlaupabrautina í kringum yfirbyggða fótboltavöllinn. Fór með mágkonu minni. Fengum þær leiðbeiningar að við þyrftum að sýna þeim tillitssemi, sem nýta völlinn til að ganga. Það er nefnilega mökkur af eldra fólki sem gengur þarna. Hring eftir hring eftir hring.

Og við vorum að hlaupa, en treystið mér, ekki á ljóshraða.

Gömlu krúttlegu karlarnir voru algjörlega to die for. Brostu eins og sól í heiði í hvert skipti sem við mættum þeim eða fórum fram úr þeim, hvöttu okkur áfram og voru bara, í alvöru, algjörir dúllurassar. Í góðri merkingu, ekkert svona eins og þú ert að hugsa núna.

En konurnar. Jesús, María og Jósep. Ef ég á eitthvert markmið varðandi ellina, þá er það að verða ekki eins og þær. Fúlína Skúlína og Pirraða Pála. Jemundur minn.  Veit að ég er í áhættuhóp, but by the power of Grayskull, þá mun ég reyna eins og ég get að lenda ekki í þeirri deild. Ég lofa.

Ég veit samt að ef systur hennar mömmu hefðu verið þarna þá hefði þetta verið í lagi. Ef við hefðum verið fyrir þeim, hefðu þær líklega bara fellt okkur og látið okkur heyra það beint. Og svo hefðu þær bilast úr hlátri. Annars eins stuðbolta-ellismella-hópur er líklega ekki til. Vil eiginlega verða eins og meðaltalið af þeim.

Og nú má ég líklega aldrei aftur fara í þetta íþróttahús.

Gamalt fólk er samt best. Til dæmist í að baka kleinur. Og trúið mér, ég fór með fulla ferðatösku af kleinum til Lúxemborgar.

Gamalt fólk er líka ótrúlega gott í að búa til kjötsúpu og nenna að sækja mann hvert sem er (já, ég veit, tvíeggjað sverð hér á ferð). En þau er það nú bara samt. Best.

Jæja, best að fá sér kleinu.

Fæ víst örugglega aldrei aftur kleinur bakaðar af henni móður minni....

Þar til næst...

22. janúar 2012

Elsku Astrid...

.. um leið og ég þakka þér kærlega fyrir yndislegar stundir í æsku minni, þegar ég týndist í undraheimi Ronju, Línu, Míó og bróðurs míns ljónshjarta, veit ég ekki alveg hvernig ég á að orða það sem kemur hér á eftir.

Þannig vill til að ég á 6 ára stelpu sem er með rautt hár, freknur og óslökkvandi þorsta fyrir sögum. Hún telur nú, eftir sirka 2-3 ÁRA Línu tímabil að hún sé Lína. Raunverulega.

Á föstudaginn kom ég inn í herbergið hennar og sá hana hvergi. Það var af því að augnlína mín var ekki að kíkja á það sem var ofar en þeir rösku 120 sentimetrar sem hún telur nú í hæð. Hún var auðvitað búin að koma sér fyrir uppá rúmgrindinni því að það er mjög eðlilegt fyrir Línur þessa heims.

Hún svaf "öfugt" í rúminu sínu um daginn. Ég veit ekki hvernig henni datt það í hug.

Mér telst svo til að hún hafi hlustað á leikritið um Línu 20-30 sinnum síðastliðna viku.

Hún bað um apa á laugardaginn. Lifandi. Til vara vill hún hest.

Hún mætir reglulega í skólann klædd í Línukjólinn sinn og í sitthvorum sokknum.

Ég orga líklega ef ég heyri aftur söng sjóræningjana þegar þeir mæta í bæinn.

Elsku Astrid. Ég get ekki meiri Línu. Ég vona að þú skiljir það.

Við lásum líka spenntar um elsku Míó minn sem ferðaðist um Landið í fjarskanum og fundum fyrir ískaldri klónni sem tilheyrði riddaranum Kató. Það hreinlega lamaði okkur úr hræðslu.

Hún svaf ekki í viku.

Af og til skreppur hún þó í heimsókn til Maddit og Betu þar sem hún lærir nýja hluti. Var pínu stressuð að lesa fyrir hana kaflann þegar Maddit gekk eftir húsmæninum á skólanum. Hún virðist þó ekki hafa pikkað það upp ennþá.  Hún elskar þó orðið drullusokkur sem hún lærði ásamt Betu í síðustu viku.

Við erum núna að verða búnar með Maddit og Betu. Þurfum að fara að finna nýja bók. Mig langar ægilega að lesa fyrir hana Ronju, en hún er víst ófáanleg á Íslandi. (Sem betur fer?)

Er þó nokkuð viss um hvaða orð verða í uppáhaldi ef sú bók finnst.

Sagt og sungið hátt og snjallt af barninu sem getur ekki sagt íslenskt R.

Setjið franskt R í staðinn fyrir það íslenska og endurtakið nokkrum sinnum:

Rassálfar og Rebekka Ræningjadóttir.

Fyndið Astrid? Fyndið?

...já, eiginlega. Drepfyndið.

Þar til næst..

p.s. ég ætla bara að sleppa því að lesa um Emil. Tek bara ekki sénsinn.

3. janúar 2012

Áramótageit...

.. frekar en áramótaheit. Því að á þessum bæ eru áramótaheit ekki strengd.

Ég veit ekki afhverju, en líklega tengist það óstjórnlegri og ótrúlega órökvísri hjátrú.

Ég er nefnilega þannig að það jaðrar við geðveiki þegar talið berst að hjátrú.

Er ótrúlega sannfærð um að ef maður strengir þessi áramótaheit, þá sé maður að búa sér til vandræði.

Á vinkonu sem sagði mér einu sinni að hún ætlaði aldrei aftur að lýsa því yfir að komandi ár yrði það best í heimi.. af því að árið sem hún gerði það, var árið sem allt beisiklý fokkaðist upp (pardon my language..).

Ég er því sannfærð um að það myndi gerast í mínu tilfelli líka.

Ef ég tildæmis myndi segja það opinberlega að ég ætlaði að léttast um 10 kíló á nýju ári, þá myndi ég líklega enda upp sem heimsins feitasta kona, búin að bæta á mig 320 kílóum á komandi ári.

Ef ég segðist ætla að byggja sumarbústað á ákveðnu ári, þá myndi bústaðurinn væntanlega breytast í ryðgað hjólhýsi frá 1974.

En ég er ótrúlega góð í forvörnum.

Ég hugsa að það myndi liggja sirka heilt kíló af salti á gólfinu í eldhúsinu hjá mér ef það væri ekki sópað reglulega. Því að eins og allir vita á maður að kasta salti yfir öxlina á sér ef maður missir niður saltkorn. Alltaf. Er samt ekki alveg viss út af hverju, en allur er varinn góður.

Held að það sé ekki til sá viður sem ég hef ekki barið í reglulega með ákveðinni tölurunu.

Fer ekki mikið undir stiga..og siga hundinum á alla svarta ketti í nágrenninu.

Óska samt ykkur öllum gleðilegs árs og gæfu á komandi ári... og að ykkur takist að ná öllum ykkar markmiðum strengdum á þessum áramótum.

Reyni kannski að venja mig af matvendni þegar kemur að geita-afurðum á árinu, samanber titilinn.. en lofa engu. Þetta er þvílíkur viðbjóður að það er engu lagi líkt.

Ef þetta væri formlegt áramótarheit, sem það er ekki, væri líklegt að ég myndi enda sem þræll á geitabúi í lok árs. Treysti á að það gerist ekki.

Sjö, níu, þrettán.

Þangað til næst..

1. desember 2011

Jóla(ó)undirbúningur.

23 dagar til jóla og það gæti verið apríl fyrir mér.

Í alvöru. Er að missa stig úr jólahúsmæðrakeppninni hraðar en þú getur sagt whatshallmacallit.

Það er ekkert jólaskraut komið upp. Meira að segja fólkið við hliðina á okkur sem er korter í lummó og á ekki sjónvarp er búið að missa sig í úti-jólaskreytingum (með fullri virðingu fyrir fólki sem velur að eiga ekki sjónvarp með þrjú börn sem grenja í kór...). Gatan mín er farin að blikka en það er slökkt á númer 169. Grátlegt.  

Rebekka tilkynnti mér áðan að hana langaði til að gefa jólasveininum föndrið sitt úr skólanum. Sá greinilega fyrir sér að hún væri lent hjá Skrögg-hildi Grámann þessi jól og að hún þyrfti að bjarga því sem bjargað yrði í hendurnar á einhverjum sem kynni að meta það.

Gleymdi að finna til súkkulaðidagatölin fyrir börnin mín í gær.  

Er ekki búin að baka eina sort. Ekki einu sinni búin finna eina uppskrift. Ekki einu sinni búin kaupa tilbúnar smákökur.

Þetta er samt fullkomlega út úr karakter af því að ég hef svo æði oft algjörlega misst mig um jólin.

Hef bakað eins og brjálæðingur þannig að það mætti halda að það byggi hér 17 manna fjölskylda.

Þegar ég var gjaldkeri í litla Landsbankaútibúinu í gamla daga úti á Nesi, skreytti ég stúkuna mína. Ekkert svona pínu. Ég missti mig. Það var sería utan um glerið. Það var fyrir tíma samræmdra jólaskreytinga í bankanum.

Ég verð tiltölulega anal þegar kemur jólagjafinnpökkun. Gjörsamlega tapa mér. Pappír er ekki það sama og pappír gott fólk.. hvað þá slaufan og skrautið. Ég eyði venjulega vangefnum tíma í að finna út hvernig pökkunarþemað er hver jól (ég veit... pínu klikk) og öðrum eins tíma í að finna rétta skrautið.

Hef alltaf,  (37 ár gott fólk), átt mitt eigið jóladagatal sem ég gúffa í mig eins og spenntur krakki á hverju kvöldi fyrir jól.

Ég trúi enn á jólasveininn.

En í ár. Ekkert. Ekki vottur af jólum. Zip.

Skil þetta ekki.

Kristján kemur heim á morgun og vonandi með jólaandann með sér. Hann er allavega búinn að lofa að baka Sörur í ár, en eins og allar góðar húsfrúr í Lúxembúrg vita, þá er hann Sörumeistari svæðisins.

Neyðaráætlunin verður sett í gang á morgun ef þetta lagast ekki. Elsku jólaandi. Drífðu þig bara í heimsókn. Ég lofa að taka þátt. Skal jafnvel skreyta húsið grænum greinum. Ég mun gera mitt besta í að drekka í mig jólaandann um helgina, set hreindýrahorn á hausinn og syng Jólahjól þar til ég verð rauð í framan. 

Ef allt bregst mun ég eyða einhverjum tíma í IKEA þar sem jólin byrjuðu í október. Mér skilst að enginn sleppi þaðan ó-jólaður . Vika ætti að duga mér.

Þar til næst..