3. janúar 2012

Áramótageit...

.. frekar en áramótaheit. Því að á þessum bæ eru áramótaheit ekki strengd.

Ég veit ekki afhverju, en líklega tengist það óstjórnlegri og ótrúlega órökvísri hjátrú.

Ég er nefnilega þannig að það jaðrar við geðveiki þegar talið berst að hjátrú.

Er ótrúlega sannfærð um að ef maður strengir þessi áramótaheit, þá sé maður að búa sér til vandræði.

Á vinkonu sem sagði mér einu sinni að hún ætlaði aldrei aftur að lýsa því yfir að komandi ár yrði það best í heimi.. af því að árið sem hún gerði það, var árið sem allt beisiklý fokkaðist upp (pardon my language..).

Ég er því sannfærð um að það myndi gerast í mínu tilfelli líka.

Ef ég tildæmis myndi segja það opinberlega að ég ætlaði að léttast um 10 kíló á nýju ári, þá myndi ég líklega enda upp sem heimsins feitasta kona, búin að bæta á mig 320 kílóum á komandi ári.

Ef ég segðist ætla að byggja sumarbústað á ákveðnu ári, þá myndi bústaðurinn væntanlega breytast í ryðgað hjólhýsi frá 1974.

En ég er ótrúlega góð í forvörnum.

Ég hugsa að það myndi liggja sirka heilt kíló af salti á gólfinu í eldhúsinu hjá mér ef það væri ekki sópað reglulega. Því að eins og allir vita á maður að kasta salti yfir öxlina á sér ef maður missir niður saltkorn. Alltaf. Er samt ekki alveg viss út af hverju, en allur er varinn góður.

Held að það sé ekki til sá viður sem ég hef ekki barið í reglulega með ákveðinni tölurunu.

Fer ekki mikið undir stiga..og siga hundinum á alla svarta ketti í nágrenninu.

Óska samt ykkur öllum gleðilegs árs og gæfu á komandi ári... og að ykkur takist að ná öllum ykkar markmiðum strengdum á þessum áramótum.

Reyni kannski að venja mig af matvendni þegar kemur að geita-afurðum á árinu, samanber titilinn.. en lofa engu. Þetta er þvílíkur viðbjóður að það er engu lagi líkt.

Ef þetta væri formlegt áramótarheit, sem það er ekki, væri líklegt að ég myndi enda sem þræll á geitabúi í lok árs. Treysti á að það gerist ekki.

Sjö, níu, þrettán.

Þangað til næst..

1 ummæli: