11. júlí 2014

Hopp og skopp í drullupollum!


Einhverntíman lofaði ég mér því að pólítískur pistil yrði aldrei skrifaður af mér.  Og þetta er ekki sá pistill.

Ég er bara með smá velgju hérna hinum megin við hafið, rýnandi í gegnum netgáttina til Íslands. Velgjan hlýtur að vera tilkomin af öllum þessum útlenska mat sem ég hef þurft að láta mér duga síðustu 7ár sem ég hef búið hér. Trúlega. Eða af umfjöllun um skyldur. Sér í lagi borgaralegar skyldur.

Mér finnst nefnilega ótrúlega aðdáunarvert þegar að fólk tekur það upp hjá sjálfu sér að stöðva áflog. Tekur bíllykla af drukknu fólki korteri áður en það sest undir stýri. Lætur í sér heyra þegar óréttlæti á sér stað. Eða tekur upp ruslið til að stuðla að betri stað fyrir alla. Þannig borgaralegar skyldur eru kúl og aðdáunarverðar.

Borgaraleg skylda á ekkert skylt með faglegri ákvörðunartöku þegar skórinn passar ekki. Kommon krakkar, þetta vitum við öll.  Þegar ég verð beðin um að stýra ákvörðunarhóp sem fjallar um ráðningu á næsta forstjóra Landspítalans ætla ég að segja. “Ji, en gaman. Ég er upp með mér að þið hafið haft mig í huga, ..en samt. Nei takk.” Af því að þó ég hafi ótrúlega gaman af læknadrama, hafi heimsótt nokkra úr þeirra starfstétt, hafi kannski örlítinn snefil af reynslu að stjórna smærri teymum er ég bara engan veginn hæf í djobbið. Barasta alls ekki.  Og því er rétt að segja; "nei takk" (..samt geðveikt kúl að manni hafi verið boðið giggið!).

Borgaralega skylda á heldur ekkert skylt með umsjón með þverfaglegum verkefnum ef stígvélið passar ekki. Er það borgaraleg skylda að taka að sér starf sem felur í sér fræðilega úttekt á efni sem búið er bókstaflega að spreyja með dassi af vændlætingu og pólitískum réttrúnaði. Svona ef maður sjálfur hefur haldið á spreybrúsanum?  Nei, ég segi bara svona.

Er þetta í alvöru eins og við ætluðum að plana nýja Ísland? Átti þetta ekki að verða faglegra og vandaðra og heiðarlegra.  Á ég kannski að bæta við gegnsærra? Afhverju erum við að ana fram og ráða okkur erlenda faglega ráðgjafa til að leysa úr vandanum eftir að vandinn er búinn að kremja okkur í klessu, í stað þess að fá sambærilega faglega (erlenda eða innlenda, skiptir ekki máli) áður en við hoppum aftur í sama drullupollinn.

Vona að þið séuð öll í regnkápum og stígvélum. Ég ætla að halda áfram að borða eitraða kjötið hérna úti og rýna í gegnum gáttina ríghaldandi í þá von að það stytti upp að lokum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli