22. janúar 2012

Elsku Astrid...

.. um leið og ég þakka þér kærlega fyrir yndislegar stundir í æsku minni, þegar ég týndist í undraheimi Ronju, Línu, Míó og bróðurs míns ljónshjarta, veit ég ekki alveg hvernig ég á að orða það sem kemur hér á eftir.

Þannig vill til að ég á 6 ára stelpu sem er með rautt hár, freknur og óslökkvandi þorsta fyrir sögum. Hún telur nú, eftir sirka 2-3 ÁRA Línu tímabil að hún sé Lína. Raunverulega.

Á föstudaginn kom ég inn í herbergið hennar og sá hana hvergi. Það var af því að augnlína mín var ekki að kíkja á það sem var ofar en þeir rösku 120 sentimetrar sem hún telur nú í hæð. Hún var auðvitað búin að koma sér fyrir uppá rúmgrindinni því að það er mjög eðlilegt fyrir Línur þessa heims.

Hún svaf "öfugt" í rúminu sínu um daginn. Ég veit ekki hvernig henni datt það í hug.

Mér telst svo til að hún hafi hlustað á leikritið um Línu 20-30 sinnum síðastliðna viku.

Hún bað um apa á laugardaginn. Lifandi. Til vara vill hún hest.

Hún mætir reglulega í skólann klædd í Línukjólinn sinn og í sitthvorum sokknum.

Ég orga líklega ef ég heyri aftur söng sjóræningjana þegar þeir mæta í bæinn.

Elsku Astrid. Ég get ekki meiri Línu. Ég vona að þú skiljir það.

Við lásum líka spenntar um elsku Míó minn sem ferðaðist um Landið í fjarskanum og fundum fyrir ískaldri klónni sem tilheyrði riddaranum Kató. Það hreinlega lamaði okkur úr hræðslu.

Hún svaf ekki í viku.

Af og til skreppur hún þó í heimsókn til Maddit og Betu þar sem hún lærir nýja hluti. Var pínu stressuð að lesa fyrir hana kaflann þegar Maddit gekk eftir húsmæninum á skólanum. Hún virðist þó ekki hafa pikkað það upp ennþá.  Hún elskar þó orðið drullusokkur sem hún lærði ásamt Betu í síðustu viku.

Við erum núna að verða búnar með Maddit og Betu. Þurfum að fara að finna nýja bók. Mig langar ægilega að lesa fyrir hana Ronju, en hún er víst ófáanleg á Íslandi. (Sem betur fer?)

Er þó nokkuð viss um hvaða orð verða í uppáhaldi ef sú bók finnst.

Sagt og sungið hátt og snjallt af barninu sem getur ekki sagt íslenskt R.

Setjið franskt R í staðinn fyrir það íslenska og endurtakið nokkrum sinnum:

Rassálfar og Rebekka Ræningjadóttir.

Fyndið Astrid? Fyndið?

...já, eiginlega. Drepfyndið.

Þar til næst..

p.s. ég ætla bara að sleppa því að lesa um Emil. Tek bara ekki sénsinn.

6 ummæli:

  1. Nafnlaus11:56 e.h.

    Snilld ! Þ.e.a.s. þið báðar :-) (Signý)

    SvaraEyða
  2. Híhíhí, mjög sniðugt að sleppa bara Emil!

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus2:18 e.h.

    elsku Sigurlaug, ég skal lána ykku Ronju og þá getur Rebekka æft sig á að detta ekki í helvítisgjána ;) það er klassi!

    SvaraEyða
  4. Úllalla.. hljómar vel að fá bókina lánað. Ef ég bara vissi hver þú ert kæri/a Nafnlaus... :)

    SvaraEyða
  5. Vúpps. Ég keypti Emil handa Ólíver, svona til að hafa eitthvað strákalegt. Þetta hljómar eins og ég eigi bara að "týna" DVD disknum áður en hlutirnir fara útí vitleysu.

    SvaraEyða
  6. áður en þú lest Emil fela súpuskálina eða kökukúpulinn

    SvaraEyða